uppfært 06. desember 2020

Kenýamaðurinn Kibiwott Kandie setti nýtt heimsmeti 57:32 í Valencia hálf maraþoninu sem fram fór í Valencia á Spáni í dag sunnudaginn 6. desember og var eingöngu fyrir heimsklassa hlaupara. Hann bætti metið, sem var 58:01 frá 2019 og í eigu annars Kenýamanns Geoffrey Kamworor, um 29 sekúndur og var þar með fyrsti maðurinn til að hlaupa hálft maraþon undir 58 mínútum.

Í þessu hlaupi hlupu að auki 3 aðrir hlauparar undir gildandi heimsmeti en það voru heimsmeistarinn í hálfu maraþoni, Jacob Kiplimo (57:37), Rhonex Kipruto (57:49) og Alexander Mutiso (57:59). Þess má geta að Kandie og Kiplimo háðu harða baráttu fyrir nokkrum viku á heimsmeistaramótinu í hálfu maraþoni sem haldið var í Póllandi, þar sem Kiplimo hafði sigur.

Í kvennakeppninni sigraði Genzebe Dibaba frá Eþíópíu á tímanum 1:05:18, í öðru sæti varð Sheila Chepkirui með 1:05:39 og í þriðja sæti Senbere Teferi, sem sigraði 2019, á tímanum 1:05:51.

Í maraþoninu sem einnig var haldið eingöngu fyrir heimsklassa hlaupara, sigraði Evans Chebet á 2:03:00 og í kvennahlaupinu sigraði Peres Jepchirchir á nýju brautarmeti 2:17:16.

Peres Jepchirchir
Peres Jepchirchir, sigurvegari í maraþoni kvenna