Laugavegsuppgjör - Snorri og Rannveig fyrst Íslendinga

uppfært 25. ágúst 2020

Laugavegshlaupið fór fram í frábærum aðstæðum í gær sunnudag, meðvindur var stóran part hlaupaleiðarinnar og frábær árangur náðist. Rannveig Oddsdóttir setti nýtt brautarmet í kvennaflokki þegar hún sigraði Laugavegshlaupið í þriðja sinn. Fulltrúar hlaup.is voru að sjálfsögðu á staðnum og tóku fjölda viðtala sem má sjá hér að neðan sem og á Facebooksíðu hlaup.is. Þá birtist hefðbundinn myndapakki úr hlaupinu á hlaup.is innan tíðar. Heildarúrslit úr Laugaveginum verða birt á hlaup.is um leið og þau berast.

Drottningar börðust - Rannveig hafði sigur
Keppnin var mjög spennandi í kvennahlaupinu enda þrjár ókrýndar utanvegadrottningar á meðal keppenda. Anna Berglind Pálmadóttir sigurvegarinn frá því í fyrra leiddi hlaupið lengi vel, en Rannveig Oddsdóttir reyndist sterkust og hafði sigur að lokum.


Rannveig Oddsdóttir, sigurvegari í kvennaflokki.

Rannveig hljóp á nýju brautarmeti, 5:00:29, en gamla metið var 5:00:46. Anna Berglind kom í mark á 5:05:53 sem er þriðji besti tíminn frá upphafi, en hún sigraði í fyrra á tímanum 5:24:00 og bætti sig því töluvert. Elísabet Margeirsdóttir hafnaði í þriðja sæti á tímanum 5:28:08, þar sem hún bætti sinn besta tíma. Einnig vann hún sinn flokk 30-39.

Kóngurinn mannlegur - Snorri Björns fyrstur Íslendinga
Keppnin hjá körlunum var spennandi fyrst um sinn þar sem ofurmennið og margfaldur Laugavegskóngur Þorbergur Ingi Jónsson leiddi hlaupið lengi vel, en varð svo að draga sig úr keppni vegna meiðsla.

Vaidas Zlabys frá Litháen sigraði á tímanum 4:17:29, sem er fimmti besti tíminn í Laugavegshlaupinu. Þess má geta að brautarmetið 3:59:13 er í eigu Þorbergs Inga. Annar var Maxime Sauvageon á tímanum 4:33:45, Maxime er frá Frakklandi en býr hér á landi. Snorri Björnsson var þriðji í mark í heildarkeppninni en, fyrstur Íslendinga til að koma í mark. Hann hljóp á tímanum 4:33:45 og stendur einnig upp sem sigurvegari í flokki 18-29 ára.


Snorri Björnsson, sigurvegari í karlaflokki.

Þess má geta að enginn hlaupari var stoppaður vegna tímatakmarkana í hlaupinu í gær. Á verðlaunaafhendingu var Höskuldur Kristvinsson heiðraður fyrir sitt 20 Laugavegshlaup, ótrúlegt afrek það. Höskuldur sem er 71 árs kom í mark á tímanum 8:45:57. Þess má einnig geta að Jóhann Karlsson 72 ára var einnig meðal þátttakenda í gær og kom í mark á 6.36.25. Stórkostlegir öldungar þarna á ferð.

Hér að neðan má sjá fjölmörg viðtöl sem fulltrúi hlaup.is tók í gær.