Tímataka og verðlaun í Miðnæturhlaupinu

birt 25. júní 2004

Í Miðnætur- og Ólympíuhlaupinu þann 23. júní sl. voru notuð tímatökutæki sem byggja á því að skannaðar eru inn upplýsingar af tölvuflögum (kubbum) sem hlauparar hnýta í skóþveng sinn. Tímatakan tókst mjög vel, en þó vantaði örlítið á að hún væri fullkomin:

Sjö hlauparar komu einungis fram á tölvuútskrift í endamarki en ekki í rásmarki. Þeir fá því einungis svonefndan byssutíma, þ.e. tíma frá því að skotið reið af þar til þeir komu í mark, en ekki svonefndan flögutíma sem sýnir hvenær þeir fóru yfir motturnar í rásmarki í upphafi hlaups og aftur í endamarki. Skýringar á þessu gætu verið ýmsar, s.s. að þeir hafi ekki hlaupið yfir skönnunarmotturnar í uppphafi heldur framhjá þeim, að þeir hafi verið seinir fyrir og farið af stað eftir að búið var að taka tölvuna úr sambandi við rásmark, að þeir hafi ekki verið búnir að setja flöguna á skóinn í upphafi en lagað það á leiðinni eða að skönnunin hafi af einhverjum ástæðum ekki verið nógu öflug við rásmark en í lagi við endamark. Leitast verður við að finna leiðir til að bæta úr þessum atriðum svo sem kostur er.

Úrvinnsla tímatöku dróst hins vegar og varð til þess að ekki var unnt að veita verðlaun á staðnum (nema þremur fyrstu körlum í 10 km hlaupi). Ástæðan var sú að svo mikill fjöldi skráði sig á síðasta klukkutímanum fyrir hlaup að ekki hafðist undan við tölvuskráningu og þar með voru tölvuskrárnar ekki tilbúnar til úrvinnslu úrslita fyrr en eftir að hlaupinu lauk. Það þarf því að huga að annarri tilhögun á tölvuskráningunni sem gerir kleift að mæta slíku álagi.

Verðlaun verða send til þeirra sem ekki hafa fengið þau. Veitt voru verðlaun (sex bikarar) fyrir þrjú fyrstu sæti karla og kvenna í 10 km (lengsta hlaupinu), en að öðru leyti fyrir 1. sæti í hverjum aldursflokki karla og kvenna í 5 og 10 km, alls 10 peningar á hvorri vegalengd.

Útdráttarverðlaun bárust ekki á hlaupstað og uppgötvaðist það ekki fyrr en of seint. Dregin verða út 10 nöfn úr hópi þeirra sem hlupu skemmtiskokk og fá þeir verðlaunin send heim.

Framkvæmdaaðilar hlaupsins biðjast velvirðingar á þessu.

Af viðbrögðum þátttakenda í hlaupinu er hins vegar ljóst að sjálft hlaupið heppnaðist mjög vel. Aðstæður voru hagstæðar, vindur var lítill, stytt hafði upp, og margir náðu því sínum besta árangri á þessum vegalengdum.

Fyrir hönd framkvæmdaaðila (ÍR, Fjölnis og Ármanns)

Stefán Halldórsson
Formaður frjálsíþróttadeildar ÍR