Á hlaupum um Róm - hlaupasaga úr Rómarmaraþoni 1999 - Kristinn Pétursson

birt 07. janúar 2006

Kristinn Pétursson bjó í Róm um tveggja ára skeið og hljóp tvisvar í nýendurvöktu Rómarmaraþoni. Árið 1999 bjó hann til sitt eigið hálfmaraþon innan hins eiginlega Rómarmaraþons og fer hér sagan af því.

Hugmynd mín um Róm var ekkert sérlega blómleg áður en ég flutti þangað. Annað kom þó á daginn. Róm er að sönnu græn borg; hvergi langt í stóra og skógivaxna almenningsgarða, svo ekki sé minnst á jurtalífið sem þrífst innan hinna fjölmörgu en duldu húsagarða borgarinnar og á svölum og þökum. Allt í blóma í Róma.

Helstu almenningsgarðarnir eru gamlir herragarðar sem heita Villa þetta eða hitt, kenndir við voldugar páfafjölskyldur er höfðu þar sumarhallir. Villa Borghese er þeirra þekktastur, en Villa Doria Pamphilj stærstur. Þangað sækir fólk til að viðra sjálft sig og hundana, sitja í skugga sígrænna trjáa og lesa, blunda, kela. Önnur útivistarsvæði eru t.d. á Janikúlumhæð, sem er önnur helsta hæðin á vesturbakka Tíber (hin er Vatíkanhæð) og hvar best sést yfir miðbæ Rómar, og í tóftum Sirkusar Maximusar, sem var elsti leikvangur Rómverja til forna. Gott útivistarsvæði er jafnframt við hinn forna Appíuveg í umhverfi katakomba og fornminja og í minni görðum út um alla borg.

Ómótstæðilegt tækifæri
Rómarmaraþon er helsta almenningsíþróttahátíð borgarinnar, þótt hlaupið eigi sér ekki langa sögu í núverandi mynd. Maraþondaginn er miðborgin lokuð fyrir umferð, allt frá Kólosseum norður að Milvíóbrú þar sem Konstantínus keisari háði sögulega orrustu. Er þetta eini dagur ársins sem bærinn er með öllu lokaður loftmengandi skellinöðrum og blikkbeljum. Slíkt tækifæri lætur maður ekki fram hjá sér fara að geta skoðað borgina við svo ákjósanlegar aðstæður; trimma aldamáða steina stræta og torga Rómar, láta berast með hlaupinu eins og pílagrímur á göngu milli höfuðkirkna borgarinnar, þjóta fram hjá fögrum byggingum eða menjum þeirra. Á hlaupum um Róm kynnist maður borginni á allt annan hátt og á reyndar allt annað erindi við hana heldur en í hlutverki hins óbreytta ferðamanns. Maður er þátttakandi ásamt þúsundum annarra, en heimamenn sumir standa hjá og hvetja.

Torgahlaup
Við hjónaleysin vorum mætt í okkar annað skipti að taka þátt í skemmtilegu hlaupi en höfðum nú platað móður mína með okkur. Ætluðu konurnar í 5 km skemmtiskokk en ég í hálfmaraþon. Skemmtiskokksleiðin er ekkert slor. Hlaupið er frá Kólosseum út breiðgötuna sem hefur rústir keisaratorganna til beggja handa að Feneyjatorgi og síðan í suður meðfram hlíðum Kapítólhæðar að Sirkusi Maximusi og langleiðina niður að píramída Sestíusar ræðismanns. Áður en að honum kemur er hins vegar snúið við og hlaupið áfram veginn milli tveggja hæða, Palatín og Selíus, og endað á hring kringum hringleikhús Flavína, Kólosseum. Maraþonleiðin liggur hins vegar fyrst norður í bæ og svo suður að grafhýsinu fyrrnefnda. Hlaupið er um mörg fegurstu torg Rómar og því er þetta einskonar torgahlaup. Þrátt fyrir að borgin sé byggð inn í hæðótt landslag er hlaupabrautin að mestu slétt yfirferðar. Í mars er svo hið þægilegasta hlaupaveður.

Rómarmaraþon
Það var milt veður þennan morguninn í mars árið 1999, sólskin en ekki of heitt fyrir hlaupið. Kvinnurnar komu sér fyrir aftar í hlauparahópnum, en ég reyndi að mjaka mér nær rásmarkinu. Allt í góðu, nema að ekki er boðið upp á hálfmaraþon í Rómarmaraþoni, aðeins 5 eða 42 km! Nú vorum við þrjátíuogfimmþúsundin ræst og hópurinn rann af stað, hægt í fyrstu. Eftir nokkur hundruð metra skilja leiðir skemmti- og langskokkara á Feneyjatorgi og við maraþonmennin hlaupum upp Via del Corso, aðalverslunargötu bæjarins.

Gatan sú er ekki einasta vön fólki á hlaupum inn og út um búðirnar, heldur útleggst heiti hennar á íslensku sem Hlaupabraut, því eitt sinn var hún skeiðvöllur hrossa sem ruddust götuna frá Popolotorgi - þangað sem við nú stefnum - niður á Feneyjatorg á kjötkveðjuhátíð borgarinnar. Þegar inn á nýuppgert Popolotorg er komið bíður okkar lúðrasveit og spilar undir meðan við tökum hringinn í vestur. Leiðin liggur yfir Tíber upp á Péturstorg og þaðan er stefnan tekin í norður upp með ánni að Ólympíuleikvangnum og loks hlaupið í austur sem leið liggur meðfram ánni að aðalmosku borgarinnar sem stendur vestan við Villa Alda garðinn. Þá er snúið við og hlaupið til baka, en nú eftir eystri bakkanum.

Að sníða sér hlaup eftir þreki
Eftir nokkra kílómetra hef ég skilað hálfu maraþoni, 21 km eins og ég ætlaði mér, við íþróttahöll ítalska arkitektsins Nerví, Palazetto dello sport, sem er vel þekkt í byggingarlistarsögu aldarinnar. Nei, þetta gengur ekki, hugsa ég með sjálfum mér. Þetta er ekki nógu spennandi endastöð og þar að auki allt of langt frá miðbænum þar sem ég ætla að hitta mitt fólk - get allt eins hlaupið þangað! Ég ákveð því að láta ekki staðar numið fyrr en niðri á Navónutorgi og taka þar einn lokahring. Og ekki úr vegi, því þar sem nú liggur fallegast torga í hjarta Rómar var áður leikvangur Dómitíanusar sem hann lét reisa í keisaratíð sinni árin 81-96. Þetta var íþróttaleikvangur og aðalkeppnisgreinin kapphlaup. Nú sitja þarna ferðamenn og innfæddir og njóta fegurðar og veitinga undir sól, dást að Fjórfljótabrunni barokkmeistarans Bernínís. Tignarlegur staður til að enda hlaup mitt þann daginn, 30 km að baki og ekki frá því að ég hafi tekið sprett síðustu metrana. Ó, hvað þetta var nú gott! og einmitt komið hádegi og lystin aldrei meiri. Nú verður vel þegið pasta og Frascatimysa inni á huggulegri trattoríu, inni segi ég, því um hádegið höfðu orðið veðrahvörf, dregið fyrir og komin gjóla. Ég hafði upp á mínum konum, jafnsælum með sitt skokk, og saman héldum við á vit verðskuldaðrar máltíðar.

Hlaupaskóna með til Rómar
Að þessu sögðu ætti enginn að þurfa að skilja hlaupaskóna eftir heima þegar Róm er heimsótt. Það ætti þvert á móti að gefa heimsókninni aðra vídd að skokka svona eins og einu sinni um herra- og hallargarða Rómar. Rómarmaraþon er haldið síðasta sunnudag marsmánaðar ár hvert. Vefur Rómarmaraþons er á www.maratonadiroma.it

Grein þessi birtist í ferðablaði Morgunblaðsins í ágúst 2000 og má líka finna á Rómarvefnum, www.romarvefurinn.is.