Skráning í Mt. Esja Ultra hafin - Takmarkaður fjöldi

uppfært 01. nóvember 2021

Skráning í Mt. Esja Ultra hófst í dag. Boðið er upp á 4 vegalengdir allt frá Ævintýrahlaupi fyrir börn upp í alvöru 43 km fjallamaraþon. Takmarkaður fjöldi keppenda er í hverja vegalengd, þannig að best er að tryggja sér sæti í hlaupinu sem fyrst. Einnig er boðið upp á lægra verð til 1. desember.

Nánari upplýsingar og skráning hér á hlaup.is. Hægt er að skoða myndir frá hlaupinu 2021 og hlaupinu 2020 á hlaup.is

  • Esja Maraþon: Vegalengd 43 km, hækkun 3500m - Hámark 100 keppendur
  • Esja Ultra II, tvær ferðir: Vegalengd 14 km, hækkun 1200m - Hámark 200 keppendur
  • Steinninn – THE ROCK: Vegalengd 3 km, hækkun 600m - Hámark 100 keppendur
  • Ævintýrahlaup í Esjuskógi fyrir spræka krakka. Vegalengd 2 km, lítil hækkun - Engin fjöldatakmörk

Hlaup.is náði tali af hlauphöldurum Mt. Esja Ultra, þeim Sigurði Kiernan og Elísabetu Margeirsdóttur og fræddist um hlaupið sem fram fer þann 18. júní á næsta ári. Þar kom meðal annars fram að í 43 km leiðinni verða nýjir stígar í Esjunni nýttir og einnig eru rýmri reglur varðandi tímamörk. Það ætti að gefa fleiri hlaupurum meiri möguleika á að klára þetta magnaða fjallahlaup. Þetta er 11 árið sem þetta erfiða en ótrúlega skemmtilega hlaup er haldið.

Hlaup.is náði líka tali af nokkrum öflugum hlaupakonum sem ætla að taka þátt í Mt. Esja Ultra maraþoninu og þær hvetja aðrar konur til að taka einnig þátt. Þær Rúna Rut Ragnarsdóttir, Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé og Hildur Aðalsteinsdóttir voru sammála um að Mt. Esja Ultra hlaupið væri frábær leið til að kynnast hlaupaparadísinni í Esjunni og mögnuðum fjallaleiðum hér á höfuðborgarsvæðinu.