Árum bætt við lífið og lífi við árin - Hlaupahugleiðing í tilefni Óshlíðarhlaups: SSÓ

birt 28. mars 2005

Þeir eru margir sem hafa spurt mig í forundran á síðustu vikum hvað ég sé eiginlega að þvælast hér um göturnar á stöðugum hlaupum. „Var einhver að elta þig?“ spurði ágætur kórfélagi í Kammerkórnum nú um helgina en hann hafði fyrr um daginn séð til mín fyrir utan Hnífsdal. Það er von að menn spyrji. Ekki þarf að leita langt aftur til þeirra tíma er ég var lítt gefinn fyrir svona puð og hefði vart farið að spretta úr spori að tilefnislausu. Ég gat þó svarað því til, nokkuð hróðugur, að aldrei þessu vant hefði einhver verið að elta mig; hlaupafélagarnir voru á hælum mínum a.m.k. hluta leiðarinnar!

„Riddarar Rósu“
Þetta eru auðvitað hlaupafélagarnir úr „Riddurum Rósu“ – hinu alræmda hlaupagengi Ísfirðinga – sem veigra sér ekki við að hlaupa út fyrir mörk hreppa og sveitarfélaga ef svo ber undir. Kempur þessar hafa að sama skapi hlaupið margan bjartsýnismanninn af sér á síðustu árum. Þeir eru ófáir sem hafa mætt í trimmgallanum, nýju hlaupaskónum og með höfuðið fullt af frómum áformum á þeim tíma sem „Riddarnir“ koma saman – en haltra svo í mark eftir ægilega píslargöngu um holt og hæðir. Þegar harðsperrur og hælsæri bætast ofan á vonbrigðin er ekki að undra þótt margur hafi komist að því að þetta sport sé ekkert fyrir sig og hreinlega lagt skóna á hilluna. Já, hópur þessi hefur margt á samviskunni.

Tilgangur þessarar greinar er þó sá að hvetja fólk til þess að slást í hópinn enda held ég að „Riddararnir“ hafi lært sína lexíu og ég veit að þeir vilja gjarnan bjóða nýjum félögum til þátttöku. Tilefnið er svo það að senn er ár liðið frá því ég byrjaði að hlaupa af einhverri alvöru en það var einmitt í Óshlíðarhlaupinu í fyrra sem formlegur hlaupaferill minn hófst. Fram að því hafði ég skokkað svolítið í Svíþjóð og hér á Ísafirði en ekki meira en svo að mér þótti það hálfgerð fífldirfska að leggja út í hálfmaraþon.

Lagt í Óshlíðina
Þegar dagurinn loks rann upp mætti hópurinn niður á Silfurtorg þar sem rútan beið. Með rútunni myndum við halda til Bolungarvíkur þaðan sem lagt yrði af stað. Ég reyndi af fremsta megni að sýnast fagmannlegur en sá fljótt að erfitt yrði að fela viðvaningsbraginn. Það gerði útslagið þegar ég setti rásnúmerið á bakið á mér og einhver spurði mig hvort ég ætlaði að bakka í mark. Tímamælingar fara jú þannig fram að myndbandsvél filmar viðkomandi númer þegar menn koma yfir marklínuna og því er betra að hafa miðann framan á sér.

Svo steig hópurinn upp í rútuna, í marglitum hlaupaflíkum, með „skjöplur“ á höfðinu, hlaupaúr/púlsmæla um úlnliðinn, drykkjarbelti um sig miðja og í fínustu hlaupaskóm. Á leiðinni snerust samræðurnar um hitt og þetta maraþonhlaupið, um skóna og fæðubótarefnin og menn m.a.s. gáfu hver öðrum „sjúss“ af orkudrykkjum. Það var eins og við værum á leiðinni á sveitaball.

Markmiðið mitt var ofureinfalt. Mér var slétt sama í hvaða sæti ég yrði og hversu lengi það tæki mig að hlaupa þennan 21 km. ég skyldi bara komast í mark á tveimur jafnfljótum. Það hafðist líka. Kemst þótt hægt fari – ég fór þetta á tveimur tímum og sex mínútum betur og var síðastur langhlauparanna. Þetta var engu að síður frábær reynsla og persónulegur áfangi.

Skynsamleg áætlun
Eftir þetta byrjaði ég að hlaupa með „Riddurum Rósu“ enda þótti mér félagsskapurinn skemmtilegur – svona meðan ég náði að halda í við hann. Ég þóttist góður ef ég gat hlaupið með hópnum fram til þess er endasprettur hæfist en þá vissi ég að kveðjustundin væri runnin upp.  Smám saman fann ég hins vegar hvernig þrekið óx, púlsinn varð alltaf fljótari niður eftir álag og sífellt lengdist sá tími sem mér varð unnt að hlaupa á skikkanlegum hraða. Líðanin öll bar þess svo merki sem ég presturinn hefði nú mátt vita – að líkami okkar er skapaður til noktunar. Regluleg hreyfing bætir árum við lífið – það hafa vísindin sannreynt – en hún bætir líka lífi við árin.

Í vetur puðaði ég á hlaupabretti nokkrum sinnum í viku. Einnig hljóp ég með skokkhóp Vesturbæjarlaugar er ég var í Reykjavík en hlaupagikkjum á höfuðborgarsvæðinu hefur snarfjölgað á undanförnum árum. Þegar hópurinn kom saman í vor fékk ég það staðfest að erfiðið hafði borið árangur. Nú hef ég getað notið samvista við hlaupafélagana alla leið í mark.

Á frábæru námskeiði hjá hlaupadrottningunni Mörthu Ernstdóttur í apríl lærðum við hvernig á að byggja upp hlaupaáætlun fyrir langhlaup og hefur dagskrá æfinganna breyst í samræmi við það. Nú förum við rólega af stað en svo eru ýmist teknir stuttir sprettir, hlaupið með vaxandi hraða eða hlaupið upp brekkur. Síðasti hlutinn er tekinn rólega og loks er teygt á öllum vöðvum og sinum undir (harð)stjórn Bobba.

Nýtt blóð vantar
Nokkrir nýliðar hafa bæst í hópinn og er það mikið fagnaðarefni. Vandinn er hins vegar sá að byrjendur eiga það til að fara of geyst af stað. Hætt er við því að þeir hlaupi of oft, fari of hratt, teygi of lítið og hvíli ekki nóg á milli. Þá uppskera menn bara stirðleika eða jafnvel meiðsl. Engin ástæða er til þess að þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref keyri sig út í félagi með þeim sem hafa æft í lengri tíma. Hins vegar er ómetanlegt að hafa góðan félagsskap á hlaupunum, fá aðhald að ekki sé talað um leiðsögn við teygjur eftir æfingar.

Hópur eins og þessi þarf í raun að vera tvískiptur. Best er að allur hópurinn leggi rólega af stað og svo séu tvær mislangar og –erfiðar leiðir í boði. Þá geta menn valið þá leið sem þeim hentar. Þegar leiðin er að baki koma menn saman, teygja og eiga með sér samfélag. Þeir sem finna sig í þessu (kunna að meta öll lífsgæðin sem fylgja slíkri hreyfingu!) geta smám saman aukið álagið, hlaupið oftar og sett sér háleitari markmið. Fyrst er þetta svolítið þreytandi og menn þurfa að beita sig hörðu til þess að komast af stað – en ég get vottað að senn kemur að þeim tímapunkti að viljastyrkurinn fer allur í það að halda sér á mottunni svo menn fái nú þá hvíld sem til þarf.

Óshlíðarhlaupið 2004
Þann 26. þ.m. fer Óshlíðarhlaupið fram. Sá upphafsreitur hefur reynst mér vel og hlakka ég til þess að sjá hver tími minn verður þetta árið. Boðið er upp á þrenns konar vegalengdir; 4 km, 10 km og 21 km. Þótt hvaða tímapunktur sem er sé hentugur til þess að byrja að hreyfa sig er ekki úr vegi að miða við slíkan viðburð. Menn velja sér þá vegalengd sem hentar forminu, hlaupa ekki hraðar „druslan dregur“ (svo vitnað sé í orðatiltæki Krumma) en setja sér það markmið að koma á betri tíma að ári eða hlaupa þá lengri vegalengd.

Svo er bara að mæta á æfingar hjá „Riddurum Rósu“ á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 18:15. Ykkur verður tekið opnum örmum.

Skúli S. Ólafsson.