uppfært 14. maí 2021

Laugardaginn 8. maí fór Puffin Run fram í fjórða skiptið með metþátttöku, en um 820 manns hlupu stórkostlega fallegan 20 km hring í Vestmannaeyjum að mestu utanvega.

Hlaupið hefst við höfnina og leiðin liggur svo til að byrja með í gegnum bæinn og út í Herjólfsdal og kringum golfvöllinn þar sem stefnan er tekin á stíga sem liggja í jaðri eyjarinnar og hlaupið meðfram sjónum í áttina að Stórhöfða. Á leiðinni er hlaupið í sandfjöru en síðan tekur við löng brekka nánast upp á topp á Stórhöfða, þar sem skiptistöð fyrir 2x10 km og 4x5 km boðhlaupssveitirnar eru. Að Stórhöfða loknum er síðan hlaupið umhverfis flugvöllinn og upp á og inn í Eldfellið og hlaupinu lýkur svo með 2-3 km kafla í hrauninu og fjörunni áður en hlauparar geysast í markið á Skansinum.

Þessi fallega og fjölbreytta hlaupaleið eykur vægast sagt á gleðina hlaupurum sem allir komu skælbrosandi í mark eftir skemmtilegt hlaup.

Við tókum viðtal við Magnús Bragason sem er skipuleggjandi hlaupsins ásamt fjölmörgum öðrum Eyjamönnum og hann sagði okkur frá undirbúningnum sem tók margar U-beygjur út af Covid faraldrinum.

Töluvert af sterkum hlaupurum tók þátt í hlaupinu að þessu sinni og í karlaflokki sigraði Þorsteinn Roy Jóhannsson á nýju brautarmeti 1:20:09. Í öðru sæti varð Sigurjón Ernir Sturluson og í þriðja sæti varð Ingvar Hjartarson.

Í kvennaflokki var ekki síður góður hópur að keppa, en þar sigraði hin magnaða hlaupakona Rannveig Oddsdóttir einnig á nýju brautarmeti kvenna, 1:34:30. Í öðru sæti var Verena Schnurbus og í þriðja sæti var Thelma Björk Einarsdóttir.

Önnur úrslit er hægt að sjá hér á hlaup.is.

Hlaup.is var á staðnum og myndaði hlauparana og hægt er að skoða myndasafnið á hlaup.is. Ef þú vilt styrkja okkur, þá er ein leiðina að kaupa mynd af hlaup.is :-)

Við tókum einnig vídeó af öllum hlaupurum þegar um 4 km voru búnir af leiðinni og verða þau öll birt fljótlega. Hér fyrir neðan er hægt að sjá vídeó af hlaupurum sem voru í fyrsta ráshólfi, en það voru hröðustu hlaupararnir.