uppfært 17. júlí 2022

Laugavegshlaupið fór fram í 26 sinn í ár, en veðurspáin var ekki góð í vikunni fyrir hlaupið og miklar varúðarráðstafanir þurfti að gera, t.d. að bæta við jakka sem skyldubúnað hjá hlaupurum.

Hlaupið byrjaði í Landmannalaugum og veðrið var mjög gott í startinu. Aðstæður voru snúnar hjá Brennisteinsöldu þar sem mikill snjór hefur safnast þar. Reynt var að moka snjóinn fyrir hlaupið, en hlauparar fengi aðeins öðruvísi byrjun á leiðinni en þeir eru vanir.

Veðrið sýndi svo sínar bestu hliðar í hlaupinu og hlauparar töluðu um fínar hlaupaaðstæður, en fáir voru stoppaðir af tímatakmörkunum við Álftavatn og Emstrur.

Andrea Kolbeinsdóttir stórbætti mótsmetið um 22 mínútur

Andrea Kolbeinsdóttir 23 ára kom aftur sá og sigraði þegar hún stórbætti ársgamalt brautarmet sem hún setti sjálf í fyrra þegar hún hljóp fyrst kvenna undir 5 klukkustundum. Andrea hljóp á 4:33:07 og bætti því metið um 22 mínútur. Andrea varð einnig í 7. sæti í heildarkeppninni sem telst einnig frábær árangur og í 4. sæti af Íslendingum.

Önnur var Íris Anna Skúladóttir á tímanum 5:18:31 í sínu öðru hlaupi. Þriðja var svo Elísabet Margeirsdóttir sem hljóp á 5:28:22, en þetta er í 13 sinn sem Elísabet hleypur Laugaveginn. Engin kona hefur hlaupið hann oftar en hún.

Arnar Pétursson sigraði í sínu fyrsta Laugavegshlaupi

Það var mikil spenna í markinu þegar von var á fyrstu hlaupurum þar sem Andrew var rétt á undan Arnari í Emstrum og því erfitt að segja til hver kæmir fyrstur í mark. Arnar Pétursson sem er þekktari fyrir að sigra hlaup á malbikinu, tók þátt í sínu fyrsta Laugavegshlaupi, en hann kom dansandi í mark á tímanum 4:04:53. Hann hafði lengst hlaupið 26 km í utanvegahlaupi og því var spennandi að sjá hvort hann ætti möguleika í Skotann Andrew Douglas sem sigraði Laugavegshlaupið í fyrra. Andrew Douglas kom annar í mark á tímanum 4:08:34 sem er bæting frá því í fyrra. Þriðji var Kris Brown frá Bandaríkjunum á tímanum 4:16:30. Þorsteinn Roy Jóhannsson kom fjórði í mark á 4:27:45.