Leiðbeiningar landlæknis fyrir almenningshlaup 5. júní 2020

uppfært 25. ágúst 2020

Eftirfarandi leiðbeiningar voru gefnar úr fyrir almenningshlaup 5. júní 2020 af Embætti Landlæknis:

1. Mótshaldari minnir þátttakendur á að hver og einn ber ábyrgð á eigin sóttvörnum, virðir reglur um 2ja metra nándarmörk og að safnast ekki saman við endamarkið. Einnig að spýta ekki frá sér í hlaupinu eða snýta sér nema tryggt sé að enginn geti fengið úðann yfir sig.

2. Starfsfólk hafi aðgang að einnota hönskum og handspritti. Sóttvarnaráðstafanir íþróttamannvirkja vegna COVID-19, taka gildi 5. júní 2020 9

3. Skráningu þarf að ljúka að lágmarki 5 dögum fyrir viðburð svo mótshaldari geti skipulagt hlaup miðað við skráðan fjölda. í skráningargögnum er skráð hvatning til þátttakenda um að hlaða niður smitrakningarappi almannvarna.

4. Gefa þarf lengri tíma en í venjulegu ári til að afhenda keppnisgögn og forðast þrengsli. Við afhendingu gagna fær þátttakandi úthlutað rástíma ef ræsa þarf í hópum samkvæmt þeim hámarksfjölda sem er gefin út af HRN á hverjum tíma. 5. Upphafsstaður hlaups þarf að vera rúmgóður þannig að hægt sé að virða 2ja metra reglu um nándarmörk. Handspritt þarf að vera sýnilegt á upphafsstað.

6. Ekki má ræsa fleiri á sama tíma en sem nemur hámarksfjölda í rými samkvæmt auglýsingu HRN. Börn fædd 2005 og síðar eru ekki talin með. Starfsmenn eru hluti af hámarksfjölda. Lagt er til að hópar séu ræstir út með 5-15 mínútna millibili samkvæmt vegalengd og aðstæðum og að flögutími gildi.

7. Svæði 1= Startsvæði - merkt á götu og nægilega stórt svo hægt sé að virða 2ja metra nándarmörk.

8. Svæði 2= Biðsvæði næsta hóps - nægilega stórt svo hægt sé að virða 2ja metra nándarmörk.

9. Lagt er til að hröðustu iðkendur séu ávallt ræstir í fyrsta hópi.

10. Lagt er til að ekki verði drykkjarstöðvar á styttri vegalengdum en á lengri vegalengdum (>21 km) sé boðið upp á rúmgóðar drykkjarstöðvar þannig að hægt sé að virða 2ja metra reglu um nándarmörk. Ef boðið er upp á drykkjarstöð þá séu drykkir eða önnur hressing afhent af starfsmönnum en hlauparar sæki ekki sjálfir. Rúm ruslaílát séu til staðar fyrir hlaupara að henda ílátum, án smithættu. Ekki má henda glösum á götuna.

11. Marksvæði þarf að vera rúmgott þannig að hægt sé að virða 2ja metra reglu um nándarmörk. Þátttakendur hvattir til að staldra ekki við í marki og þeir taka sjálfir af sér flögu, strjúka yfir hana með sótthreinsilegi sem lagt er fram við skilastað flögunnar. Skilastaður þarf að vera á löngu borði og sótthreinsilögur dreifður um borðið. Boðið skal upp á handspritt við útgang af marksvæði.

12. Ekki er mælt með hefðbundinni verðlaunaafhendingu.

13. Ekki má „drafta" í hjólreiðakeppnum nema keppendur hafi komið sér saman um slíkt áður en keppni hefst. Þannig getur 15-25 manna hópur fylgst að í keppni ef allir þátttakendur eru sammála þeirri ráðstöfun.