Víðavangshlaupaseríu Framfara og Fætur toga lauk í gær

uppfært 31. október 2021

Víðavangshlaupaseríu Fætur toga og Framfara, sem fram hefur farið nú á haustmánuðum, lauk í gær, 30. október með keppni á Borgarspítalatúninu. Hlaupaserían samanstendur af þremur hlaupum en í hverju hlaupi eru stutt og langt hlaup. Stutta er um 1 – 1,2 km og langa 6-8 km.  Markmiðið með hlaupaseríunni er að skapa viðburð fyrir þá sem áhuga hafa á víðavangshlaupum, kynna víðavangshlaup sem frábæran hluta af haustþjálfun millivegalengda- og langhlaupara og skapa góða stemmingu í kringum þessi hlaup. Þeir sem stefna á og fara á Norðurlandamót í Víðavangshlaupum nota hlaupin sem góða æfingu fyrir þá keppni.  Þátttaka í hlaupaseríunni var góð í haust sem þakka má fínni kynningu til að mynda hjá Hlaup.is.

Í gær, laugardaginn 30. október lauk hlaupaseríu haustsins 2021 og urðu Andrea Kolbeinsdóttir ÍR og Jökull Bjarkason ÍR stigahæst. Andrea hlaut 60 stig eða fullt hús stiga, í öðru sæti í kvennaflokki var Íris Anna Skúladóttir hlaupahópi Sigga P. með 54 stig og Verena Karlsdóttir ÍR varð 3. með 47 stig. Jökull Bjarkason ÍR varð hlutskarpastur í karlaflokki með 58 stig, Sigurgísli Gíslason hlaupahópi Sigga P. varð annar með 48 stig og Aron Beck þriðji með 38 stig.

Í ungmennaflokkum varð Hilmar Ingi Bernharðsson ÍR hlutskarpastur með 38 stig, Kristinn  Snær Smárason HK varð annar með 23 stig og Guðmundur Haraldsson þriðji með 21 stig. Í stúlknaflokki varð Helga Lilja Maack ÍR sigurvegari með 29 stig, Svanborg Jónsdóttir önnur með 10 stig og Hildur Vala Sigurðardóttir þriðja með 9 stig.

Framfarir óska þessum hlaupurum til hamingju með sinn árangur og þakkar þeim sem tóku þátt fyrir þátttökuna og samveruna. Framfarir þakka Fætur toga, Hleðslu frá Mjólkursamsölunni, Hlaup.is og Netskraning.is fyrir stuðninginn og samstarfið.

Hlaup.is var á staðnum og tók vídeó og viðtöl sem hægt er að sjá hér fyrir neðan. Einnig er hægt er að sjá úrslitin á hlaup.is og myndirnar sem við tókum.

Hlynur Guðmundsson er alvanur utanvegahlaupari en var að taka þátt í sínu fyrsta Framfarahlaupi og líkaði geysilega vel. Andrea Kolbeinsdóttir sagði okkur frá sinni upplifun af Framfara hlaupunum, Norðurlandamótinu sem hún er að fara í um næstu helgi og svo forvitnuðumst við aðeins um hennar fyrsta maraþonhlaup sem hún hljóp um síðustu helgi og krækti sér í Íslandsmeistaratitil og aldursflokkamet. Kíkið á skemmtileg viðtöl við Hlyn og Andreu og sjáið hlauparana í brautinni.