Mitt eigið sóló maraþon 19. apríl - 17. maí 2020

uppfært 25. ágúst 2020

Boston maraþoninu frestað, Hamburg maraþoni frestað, Vínarborgar maraþoninu aflýst, Kaupmannahafnarmaraþoninu aflýst, Riga maraþoni frestað og Vormaraþoni aflýst! Þetta eru hlaupin sem Valsskokkarar voru að stefna á. Stór hópur að fara til Riga og einstaka hlauparar að fara í hin hlaupin ásamt félögum okkar úr Ægir 3. Hlauparar búnir að leggja inn tugi klukkutíma í æfingar síðan í janúar og mikil eftirvænting eftir stóra deginum. Margir úr hópnum að stíga sín fyrstu skref í maraþon undirbúningi og eins fjölmargir að fara sitt fyrsta hálfa maraþon eða settu markið á bætingu.

Mitt eigið sóló maraþon

Það sem heldur mörgum hlaupurum við efnið er að hafa eitthvað til að stefna á. Að hitta félagana og hafa markmið. Sumum finnst hreinlega ómögulegt að hlaupa á eigin vegum meðan öðrum finnst það lítið mál. Það er eitthvað við það að vera með krefjandi markmið. Sjá fyrir sér þegar maður kemur í mark, horfa til baka og vera stoltur af sjálfum sér, eftir þrotlausar æfingar í allskonar veðri sem Ísland hefur upp á að bjóða. Til þess þarf aga, staðfestu, þrautseigju og viljann til þess að sjá markmiðið, drauminn okkar rætast. Persónulegur sigur.

Það þarf ekki skipulagða stóra keppni með mikilli umgjörð til þess að eiga gott hlaup og góðar minningar. Því hvet ég alla hlaupara til þess að hlaupa sitt eigið sóló maraþon, upplifun sem þú gleymir aldrei. Þessi tími er sérstakur, af hverju ekki að minnast þess með því að fagna þess að þú ert í góðu formi og getur hlaupið þitt eigið maraþon, sóló.

Nánar um hlaupið
  • Til þess að taka þátt þarftu að velja þína leið, 21,1 km eða 42,2 km á tímabilinu 19. apríl - 17. maí 2020.
  • Skilyrðin eru að þú hlaupir sóló þ.e. á eigin vegum - ekki í skipulagðri keppni. Þú getur valið að hlaupa götumaraþon eða utanvegar, eða blandað því saman. Þitt er valið, þú velur þína eigin leið.
  • Leiðin þarf að enda í það minnsta 21,1 km eða 42,2 km með GPS mælingu (t.d. Strava, Garmin).
  • Þú skráir vegalengd, tíma og hækkun ásamt link inn af þínu hlaupi úr Strava/Garmin sem sönnun þess að þú hafir hlaupið þitt eigið maraþon inn á link sem kemur inn hér á síðuna þegar nær dregur.
  • Allar niðurstöður birtar inn á hlaup.is

Facebook hópur fyrir viðburðinn og skráning í viðburðinn.

Gangi ykkur vel og góða skemmtun,
Rúna Rut Ragnarsdóttir, þjálfari hjá Valur skokk