birt 06. ágúst 2004

Rafræn verslun hefur aukist mjög undanfarin misseri en miðað við niðurstöðu Hagstofu Íslands eykst netverslun enn eina ferðina á þessu ári.  Á þessu ári hafði fjórði hver einstaklingur pantað vöru eða þjónustu í gegnum Netið og greiddu nær allir fyrir kaupin með greiðslukorti.

Notkun Netsins er mun algengari hér á landi en á öðrum Norðurlöndum sem og í löndum Evrópusambandsins. 85% einstaklinga á aldrinum 16 til 74 ára notar tölvu og fjórir af hverjum fimm notuðu Netið. Í könnun Hagstofunnar segjast fjórir af hverjum fimm nota tölvuna því sem næst daglega og er enginn munur á milli kynja.

Algengast er að panta eða kaupa ferðatengdar vörur eða þjónustu á Netinu, t.d. farseðla eða gistingu en 64% þeirra sem nýttu sér vefverslun keyptu slíkt. Næst algengasti vöruflokkurinn er bækur og tímarit en ríflega þriðjungur aðspurðra hafði pantað slíkt á Netinu. Fjórði hver netnotandi hafði pantað tónlist eða kvikmyndir og fimmti hver pantað fatnað, skó eða íþróttavörur.

Heimild: www.ecweb.is og www.hagstofa.is