Miðnæturhlaupið fer fram í þrítugasta sinn fimmtudaginn 22. júní

uppfært 21. júní 2023

Miðnæturhlaup Suzuki fer fram í þrítugasta sinn fimmtudaginn 22. júní næstkomandi og því verður blásið til afmælisveislu. Hlaupið er haldið af Íþróttabandalagi Reykjavíkur og er hluti af mótaröð hlaupa sem fara fram í sumar sem nefnist Gatorade Sumarhlaupin. Þó svo að skráningu er ekki lokið hefur skráning gengið vonum framar og ljóst er að áhuginn er mikill bæði innanlands og erlendis. Alls hafa 1660 hlauparar á aldrinum 7-83 ára skráð sig og þar af 669 erlendir gestir. Flestir frá Bandaríkjunum alls 276 talsins, en þar á eftir koma 107 frá Bretlandseyjum, 31 frá Þýskalandi og 27 frá Kanada.

Hægt er að skrá sig á heimasíðu hlaupsins og einnig í Laugardalshöll á hlaupadag, en skráning lokar þar 5 mínútum áður en hlaup hefst. Þar verður einnig hægt að sækja hlaupagögn á degi hlaupsins.

Hlauparar verða ræstir af stað á Engjavegi í Laugardal á eftirfarandi tímum:

  • 21:00 - Ræsing 10 km og 21,1 km
  • 21:15 - Ræsing 5 km

Hlauparar koma í mark í trjágöngunum við gömlu þvottalaugarnar fyrir neðan Skautahöllina. Reikna má að hlauparar verði komnir í mark um miðnætti og fá allir þátttakendur afmælis medalíu, afmælisköku og boð í sundlaugarpartý í Laugardalshöll að loknu hlaupi þar sem boðið verður upp á drykk frá Ölgerðinni og mun DJ Danni Sæberg spila ljúfa tóna fyrir gesti. Í Miðnæturhlaupi Suzuki er að mestu hlaupið á stígum en þó að hluta til á götum. Vegna hlaupsins verður óhjákvæmilega einhver truflun á umferð, en loka þarf nokkrum götum í stutta stund á meðan að hlauparar fara hjá. Göturnar sem um ræðir eru Engjavegur, Gnoðarvogur, Álfheimar, Skeiðarvogur, Sogavegur, Sævarhöfði og Bíldshöfði. Hér á heimasíðu hlaupsins má sjá nánari upplýsingar um truflun á umferð.

Ökumenn sem eiga leið hjá eru góðfúslega beðnir að taka tillit til hlaupara og starfsmanna hlaupsins. Þátttakendur geta valið milli þriggja vegalengda: hálfamaraþons(21,1 km), 10 km og 5 km. Allar hlaupaleiðir í Miðnæturhlaupi Suzuki eru löglega mældar samkvæmt reglum AIMS sem eru alþjóðlega samtök hlaupa. Því er allur árangur og met sem slegin eru í hlaupinu viðurkennd.

Heimasíða hlaupsins: https://www.midnaeturhlaup.is/MH

Mynd: Ólafur Þórisson