birt 26. júní 2018

Árið 2003 var hér á Íslandi byrjað að nota tímatökutæki frá Champion Chip sem byggja á því að skannaðar eru inn upplýsingar af tölvuflögum (kubbum) sem hlauparar hnýta í skóþveng sinn. Í hlaupum með þessu tímatökum eru yfirleitt birtir tveir tímar byssutími og flögutími.

Byssutími er sá tími sem líður frá því að ræsibyssa skýtur og þar til hlaupari kemur yfir marklínu og hleypur yfir þar til gerða mottu. Flögutími er sá tími sem líður frá því að hlaupari hleypur yfir mottu sem liggur yfir startlínu og þar til hlaupari kemur yfir marklínu og hleypur yfir þar til gerða mottu. Byssutími er því alltaf jafn eða meiri en flögutími.

Mismunur á byssutíma og flögutíma er sá tími sem líður frá því skotið er af ræsibyssu og þar til hlaupari hleypur yfir mottuna á startlínunni. Endatími hlaupara er í öllum tilfellum sá tími sem skráist með flögu þegar hann hleypur yfir marklínuna.

Dæmi: Hlaupari stendur aftarlega í hóp 10 km hlaupara. Hlaupið er ræst með startbyssu og það líða 5 sekúndur þar til hann fer yfir startlínuna með flöguna sína. Ef síðan þessi hlaupari hleypur yfir marklínuna 40 mínútum og 30 sekúndum síðar (skráð með flögunni) þá er byssutíminn hans 40:35 en flögutíminn 40:30. Flögutíminn skráir því raunverulegan tíma sem tók að hlaupa 10 km og leiðréttir fyrir startinu sem tók langan tíma.

Byssutíminn er hinsvegar alltaf notaður sem opinber tími í hlaupinu en flögutíminn er í raun sá tími sem tók viðkomandi hlaupara að hlaupa vegalengdina. Byssutíminn er alltaf notaður til að skera úr um röð hlaupara í hlaupunum og úthluta sætum, því eðli málsins samkvæmt eru götuhlaup alltaf kapphlaup, en ekki útreikningur á tímum eins og maður sér oft í skíðagöngu þar sem menn leggja af stað á mismunandi tímum og eingöngu tíminn ræður röð manna.