Hlaup.is og Siggi P. bjóða upp á 4-8 mánaða undirbúningsnámskeið í utanvegahlaupum í fjórtánda skiptið. Einkum er horft til þeirra sem stefna að þátttöku í stóru utanvegahlaupunum eins og Hengill Ultra og Mt. Esja Ultra í júní, Þorvaldsdalsskokkinu og Reykjanes Volcano Ultra í byrjun júlí, Laugavegshlaupinu um miðjan júlí, Súlur Vertical og Fjögurra Skóga hlaupinu í lok júlí og Tindahlaupinu og North Ultra í lok ágúst. Námskeiðið hentar líka fyrir þá sem ætla að taka þátt í öðrum en ofangreindum hlaupum.
Þátttakendur á námskeiðinu geta valið um lengd þjálfunar en lágmarkstími undirbúnings er 4 mánaða grunnþjálfun. Að auki verður boðið upp á viðbótarþjálfun á tímabilinu desember til mars og geta þátttakendur valið um hvenær þeir byrja. Viðbótarþjálfunin hefst um miðjan desember n.k. og verður samæfing innanhúss í FH-höllinni í Kaplakrika einu sinni í viku á sunnudögum fyrstu 2-3 mánuðina. Í viðbótarþjálfuninni verður áhersla lögð á liðleika- og styrktaræfingar svo og hraðaúthaldsþjálfun þannig að þegar kemur að grunnþjálfuninni þá verði hlauparar vel í stakk búnir til að takast á við æfingaálagið sem því fylgir. Á tímabilinu miður febrúar til miður mars munu samæfingarnar færast út úr húsi og frá og með mars verða æfingar eingöngu úti.
Námskeiðið hentar fólki á öllum aldri og af mismunandi getustigum og munu allir þátttakendur fá æfingaáætlun 4-5 vikur í senn sem mun taka mið af getu og markmiðum hvers og eins.
Kynningarfundur verður haldinn miðvikudaginn 1. des kl. 20:00 í fyrirlestrarsal á 3. hæð í húsi ÍSÍ í Laugardalnum (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands íþróttamiðstöðinni Laugardal, sjá staðsetningu á ja.is) ef sóttvarnarreglur leyfa, annars verður fjarfundur á Teams eða Zoom.