birt 09. apríl 2004

Samtals 4 hlauparar luku að hlaupa alla leiðina í Þingvallavatnshlaupi 2001, sem fram fór laugardaginn 12. maí, 2001 (sjá lýsingu neðar):

Halldór Guðmundsson, Svanur Bragason, Sigurður Gunnsteinsson og Ágúst Kvaran á tímum á bilinu 6.57´- 7.23´. Auk þess hlupu tveir hlauparar hluta leiðarinnar: Guðmundur Gíslason, 55 km og Gísli Ragnarsson, 42.2+ km. Með hlaupi þessu náðu Halldór, Svanur og Guðmundur að slá persónuleg vegalengdarmet í hlaupi. Veður var eins og besta varð á kosið: stilla, skýjað og hiti á bilinu 5 - 10 °C.

Hér eru myndir frá hlaupinu.

Lengsta hóphlaup á Íslandi til þessa
Á morgun, laugardaginn, 12, maí, 2001 fer fram 5. Þingvallavatnshlaupið. Þingvallavatnshlaupið er lengsta skipulagða hóphlaup landsins. Frá upphafi hefur hlaupið verið lengt á hverju ári og nú er fyrirhugað að hlaupa viðstöðulaust samtals 68,5 km.

Lagt verður af stað frá Nesbúð við Nesjavallavirkjun kl. 8:45 um morguninn og hlaupið sem leið liggur réttsælis umhverfis Þingvallavatn og suður fyrir Úlfljótsvatn í samræmi við tíma og vegalengdaáætlun sem er að finna á vefnum.

Nokkrir hlauparar hyggjast hlaupa alla leiðina, en auk þess munu aðrir sem þess óska slást í hópinn og hlaupa hluta leiðarinnar að eigin vali. Bílar sem kunna að verða skildir eftir á hlaupaleiðinni verða sóttir í lok hlaupsins. Hlaupinu líkur við Nesbúð þar sem unnt verður að fá veitingar. Álfur SÁÁ mun fylgja hlaupurunum.

Meðal hlaupara sem hyggjast fara alla leiðina verður hinn landskunni langhlaupari Sigurður Gunnsteinsson. Auk þess að hafa lagt að baki lengstu hlaupavegalengdir sem íslendingur hefir hlaupið hefur hann nú sagt skilið við hinn illvíga fylginaut, bakkus, í nærfellt 23 ár.