Skráningu í Jökulsárhlaup lýkur 3. ágúst

birt 20. júlí 2011

Skráningu í Jökulsárhlaup 2011 lýkur miðvikudaginn 3. ágúst kl. 20:00. Það eru því rétt rúmar tvær vikur til stefnu. Í ár fer Jökulsárhlaupið fram helgina eftir Verslunarmannahelgi, laugardaginn 6. ágúst. Til þess að vera öruggur um að fá merktan bol í réttri stærð þarf skráning að hafa borist í síðasta lagi n.k. laugardag, 23. júlí. Skráning á vef Jökulsárhlaups, www.jokulsarhlaup.is/skraning.

Þegar þetta er skrifað hafa um 277 manns skráð sig til þátttöku í þremur vegalengdum Jökulsárhlaupsins - 78 frá Dettifossi í Ásbyrgi (32,2Km.) - 83 frá Hólmatungum í Ásbyrgi (21,2 Km.) - og 116 frá Hljóðaklettum í Ásbyrgi (13,2 km.). Nafnalista skráðra hlaupara má sjá hér á heimasíðu Jökulsárhlaups.

Jökulsárhlaupið er nú haldið í áttunda skiptið en hlaupið hefur verið haldið árlega frá árinu 2004. Hlaupið fer fram í ægifögru og fjölbreytilegu landslagi Þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum, sem er hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Árið 2010 var slegið aðsóknarmet þegar 350 manns hlupu Jökulsárhlaupið. Þá var ljóst að fjöldi hlaupara var komin að þolmörkum svæðisins og umgjörð hlaupsins. Hámark hefur því verið sett á skráningu hlaupara í ár og verður ekki tekið við fleiri en 350 skráningum. Tímataka í Jökulsárhlaupi 2011 verður með rafrænum hætti sem mun einfalda og hraða allri úrvinnslu hlaupatíma og flýta fyrir verðlaunaafhendingu. Þrátt fyrir ýmsar hækkanir á aðföngum er skráningargjald óbreytt frá því í fyrra.

Skráningar fara nú í fyrsta sinn fram á vef Jökulsárhlaups, www.jokulsarhlaup.is/skraning. Eins og áður segir lýkur skráningu þann 3. ágúst en til þess að tryggja sér merktan hlaupabol í réttri stærð þarf skráning að hafa átt sér stað í síðasta lagi n.k. laugardag 23. júlí.

Allar nánari upplýsingar um Jökulsárhlaup 2011 má nálgast hér á heimasíðu Jökulsárhlaups eða hjá verkefnastjóra Jökulsárhlaups 2011 - Þór Gíslasyni - í síma 897-2040 eða með tölvupósti á thorgisla@gmail.com