Powerade hlaupin fara af stað aftur - Viðtal við Pétur Helgason og Dag Egonsson

uppfært 12. október 2021

Powerade vetrarhlaupaserían veturinn 2020-2021 var með nokkru öðru móti en venjulega og þar spilaði Covid stóra rullu. Hlaupin sem áttu að vera í janúar, febrúar og mars  var öllum frestað fram á vorið og fór síðasta hlaupið fram í júní 2021. Hlaup.is mætti á staðinn og tók viðtal við skipuleggjendur og upphafsmenn hlaupsins, þá Pétur Helgason og Dag Egonsson. Pétur og Dagur sögðu okkur frá áhugaverðum tölulegum staðreyndum um hlaupið og frá upphafinu ásamt mörgu öðru og vangaveltum með skráninguna; flögur eða pappír.

Einnig tókum við viðtal við Ingólf  Sveinsson geðlækni, sem hefur hlaupið um áratugaskeið, sem hægt er að sjá hér fyrir neðan og svo vorum við líka á ferðinni með myndavélina og tókum myndir frá hlaupinu.

Í viðtalinu við Ingólf Sveinsson geðlækni (82 ára) kemur fram að hann byrjaði að hlaupa ungur strákur í sveitinni og hann er búinn að hlaupa í kringum 30 maraþon og hálfmaraþon. Ingólfur æfir með Laugaskokki og reynir að ná því að æfa þrisvar í viku. Eftirminnilegustu hlaupin eru Laugavegshlaupin, en hann hefur hlaupið um 20 Laugavegshlaup. Af götuhlaupum eru minnisstæð maraþon á Flórída og í Færeyjum sem hann segir að hafi verið einstaklega gaman.

Heilræðið sem Ingólfur gefur þeim sem eru yngri og eru að stíga sín fyrstu skref í hlaupunum, er að vera hluti af hlaupahóp. Það sé ótrúlega gefandi og félagsskapurinn skipti miklu máli.