Frá skemmtiskokki í 100 km ofurmaraþon, 10 ára hlaupasaga - Gunnlaugur Júlíusson

birt 01. september 2004

Forsagan

Ég var staddur niðri í Lækjargötu þann 21. ágúst 1994. Reykjavíkurmaraþon var að hefjast. Konan mín og eldri sonur ætluðu að taka þátt í skemmtiskokkinu og hlutverk mitt í þessu samhengi var að halda á fötum þeirra og passa yngri soninn, 5 ára gamlan, á meðan sá hluti fjölskyldunnar sem treyst var til að hlaupa væri í brautinni. Ég var þennan dag tæplega 42 ára gamall, vel yfir 90 kg að þyngd (og þótti dálítið of feitur) og hafði almennt gert ráð fyrir að íþróttir heyrðu sögunni til í lífi mínu. Reyndar var svo sem ekki af miklu að státa á því sviði gegnum tíðina. Ég var í sjálfu sér sáttur við þá stöðu, maður var hvort sem er farinn að eldast. Síðan er það að þegar hlaupararnir fara að hoppa og teygja undir dynjandi músík þá byrjar yngri strákurinn að suða um að fá að hlaupa líka, upptendraður af stemmingu stundarinnar. Ég lét það eftir honum og það varð því úr að við hlupum skemmtiskokkið án formlegrar skráningar eða greiðslu þátttökugjalds.

Hlaupið gekk vel, ég leiddi soninn með annarri hendinni og hélt á fötunum í hinni hendinni. Við þurftum ekki að hnýta nema eina skóreim á leiðinni og komum hæstánægðir í mark og fengum meir að segja pening um hálsinn, þótt ekkert væri á okkur númerið. Maður var bara nokkuð góður með sig eftir þetta, búinn að hlaupa þrjá kílómetra í einum spretti án nokkurn undirbúnings. Það var meira en maður bjóst við að væri mögulegt. Upp úr þessu fór maður innra með sér að gæla við hugmyndina að vera með í RM af meiri alvöru, hlaupa kannski 10 kílómetra því þar fengist formleg tímamæling og þannig sæist hvernig maður væri á sig kominn í samanburði við aðra. Það virtist ýmislegt hægt eftir skemmtiskokkið góða. Svo þegar fór að næsta haust var slegið til og maður skráði sig í 10 kílómetra hlaup. Lítið hafði farið fyrir formlegum æfingum yfir árið. Ég flutti til Raufarhafnar haustið 1994 og þar var yfirleitt ísing á vegum a.m.k. hálft árið eins og veðurfar var þá. Eitthvað var maður að nudda framan af sumri en það var bæði erfitt og heldur leiðinlegt þannig að oft fundust önnur verkefni en að fara út að hlaupa. Sama er, 10 kílómetrana hljóp ég á rúmum 47 mínútum. Maður hljóp eins hratt og maður gat af stað og reyndi að halda dampi í mark, og stóð á öndinni mikinn hluta leiðarinnar. Ég minnist þess að þegar maður stóð þarna í marksvæðinu, stirður, úrvinda af þreytu og löðrandi í svita en nokkuð góður með sig, þá runnu maraþonhlaupararnir í gegnum Lækjargötuna að hefja seinni hringinn. Að hlaupa 42 kílómetra, þvílík ofurmenni,  rann í gegnum hugann og það hvarflaði ekki einu sinni að mér að gæla við þá hugsun að maður gæti tekist á við þetta gríðarlega afrek. Ég var síðan með harðsperrur í viku eftir hlaupið en bara nokkuð sæll, búinn að hlaupa heila 10 km án þess að stoppa. Það var bara nokkuð gott.

Næstu ár voru tíðindalítil, maður hljóp nokkur 10 km hlaup á ári, æfði lítið og framfarir litlar sem engar. Mér þótti t.d. afar langt að hlaupa út á flugvöllinn á Raufarhöfn og til baka en það eru um 10 km. Yfirleitt lét maður sér nægja að hlaupa inn að Hóli og til baka eða um 7 km og var bara nokkuð brattur með það. Það var nýlunda þarna fyrir norðan að menn væru að hlaupa úti í tilgangsleysu og ég var því bara nokkuð góður með mig. Það hljóp alla vega enginn lengra í þorpinu en ég. Fyrir RM 1998 þóttist ég vera orðinn nokkuð sjóaður og ákvað að skrá mig í ½ maraþon. Æfingarnar voru eins og fyrri daginn af skornum skammti og árangurinn eftir því. Ég kláraði hlaupið á tæplega 1.50 og staulaðist síðasta spölinn frá Laugarásnum niður Borgartúnið með lappirnar svo fullar af mjólkursýru að það hefur örugglega skvampað í skónum. En sama er, ég hafði klárað ½ maraþon. Það var meira en mig hafði dreymt um að geta nokkrum árum áður. Næsta ár hljóp ég aftur ½ maraþon, reyndur maðurinn, og á svipuðum tíma, mjólkursýran meiri ef eitthvað var en sama var, ég gat þetta. Þetta haust flutti ég suður og sá fram á að geta æft betur og nú skyldi stefnt á toppinn, heilt skyldi það vera næst. Maður sem var búinn að hlaupa tvö hálfmaraþon hlyti að geta hlaupið heilt maraþon. Ég fann æfingaprógram á netinu og byrjaði samviskusamlega um haustið en aginn var ekki mikill. Fljótlega hætti maður að hlaupa þegar fór að kólna og því sífellt slegið á frest að taka sér tak. Það var ekki auðvelt að æfa fyrir langhlaup. Það var svo fyrst í apríl sem ekki var lengur komist undan því að draga fram skóna og hefja æfingar, ef skyldi kalla hlaupin því nafni. Ég man t.d. eftir því hvað það var mikið átak að fara úr því að hlaupa einn hring í hverfinu upp í að fara í tvo hringi og lengja hlaupin þannig úr fjórum km í átta km. Það vildi mér svo til happs að ég dvaldi í Kaupmannahöfn í tvær vikur í júlí og góða veðrið þar dró mann út enda ekki seinna vænna.

Viku fyrir hlaupið ákvað ég svo að hlaupa um 20 km til að sjá hvort lappirnar héldu. Það gekk vel og fyrst að svo var þá hlytu þær að halda 42 km. Því var skráning í heilt maraþon ákveðin. Það var síðan nokkuð stór stund að standa með græna númerið í Lækjargötunni í aðdraganda hlaups. Maður var kominn í hóp ofurmennanna en hlaupið sjálft var eftir. Ég fór mjög hægt af stað og nuddaði rólega áfram, drakk vel og borðaði orkugel af og til. Ég var skíthræddur við vegginn hræðilega og hafði því vaðið fyrir neðan mig með hraðann. Svo fór það að gerast á seinni hring að ég fór að taka fram úr einum og einum. Kannski var ég ekki svo lélegur þrátt fyrir allt. Ég kom svo í mark á rúmlega 3.50, alsæll með að vera búinn að klára heilt maraþon. Þetta fór langt fram úr mínum villtustu draumum. Ég var um viku að jafna mig í fótunum, enda skórnir sem ég hljóp á af þeirri sortinni að ég myndi í besta falli nota þá fyrir stutt búðaráp í dag. Ég hljóp svo haustmaraþonið á aðeins betri tíma en var svo þreyttur seinni hluta hlaupsins að lappirnar börðust svo saman að það komu sár á ökklana. Sama var, maður var orðinn fullgildur félagi í maraþonfélaginu og kominn á skrá. Næsta ár hljóp ég þau maraþon sem í boði voru en framfarir voru litlar enda æfingarnar ekki mjög miklar. Ég gekk bara út frá því að sumir væru betur fallnir til að hlaupa löng hlaup með góðum árangri en aðrir og ég væri í lakari hópnum.

Þáttaskil verða

Svo gerist ákveðinn tímamótaatburður. Það er dagurinn góði þegar bein útsending var í Ölveri frá Bostonmaraþoninu þar sem nokkrir góðir félagar hlupu með mjög góðum árangri. Ég sit hjá Sigurði P. og er að spjalla við hann. Æfingar berast í tal og hann fer að skýra út fyrir mér leyndardóma magnsins. Æfa mikið og hlaupa langt. Þetta opnaði nýjar gáttir fyrir mér. Ég hafði til þessa einfaldlega verið allt of góður við sjálfan mig til að geta búist við árangri. Ég stefndi á Mývatnsmaraþonið og nú skyldi breytt til. Ég jók æfingamagnið um a.m.k. helming á stundinni og hljóp bæði oft og langt. Það endaði náttúrulega með beinhimnubólgu í maílok og þá leist mér ekkert á blikuna. Með hvíld og yfirlegu náði ég henni úr mér fyrir Mývatn. Það var í mér bæði spenningu og kvíði þegar norður var komið en viti menn. Ég hljóp langt fram úr sjálfum mér, bætti mig verulega og það sem meira var, ég var miklu betur á mig kominn í markinu en áður og eftirköstin voru sama sem engin. Þetta var lykillinn, magnið. Ég hélt uppteknum hætti og hljóp langt og nokkuð oft. Til að reyna enn frekar á þolrifin fór ég Laugaveginn um sumarið. Það gekk vel, maður komst alla leið og allt í lagi með skrokkinn. Sko minn, bara búinn að hlaupa ofurvegalengd. Nokkuð góður.

Árið 2003 hljóp ég öll maraþon sem hægt var heima og fór síðan í mitt fyrsta hlaup erlendis, í góðri ferð til Búdapest. Ég æfði vel fyrir Mývatn þetta árið og bætti mig þar en hélt lágum prófíl í öðrum hlaupum, enda fara sumrin oft í óreglu hjá mér hvað hlaupin varðar. Engu að síður leið mér mjög vel í öllum hlaupunum (nema í Búdapest) og ástandið á fótunum mjög gott. Þá um haustið datt mér í hug að gaman væri að stefna að einhverju sérstöku á næsta ári í tilefni þess að þá væri 10 ár síðan ég hljóp skemmtiskokkið góða með fötin undir hendinni. Í bríaríi fór ég að orða að gaman væri að reyna sig við 100 km hlaup. Einir íslendinga höfðu þeir Ágúst Kvaran og Siggi Gunnsteins hlaupið svo langa vegalengd þannig að hér var um þannig áskorun að ræða að varla var nokkur skynsemi í henni. En þetta fór sem sagt að grafa um sig í huganum. Ég lenti síðan í því í nóvember að slíta vöðvaþráð í kálfanum í nóvember og hljóp ekkert í einn og hálfan mánuð. Kannski sem betur fer því ég kom úthvíldur til leiks í janúar byrjun.

Undirbúningurinn

Markmið var sett, 30% lengri hlaup í hverjum mánuði en á síðasta ári. Það gekk nokkuð vel því veður var gott á útmánuðum. Æfingar teknar af alvöru og aga. Ég setti meira að segja upp Balanced Scorecard stefnukort fyrir undirbúninginn í sambandi við kúrs í B.Sc. sem ég tók í HÍ um veturinn. Mér til happs höfðu þeir Halldór Guðmunds, Pétur Reimars og Svanur Braga verið með svipaðar hugrenningar og stefndu á Del Passatore á Ítalíu, drottningu fjallahlaupanna. Halldór varð síðan fyrir því óláni að meiðast en Pétur og Svanur héldu sínu striki og hlupu svakalega um veturinn í hvernig veðri sem var. Ég fylgdist með æfingum þeirra og leist ekkert á. Var þetta það sem til þurfti? Í marsmaraþoninu var ég reyndar svo vel á sig kominn að það hefði ekki verið neitt mál að halda áfram, alla vega upp í 50 km. Það jók bjartsýnina. Ég fór síðan tvo langa túra með Pétri og Svan, annað frá Hafnarfirði upp í Bláfjöll í snjókomu og frosti og reiknaðist vegalengdin vera 54 km. Hinn túrinn var Þingvallahlaupið þann 1. maí, samtals 74 km. Maður var svo brattur í lok hlaupsins að við göntuðust með það að ef við hefðum haft fyrirhyggju með að láta heita súpu bíða eftir okkur í Nesbúðinni, þá hefðum við sem best getað haldið áfram upp að Þingvöllum og klárað 100 km. Þeir Svanur og Pétur gerðu það svo sem daginn eftir þegar þeir hlupu 25 km. Eftir Þingvallatúrinn var ég öruggur og pantaði flugmiðann. Teningunum var kastað, 100 km á Borgundarhólmi skyldu það vera. Fyrst ég kláraði 74 km í maí óundirbúinn þá hlyti ég að geta klárað 100 km í ágúst eftir allar æfingar sumarsins til viðbótar.

Ég æfði vel um vorið og hljóp m.a. um 450 km í maí, sem var miklu lengra í einum mánuði en ég hafði áður gert. Mörg hlaup og löng. Ég hafði breytt um aðferð frá fyrri árum og tók nú langa æfingu bæði á laugardag og sunnudag. Áður hafði ég haft langa æfingu í miðri viku og svo á sunnudegi Ég fann að þetta hafði áhrif til aukins úthalds. Mývatnsmaraþonið gekk vel og settu marki var náð. Ég hélt áfram æfingum og fór svo Laugaveginn. Hann gekk vel og sérstaklega var ég ánægður með að ég datt aldrei niður, hélt svo að segja sama dampi allt hlaupið. Þá  byrjaði óreglan. Í fríum og sumarleyfa stússi er erfitt að koma við reglu á hlaupaæfingar. Því fór svo að æfingar snarminnkuðu. Ég náði einungis einni almennilega langri æfingu eftir Laugaveginn þegar ég hljóp Siglufjarðarhringinn. Áhyggjur fóru vaxandi, Borgundarhólmur beið með sína 100 km. Ég var búinn að segja frá því að ég stefndi þangað, þannig að það var ekki auðvelt að hætta við. Í Reykjavíkurmaraþoninu fór ég bara 10 km, enda einungis vika í Borgundarhólm. Eftir að hafa þurft að komast fram hjá nokkrum fjölda hraðahindrana í upphafi hlaups þá ákvað ég að kýla á að hlaupa af þeirri orku sem ég hefði til og sjá hvað það héldi lengi. Ég negldi mig undir 4 mínútum á km eftir ca 1 km af hlaupi og lét slag standa. Mér til undrunar þá hélt það alla leið í mark og ég náði tíma rétt yfir 40 mín. Ég hafði varla hlaupið hraðaæfingu í tvö ár heldur bara einbeitt mér að magninu þannig að ég var bara ánægður með styrkinn. En það er dálítill munur á 10 km og 100 km. Ég hafði keypt mér TIMEX hlaupaúr með GPS tæki við í júlílok. Það er gríðarlega gott apparat. Með því að sjá stöðugt á hvaða tíma maður hleypur er hægt að stjórna hlaupinu á allt annan og markvissari hátt. Ég kynntist þessu tæki hjá Sigmundi frá Selfossi í Mývatnsmaraþoninu þar sem hann stjórnaði hraðanum af mikilli festu. Þetta tæki var lykillinn að þeim tíma sem ég fékk í RM.

100 km á Borgundarhólmi

Ég er kominn til Borgundarhólms. Fiskisagan hafði flogið og ýmsir verið að spyrja um hlaupið og óska mér góðs gengis. Nú var ekki aftur snúið. Alvaran blasti við. Ég er stressaður og hugsaði um lítið annað en komandi hlaup í þá tvo daga sem ég dvaldi í Danmörku fyrir hlaupið. Hvað var ég að fara út í? Átti ég nokkuð erindi í þetta miðað við það slugs sem hafði verið á æfingum í júlí og ágúst? Þó að Laugavegurinn hefði gengið vel þá lifði maður ekki lengi á því. Hvað ef maginn færi í kássu eins og ég hafði séð dæmi um? Hvað ef sinadráttur ryki í kálfa og læri og maður þyrfti að ganga meira og minna í 20 30 km þar sem löngu æfingarnar vantaði í lokaundirbúningnum. Það hjálpaði ekki mikið að vera í jakka sem á stóð Ultramaraþon ef innihald jakkans væri lélegt. Það væri ekkert sérstaklega gaman að koma heim aftur með "Over tidsgrænse" fyrir aftan nafnið sitt á vef hlaupsins en við 13 klst er hlaupinu lokað. Þó maður væri nokkuð vanur að hlaupa maraþon þá er hér um allt annan hlut að ræða eða tæplega tvö og hálft slík. Þó maður hefði svo sem getað haldið eitthvað áfram að hlaupa áfram eftir maraþonhlaup eða t.d. upp í 50 km, þá voru aðrir 50 eftir í þessu dæmi, þegar að þeim mörkum var komið. Yfirleitt hafði manni fundist nóg komið þegar markinu var náð. Mér var hætt að lítast á þetta. Ekki batnaði ástandið þegar ég sá á netinu kvöldið fyrir hlaup að bæði Torfi og Gísli Ásgeirs voru búnir að kynna það á vefnum fyrir hlauparasamfélaginu í hvaða erindagjörðum ég væri í Danmörku. Nú vissu sem sagt allir af þessu.

Þó ég væri búinn að fylgja öllum undirbúningsreglum hvað varðar mataræði var ekki þar með tryggt að skrokkurinn væri til í þann slag sem framundan væri. Ég hafði úðað í mig kartöflum, pasta, hrísgrjónum og brauði í 5 daga, drukkið mikið vatn og skellt í mig dollu af Carbo Lode eins og lög gera ráð fyrir. Ég hafði farið ótal sinnum gegnum hlaupið í huganum, stúderað hlaupaleiðina og reynt að skipuleggja mig, en samt, efinn sótti að mér. Undir svefn á laugardaginn ákvað ég að taka myndavél með í hlaupið, ég hefði þá allavega myndir með mér heim ef allt annað færi til andskotans. Þetta róaði mig og stressið minnkaði. Að morgni sunnudagsins fylgdi ég öllum undirbúningsreglum sem ég best kunni, húðplástur undir tábergið, vaselín á fætur og aðra líkamshluta sem ástæða þykir til, orkugel og orkubitar í skjóðu, salt í bréfum, vatnsbrúsar í belti og svo myndavélin góða.

Ég labbaði svo niður að marksvæðinu um morguninn en þar voru þátttakendur mættir. Bornholm ultramaraþon er lítið hlaup. Það minnir að sumu leyti á þau hlaup sem FM stendur fyrir. Það eru kannski um 100 manns í heildina sem taka þátt í 100 km, maraþoni og 100 km boðhlaupi. Ég hafði líka látið skrá mig í maraþon til að ná alla vega priki í skrána hans Gísla ef allt færi á versta veg. Þátttakendur voru fagmannlega búnir við markið, allir brúnir af útiveru og til í allt eftir svipnum að dæma. Ég hitti þarna danskan strák sem hljóp 100 km í fyrra en fór of fljótt að æfa aftur og hefur verið að berjast við hnjámeiðsli síðan. Hann var hrifinn af Timex dótinu, en fæstir keppenda höfðu slíka græju það ég sá. Einnig hitti ég þarna eldri danskan mann sem ég hafði áður hitt á ferjunni til Borgundarhólms. Hann vann sér það til frægðar fyrir nokkrum árum að hlaupa 102 maraþon á sama árinu. Nú var hann með í boðhlaupi og því mjög afslappaður. Mér hafði ekkert litist á veðrið um morguninn. Það var heiðskýr himinn, en þó örlaði fyrir skýjabakka í suðrinu. Minnugur Bútapestar þá leist mér ekki á að hlaupa 100 km í brennandi sólskini. Ég svitna ætíð mjög mikið á hlaupum og ekki myndi það minnka við þessar aðstæður. Sama er, nú var ekki aftur snúið. Þetta færi einhvern veginn en ekkert við því að gera úr þessu. Ég hafði sett mér fjórar reglur að fara eftir í hlaupinu:

1. Fara hægt af stað.
2. Drekka mjög mikið og reglulega frá upphafi.
3. Borða reglulega frá upphafi.
4. Ganga upp allar brekkur frá byrjun.

Ef þessu yrði fylgt eftir myndi það auka líkurnar á að mér tækist að komast með óskert mannorð gegnum hlaupið. Ég hafði sett mér það mark að hlaupa hverja 10 km á rúmlega 1 klst. Það ætti að skila mér í mark á rúmlega 11 klst og ég hefði nokkuð upp á að hlaupa ef þörf krefði. Þar treysti ég á Timex félaga minn. Þegar skotið reið af stillti ég mig inn á fyrirfram ákveðinn hraða en sá fljótt að þann hlaupahraða var ég því sem næst einn um. Allur hópurinn tók af stað á vel undir 5 mín á klst og þeir fyrstu vitaskuld mun hraðar. Mér leit ekkert á blikuna. Var hér samankominn hópur eintómra járnkarla (ironmen) sem myndi skeiða það sem framundan var á allt öðru plani en ég hafði sett mér. Það yrði bara að koma í ljós en ég myndi ekki breyta mínum áætlunum. Mér yrði kannski strítt eitthvað í vinnunni ef ég yrði síðastur í mark en það yrði bara að hafa það ef ég kláraði hlaupið á annað borð. Áhyggjur mínar varðandi hitann reyndust réttar því eftir 2 km var ég orðinn bullsveittur og byrjaður að drekka. Fallega byrjaði það. Fastheldinn í planið fann ég mér tvær góðlegar konur á miðjum aldri og hélt sjó með þeim. Önnur sagðist vera í boðhlaupi og örugglega vera hægasti hlauparinn í þessu hlaupi. Við þrjú vorum tryggilega síðust af öllum fyrstu 15 20 kílómetrana. Konurnar voru hinar kátustu og spjölluðu margt. Það kom svo í ljós að hin konan var nokkurskonar Bryndís þeirra Borgundarhólmara. Hún heitir Gurli Hansen og hafði hlaupið 27 maraþon á fimm árum og þrjú 100 km hlaup. Nú var hún meidd og ætlaði því bara að fara maraþon. Hún sagði að ef maður kæmist maraþon þá gæti maður líka hlaupið 100 km. Líðanin í fótunum versnaði ekki svo mikið eftir að maraþoninu lyki, aðallega væri þetta spurning um andlegan styrk og að drekka mikið og reglulega. Þetta létti hugann dálítið. Þetta voru hennar heimaslóðir og hún þekkti marga á leiðinni.

Á einum stað stóð aldraður maður og veifaði til hlaupara. Gurli sagði að hann væri 84 ára og hefði hlaupið 25 km á síðasta ári í boðhlaupinu. Við vorum sammála um að miðað við hann ættum við eftir mörg góð ár á hlaupum. Ég sagði þeim söguna af því þegar Jón Guðlaugsson hljóp fyrsta formlega maraþonið á Íslandi, 42 ára gamall, og fékk vandlætingar í blöðunum um að svo gamall maður væri að leggja út í slíka fásinnu. Þetta fannst þeim fyndið. Ég byrjaði að borða banana og orkubita á drykkjarstöðvunum strax á 10 km. Mér fannst það vera mikið atriði til að fara ekki að raða í tóman magann þegar maður væri orðinn svangur eða orkulítill. Það kom í ljós að þetta var rétt mat. Ég yfirgaf þessar ágætu konur á 20 km og nuddaði áfram. Þá vorum við enn síðust af öllum en ég fór skömmu síðar fram úr tveimur mönnum sem hlupu maraþon. Hvergi sáust járnkarlarnir eða yfirleitt nokkur maður á hlaupum. Í hlaupinu eru hengdir litlir tauflipar aftan á þátttakendur til að það sjáist hvað hver og einn hleypur langt. Grænn á maraþon og rauðir á 100 km hlaupara. Upp úr 30 km fór ég síðan að draga uppi einn og einn maraþonhlaupara og síðan fór einn og einn rauðflipi að koma í ljós. Kannski voru ekki þetta ekki eintóm ofurmenni eftir allt saman. Maraþonleiðin er mjög öldótt og eiginlega varla nokkur almennilega flöt leið á henni. Ég áætla að fyrir venjulegt fólk sé hún 20 30 mínútum hægari en RM og Mývatn. Brautarmetið á henni var rétt undir 3 klst fram að hlaupinu 2004. Tvær mjög erfiðar brekkur eru á leiðinni, önnur á 15 km og hin upp í markið. Þegar ég kom að þeirri seinni var nokkur hópur grænflipa að labba upp hana, voru greinilegar komnir á síðustu dropana. Ég braut þá eina meginregluna og skokkaði upp brekkuna og fram úr hópnum, þetta var þó keppnishlaup þrátt fyrir allt. Ég var á 4.21 í markinu og var það alveg eftir áætlun.

Það var merkileg tilfinning að koma í maraþon markið og halda síðan beint áfram. Hingað til hafði manni fundist það vera alveg nóg að skila sér í mark eftir maraþonhlaup og hætta. Nú fannst manni hinsvegar eins og hlaupið væri rétt að byrja. Hvergi stirðleiki eða þreyta, líðanin eins og að aflokinni 10 km æfingu á hefðbundnum sunnudagsmorgni. Allt í himnalagi. Kannski var maður ekki í svo slæmu formi þrátt fyrir allt. Hin andlega stilliskrúfa virðist einnig skipta verulegu máli í þessu sambandi. Nú fór smám saman að hilla undir fleiri rauðflipa og tíndi ég þá upp einn af öðrum. Járnkarlarnir voru greinilega færri en ég hafði haldið í upphafi. Við 49 km lá einn á fjórum fótum úti í vegkanti og ældi lifur og lungum. Þetta var það sem ég hafði óttast hvað mest af öllu að maginn myndi fara á hvolf. Við 50 km var ég á 5.10 og var það heldur betra en ég hafði búist við. Þar sátu menn og lágu og leið greinilega ekki of vel. Ég hafði látið flytja poka að þessari drykkjarstöð með ýmsum nauðsynjum en mér leið svo vel að ég tók bara nokkur gelbréf úr honum og lét hitt liggja. Svo var skokkað áfram og líðanin eins og best var á kosið. Hvergi þreyta, strengir eða magaónot. Líðanin eins og í þægilegri skoðunarferð. Ég drakk vel á hverri drykkjarstöð, borðaði banana og orkubita og tók orkugel annað slagið. Enn birtust rauðflipar framundan sem voru farnir að hægja verulega á sér. Þetta voru greinilega bara venjulegir menn sem höfðu einfaldlega farið allt of hratt af stað. Við 58 km voru ákveðin tímamót. Heilt maraþon eftir. Það virtist dálítið ógnvekjandi en sama var, ég var farinn að sjá að ég myndi druslast í mark under tidsgrænse ef ekkert óvænt kæmi ekki upp á, jafnvel undir 11 klst. Við 60 km tók ég fram úr konu sem var byrjuð að hlaupa afturábak til að brjóta upp strengi í fótunum. Þá mundi ég allt í einu eftir því að ég hafði alveg gleymt Íbúfeninu við 50 km og einnig að bera á mig vaselín upp á nýtt. Ekkert var við því að gera úr þessu.

Áfram liðu kílómetrarnir og nú kom TIMEX sér vel. Bæði hélt hann aftur af mér ef ég freistaðist til að hlaupa of hratt og eins var mjög mikilvægt að sjá hvað kílómetrunum leið því merkingar eftir maraþon voru einungis á 5 km fresti eða á drykkjarstöðvunum. Ég passaði mig líka á því að fara ekki yfir 150 í púls því þá fór maður að svitna meira en hollt var. Enda þótt seinni helmingur leiðarinnar sé flatari en sá fyrri þá voru margir mjög seigir kaflar á henni. Einhvernvegin fannst manni brekkurnar uppí móti  vera bæði fleiri og lengri en þær sem lágu niður í móti. Upp frá R¢nne er t.d. um 4 km löng Kleppsvegsbrekka sem tók í. Mér brá dálítið einu sinni á þessum kafla þegar ég strauk yfir öxlina því hún var eins og það hefði verið stráð á hana sandi. Saltútfellingin var svo svakaleg að ég er viss um að það hefði mátt gera hafragrautardisk brimsaltan ef því hefði verið safnað saman í hann sem utan á mér sat. Við 74 km voru önnur tímamót. Þetta hafði ég lengst hlaupið áður. Enn voru 26 km eftir, dálítið ógnvekjandi. Ég var með útvarp með og það hjálpaði mikið. Ég hafði hitt á góða rás sem spilaði mikið af þessum fínu dönsku lögum með t.d. John Mogensen, Kim Larsen og fleirum Síðan komst ég að því að danir hafa sinn Grátt í vöngum þátt nema að Jörgen Mylius er í hlutverki Gests Einars. Jörgen þessi er t.d. helsti sérfræðingur Dana í Eurovision.

Áfram hélt hlaupið og nú var maður einn i ca 15 km. Ég gekk af og til nokkurn spotta til að brjóta upp hreyfinguna en passaði mig á að ganga aldrei meir en 100 skref í einu. Veðrið var eins og best var á kosið. Þegar leið á daginn hafði dregið í loftið svo sólin var ekki til eins mikilla óþæginda eins og hafði verið fyrri hluta hlaupsins. Hitinn var 18 20 gráður sem var afar þægilegt. Nokkur gola var sem var gott út af fyrir sig en það sem verra var að hún var í fangið eiginlega allan seinni helming hlaupsins. Við 90 km markið náði ég einum sem virtist vera úr boðhlaupssveit þar sem hann var flipalaus, en það var svo sem engu að treysta, hann gat hafa farið í þurra skyrtu. Við fylgdust að þar til ca 7 km voru eftir en þá herti ég á mér (ef hægt er að kalla það því nafni eftir yfir 90 km hlaup) og keyrði eins og ég gat það sem eftir var. Í mark kom ég mjög léttur og afslappaður á 10.27 sem reyndist duga í 8.sæti. Það var vel fram úr mínum björtustu vonum. Ég hafði hlaupið seinni hlutann á 5.17 eða einungis á 7 mín lengri tíma en fyrri hlutann. Það var fínt. Ég hafði klárað hlaupið með þokkalegum sóma og það sem mest var um vert án þess að neitt kæmi upp á og alveg óþægindalaust. Rólegheitin í upphafi höfðu greinilega skilað sér. Síðustu 10 km hljóp ég á rúmlega 50 mín og fann hvergi fyrir mjólkursýru né öðrum álíka leiðindum. Í markinu var keppendum vel fagnað og tekið á móti þeim með kostum og kynjum. Reyndar var verðlaunapeningurinn sá vesaldarlegasti sem ég hef fengið en allt annað bætti það upp. Manni var m.a. skellt upp á bekk og fæturnir nuddaðir til að draga úr strengjunum. Það lá síðan við að maður táraðist þegar maður fór að átta sig á þeirri staðreynd að hlaupið væri í höfn. Það sem hafði virst óyfirstíganlegt hafði gengið upp. Áhyggjurnar og stressið dagana á undan höfðu kannski að hluta til verið lykillinn að því að hlaupið gekk eins vel og raun bar vitni.

Að nuddinu afloknu var farið í sturtu og borðað, glaður og ánægður eftir góðan dag. Ég fór að draga það saman eftir hlaupið að líklega hef ég drukkið milli 10 og 12 lítra af vatni og orkudrykk meðan á því stóð. Ég kláraði alltaf brúsa sem tekur 1/3 út lítra milli hverra drykkjarstöðva og stundum meir af því sem ég hafði með sér og alltaf drakk ég töluvert vatn á drykkjarstöðvunum þannig að ég held að þarna sé ekki mjög rangt reiknað. Um 1/3 1/2  banana borðaði ég á hverri stöð, ca ¼ - ½ orkubita og ca 12 - 14 orkugel alls á leiðinni. Að byrja að borða strax við 10 km, drekka frá upphafi og halda því síðan reglulega áfram var meðal annars undirstaða þess að ég fann aldrei fyrir óþægindum, þreytu eða orkuskorti á meðan á hlaupinu stóð. Þrátt fyrir allt þetta át skildi ég eftir nokkur kíló í brautinni, líklega þrjú til fimm miðað við hvað maður var kviðdreginn um kvöldið. Af þeim 30 sem hófu hlaupið hættu 12 þegar upp var staðið en 18 skiluðu sér í mark þannig að áhyggjur mínar fyrir hlaupið höfðu greinilega alls ekki verið út í hött. Á ferjunni var mér t.d. sagt af einum sem datt út eftir 90 km. Þá gat hann ekki meir. Það hefnir sín greinilega að fara of hratt af stað þegar 100 km eru framundan.

Að lokum

Ég gerði það mér til gamans að draga hér að framan saman hlaupasögu mína, svo merkileg sem hún er, í aðdraganda þess að ég hljóp 100 km ofurmaraþon á Borgundarhólmi fyrir skömmu. Það var ósköp lítill atburður í upphafi sem varð þess valdandi að þetta hófst allt saman. Þessi litli atburður olli hins vegar þáttaskilum í lífi mínu á margan hátt og ég er ekki samur maður eftir á ýmsan hátt. Þessi samantekt er fyrst og fremst ætluð til að draga það fram að það eru engin ofurmenni sem ná að komast í gegnum 100 km ofurmaraþon heldur er það fyrst og fremst spurning um dálítinn aga, nokkra alúð við æfingar, ákveðna markmiðssetningu og síðan skipulagningu bæði fyrir hlaup og eins í hlaupinu sjálfu. Nú má enginn skilja það svo að það sé eitthvað endanlegt takmark að hlaupa 100 km, fjarri því. Ég lít á þá hreyfingu sem hlaupunum fylgir vera það grundvallaratriði sem öllu máli skiptir. Hún bætir bæði andlega og líkamlega líðan, styrkir sjálfsagann, eykur sjálfstraustið og hjálpar til við að halda kílóunum eins mörgum og eins og maður vill hafa þau. Vegalengdir og tími eru síðan ákveðin uppskera fyrir allt puðið.  Félagsskapurinn sem myndast í kringum hlaupin er svo krydd på kakan. Það er svo merkilegt að það er sama hvort maður hittir innlenda eða erlenda hlaupara sem eru manni ókunnugir að það er alltaf nóg að tala um hvað hlaupin varðar. Ég hitti t.d. Bandaríkjamann á ferjunni til Kaupmannahafnar sem tók þátt í 100 km hlaupinu. Hann hafði hlaupið nokkur 100 km hlaup áður og einnig nokkur 100 mílna hlaup. Hann hefur Laugaveginn á skránni hjá sér sem framtíðarmarkmið og spurði ítarlega út í hann. Hann sagði mér ýmislegt af reynslu sinni hvað hlaupin varðar og meðal annars af skemmtilegu 100 mílna hlaupi í Kaliforníu.......