uppfært 06. október 2020

London maraþon fór fram í morgun og fengu eingöngu "elite" hlauparar að taka þátt. Aðstæður voru ekki góðar, rigning og 10 stiga hiti. Það var því ekki gert ráð fyrir að met yrðu slegin. Hlaupnir voru rúmlega 19 hringir á lokaðri braut í kringum St. James Park þar sem engir áhorfendur gátu séð inn á brautina og miklar varúðarráðstafanir gerðar vegna COVID-19.

Aðrir hlauparar gátu tekið þátt í sýndarhlaupi og hafa einn sólarhring til að klára hlaupið. Talið er að um 45.000 hlauparar taki þátt í sýndarhlaupinu.

Í hlaupinu var reiknað við miklu einvígi á milli Ólympíumeistarans og heimsmethafans Eliud Kipchoge (2:01:39) og Kenenisa Bekele (2:01:40), en vegna kálfameiðsla þurfti Bekele að hætta við þátttöku.

Kipchoge 2
Kipchoge kemur í mark í einu af þeim London maraþonum sem hann hefur sigrað

En úrslitin urðu óvænt því þegar 5 km voru eftir, þá var ljós að Eliud Kipchoge var í vandræðum og náði ekki að fylgja hóp hlaupara sem tók þá forystu í hlaupinu. Það fór svo að Eþíópíumaðurinn Shura Kitata sigraði á tímanum 2:05:41 og Kenyamaðurinn Vincent Kipchumba var í öðru sæti á 2:05:42 eftir hörku endasprett.

Shura Kitata
Shura Kitata sigurvegarinn í London maraþoni 2020

Eliud Kipchoge endaði í áttunda sæti á tímanum 2:06:49 sem er líklega með hans slökustu keppnistímum tímum á ferlinum og náði því ekki að næla sér í sinn 5 sigur í London maraþoninu. Í viðtali eftir hlaup sagði Kipchoge að hann hafi fengið verk og hætt að heyra með hægra eyranu þegar 15 km voru eftir, líklega út af kuldanum. Einnig sagðist hann hafa fengið krampa og verið í vandræðum með verk í mjöðminni. Þetta var því ekki hans dagur.

Í kvennahlaupinu sigraði Brigid Kosgei heimsmethafi kvenna (2:14:04) á tímanum 2:18:58 og í öðru sæti var Sara Hall á tímanum 2:22:01.

Brigidkosgei
Brigi Kosgei kemur í mark í London 2020 maraþoninu