uppfært 18. október 2020

Það var beðið með mikilli eftirvæntingu í eftir keppni í karla- og kvennaflokki á HM í hálfu maraþoni sem fram fór í dag laugardaginn, 17. október í Póllandi. Bæði vegna þess að lítið hefur verið um keppnir á þessu ári og svo vegna þess að Joshua Cheptegei (UGA) var að hlaupa sitt fyrsta keppnis hálf maraþon og mikils vænst af honum eftir að hafa sett hvert heimsmetið á fætur öðru á þessu ári. Alls voru skráðir keppendur 283 talsins frá 62 löndum. Hlaupnir voru fjórir 5 km hringir í borginni Gdynia í topp aðstæðum.

Fyrstar hlupu konurnar og var mikil barátta frá upphafi, þar sem 12 kvenna hópur sleit sig strax frá öðrum hlaupurum á fyrsta kílómeter. Í þessum fremsta hóp var heimsmeistarinn frá því í á síðasta HM 2018, Netsanet Gudeta (ETH), en eftir tæplega 10 km féll hún við í krappri beygju en reis skjótt á fætur en var þá búin að missa forystuhópinn fram úr sér og ljóst að hún ætti erfitt með að ná þeim og verja þannig heimsmeistaratitil sinn.

Dramatíkin var ekki búin því á síðasta 5 km hringnum, eftir ca. 17 km, virtist Joyciline Jepkosgei (KEN) stíga aftan á hæl Ababel Yeshaneh (ETH) og fella hana. Á þessum tíma var Yeshaneh búin að koma sér þægilega fyrir í forystu og leit vel út. Við þetta þá drógust þær stöllur aftur úr forystuhópnum og allt í einu voru aðstæður gjörbreyttar með tvær af bestu hlaupurunum 10-15 metrum á eftir forystuhópnum, sem nú taldi aðeins 3 konur og aðeins 4 km eftir. Það nýttu þær sér Peres Jepchirchir 1:05:16 (KEN), Melat Yisak Kejeta 1:05:18 (GER) og Yalemzerf Yehualaw 1:05:19 (ETH) sér þegar þær nældu sér í efstu þrjú sætin í hlaupinu. Þess má geta að Jepchirchir setti heimsmet í „Womans only“ hálfmaraþoni.

Keppt var í liðakeppni þar sem fimm konur skipuðu landsliðið og þar var það lið Eþíópíu sem sigraði í liðakepninni á 3:16:39, í öðru sæti var lið Kenya á 3:18:10 og í þriðja sæti var lið Þýskalands á 3:28:42.

Heildarúrslit kvenna er hægt að sjá á vef Alþjóða frjálsíþróttasambandsins.

Jepchirchir A HM 2020
Peres Jepchirchir (KEN)

Þá var komið að körlunum, þar sem mikil eftirvænting var eftir árangri Joshua Cheptegei (UGA) sem var búinn að setja þrjú heimsmet á árinu í 5 km götuhlaupi, 5000m brautarhlaupi og 10000m brautarhlaupi.

Karlarnir fóru ekki af stað með sama krafti og konurnar og eftir að milltími á 5 km upp á 14:19 var orðinn ljós, stefndi allt í að tími fyrsta manns yrði ekki undir 60 mínútum. Forystuhópurinn taldi 20-25 manns, þannig að enginn tók af skarið. Með þessu rólega upphafi leit líka út fyrir að reynslumestu hálfmaraþon hlaupararnir væru að spila sigrinum upp í hendurnar á Cheptegei, þar sem hann gæti nýtt sér mikinn 10 km hraða sinn og klárað hlaupið á seinni 10 km. Smátt og smátt jókst þó hraðinn og 5 km millitímarnir enduðu í 14:19-14:04-13:54-13:38. Það var líka augljóst að Cheptegei var ekki í toppstandi því hann vantaði allan ferskleika og virtist þyngir en vanalega allan seinni hluta hlaupsins, þó hann lenti að lokum í 4. sætinu.

Smátt og smátt fækkaði í forystuhópnum og það var ekki fyrr en eftir 15 km sem Kandie (KEN) og Kiplimi (UGA) pressuðu á hópinn og náðu smá forystu með þá Walelegn (ETH) og Cheptegei (UGA) stutt á eftir sér. Þarna var samt orðið ljóst að Cheptegei (UGA) gat ekki svarað þessari pressu og dróst smátt og smátt meira aftur úr. Kiplomo (UGA) tók síðan á rás þegar um 2-3 km voru eftir og sýndi mikinn styrk þegar hann stakk hina hlauparana af og sigraði á nýju heimsmeistaramótsmeti 58:49. Á eftir honum komu svo Kandie (KEN) á 58:54 og í þriðja sæti varð Walelegn (ETH) á 59:08 og í fjórða sæti Cheptegei á 59:21.

Keppt var í liðakeppni þar sem fimm karlar skipuðu landsliðið og þar var það lið Kenya sem sigraði í liðakepninni á 2:58:10, í öðru sæti var lið Eþíópíu á 2:58:25 og í þriðja sæti var lið Uganda á 2:58:39.

Heildarúrslit karla er hægt að sjá á vef Alþjóða frjálsíþróttasambandsins.

Kiplimo Og Cheptegei HM 2020
Kiplimo (UGA) og Cheptegei (UGA)

Það sem vakti athygli var að 20 landsmet voru sett (þar átti Hlynur Andrésson eitt af þeim) og stærsti hluti hlauparanna var að bæta sinn besta tíma (PB). Af 122 körlum bættu 69 karlar sinn besta tíma og af 105 konum bættu 66 sinn besta tíma. Þetta eru ótrúlegar staðreyndir og það er hægt að velta fyrir sér ástæðunni. Er þróun á skóm að skila þessu, var brautin og aðstæður svona góðar og/eða voru allir hlaupararnir svona keppnisþyrstir og lögðu allt sitt undir í hlaupinu ? Eða spilar allt þetta inn í ?

Myndir skjáskot úr beinni útsendingu á netinu hjá Alþjóða frjálsíþróttasambandinu.