Rannsókn á algengi einkenna álagsmeiðsla og þjálfunarálags meðal hlaupara á Íslandi

uppfært 06. ágúst 2021

Auglýst er eftir hlaupurum til að taka þátt í rannsókn á algengi einkenna álagsmeiðsla og þjálfunarálags meðal hlaupara á Íslandi.

Þátttakendur þurfa að vera 18 ára eða eldri, og stunda hlaup sér til skemmtunar, heilsuræktar eða með árangur í huga (afreksmennsku). Þátttaka felst í að svara könnun rafrænt í tölvu eða snjalltæki. Það eru 57 spurningar í könnuninni og það tekur innan við 10 mín að svara þeim öllum.

Markmið: Með rannsókninni er markmiðið að komast að því hvort algengi álagsmeiðsla meðal hlaupara á Íslandi sé jafn algengt og rannsóknir hafa sýnt víða erlendis. Einnig er markmiðið að kanna hvernig hlauparar upplifa þjálfunarálagið í hlaupunum og hvort það tengist á einhvern hátt álagsmeiðslum.

Könnunin er opin frá 5. til 18. ágúst að báðum dögum meðtöldum en hver hlaupari skal svara henni aðeins einu sinni. Þú getur smellt hér (eða notað https://uni.hi.is/thorasve/rannsoknir/algengi-einkenna-alagsmeidsla-og-thjalfunaralags-medal-hlaupara-a-islandi/) til fá nánari upplýsingar um rannsóknina og taka þátt í henni. Hlauparar og umsjónarmenn hlaupahópa eru hvattir til að deila þessari auglýsingu inn á þá samfélagsmiðla sem þeirra hlaupahópur, eða hlaupasamfélag notar.

Ekki er um neinar greiðslur að ræða til þátttakenda fyrir þátttöku. Engra persónugreinanlegra upplýsinga verður aflað í könnuninni. Rannsakendur fá heldur engar upplýsingar sem hægt er að rekja til þeirrar tölvu eða snjalltækis sem þátttakendur nota til að svara spurninunum. Þessi rannsókn hefur verið samþykkt af Vísindasiðanefnd og tilkynnt til Persónuverndar. Fyrirhugað er að birta niðurstöður rannsóknarinnar á opinberum vettvangi þegar niðurstöður liggja fyrir.

Rannsókn Þórarinn HÍ 7T4A2448
Unnið að rannsókn í HÍ

Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Þórarinn Sveinsson, prófessor við Námsbraut í sjúkraþjálfun á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, Stapa, Hringbraut 31, 101 Reykjavík, sími: 848-0554; thorasve@hi.is. Tinna Björk Birgisdóttir, meistaranemi í sjúkraþjálfun við HÍ, er einnig rannsakandi í verkefninu en meistaraverkefni hennar er hluti af þessari rannsókn.

Ef þú hefur spurningar um rétt þinn sem þátttakandi í vísindarannsókn eða vilt hætta þátttöku í rannsókninni getur þú snúið þér til Vísindasiðanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík. Sími: 551-7100, fax: 551-1444, tölvupóstur: vsn@vsn.is.