Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka aflýst

uppfært 25. ágúst 2020

Á síðustu mánuðum hefur Íþróttabandalag Reykjavíkur leitað leiða til að halda Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í samræmi við tilmæli Almannavarna. Því miður sjáum við okkur ekki fært að halda viðburðinn, sem fara átti fram 22. ágúst n.k. og uppfylla um leið skilyrði Almannavarna, sem tóku gildi 31. júlí síðastliðinn.

Þar sem að undanförnu hafa komið fram sýkingar í samfélaginu og mikil óvissa er um framhaldið kjósum við að sýna ábyrgð og setja þátttakendur ekki í óþarfa áhættu. Framundan er viðkvæmur tími þar sem skólahald er að hefjast sem og vetraríþróttastarf að fara í gang og því skynsamlegt að auka ekki hættu á smiti með stórum viðburði eins og Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka.

"Það er afar sárt að þurfa að taka þessa ákvörðun, að hætta við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka þetta árið en við hjá ÍBR teljum það of mikla áhættu að halda viðburðinn rétt áður en að skólahald og skipulagt íþróttastarf hefst," segir Frímann Ari Ferdinandsson, framkvæmdastjóri ÍBR. "Um leið vitum við hversu mikilvægur tekjupóstur Hlaupastyrkur er fyrir góðgerðafélögin í landinu og við ætlum að setjast niður með okkar samstarfsaðilum og finna leiðir með þeim til að halda áfram söfnuninni og tryggja að sem minnstur skaði verði af fyrir góðgerðafélögin."

Mikilvægur þáttur Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka er Hlaupastyrkur, þar sem þátttakendur safna fyrir góðgerðafélög á Íslandi. Á síðasta ári var sett áheitamet þar sem hlauparar söfnuðu 167.483.404 krónum til 181 góðgerðarfélaga. Það er afar mikilvægt að leitað verði leiða til að halda söfnuninni áfram og minnka skaðann fyrir góðgerðafélögin og verða kynntar hugmyndir þar um á næstu dögum.

Íþróttabandalag Reykjavíkur