Laugavegshlaupið - Vídeó í starti, eftir 3 km og í marki

uppfært 21. júlí 2021

Metþátttaka var í Laugavegshlaupinu síðastliðinn laugardag þegar það fór fram í tuttugasta og fimmta sinn. Samtals 590 hlauparar lögðu í hann kl. 9.00 frá Landmannalaugum, þar sem frábærar aðstæður voru í og ljóst var að hitinn ætti eftir að stríða einhverjum hlaupurunum. Þrátt fyrir þessar "góðu" aðstæður, þá sögðu fjölmargir hlauparar að þetta hefði verið óvenju erfitt vegna hitans og mótvinds sem var á á leiðinni. Laugavegshlaupið í ár var fjölmennasta hlaupið frá byrjun.

Andrea Kolbeinsdóttir 22 ára kom sá og sigraði í sínu fyrsta Laugavegshlaupi á nýju brautarmeti á tímanum 4:55:49 og er fyrsta konan sem fer undir 5 klukkustundir (áttunda í mark í heildina). Einnig bætti hún aldursflokkametið sem Bryndís Ernstsdóttir átti frá 1999 árið, en það er einmitt árið sem Andrea fæddist.

Brautametið var áður 5:00:29 og átti Rannveig Oddsdóttir það met, en hún var í öðru sæti á tímanum 5:09:55. Þriðja var svo Íris Anna Skúladóttir á tímanum 5:20:20 í sínu fyrsta Laugavegshlaupi. Fjórða var Elísabet Margeirsdóttir sem kláraði sitt tólfta hlaup, en aðeins fimm mánuðir eru síðan hún eignaðist sitt fyrsta barn.

Andrew Douglas frá Bretlandi sigraði í karlaflokki á tímanum 4:10:36 sem er þriðji besti tími sem náðst hefur í Laugavegshlaupinu. Andrew Douglas hefur náð góðum árangri í utanvegahlaupum og sigraði  á heimsmeistaramót í utanvegahlaupum árið 2019. Þetta var hinsvegar frumraun hans í ultra marathon hlaupi.

Annar var Þorbergur Ingi Jónsson, en hann á brautarmetið í Laugavegshlaupinu 3:59. Hann kom í mark á tímanum 4:32:02. Þriðji var svo Þorsteinn Roy Jóhannsson á tímanum 4:36:41.

Hlaup.is var á staðnum og náði vídeó af startinu hjá fyrstu tveim hópunum, þegar hlauparar voru komnir 3 km inn á brautina og þegar fyrstu hlauparar komu í mark. Einnig tókum við viðtöl fyrir og eftir hlaupið sem við birtum hér.