Hlaupaferð yfir Fimmvörðuháls 10. júní 2005 - Njörður Helgason

birt 19. júní 2005

Föstudagur, 10. júní, Haldið var á Fimmvörðuháls. Lagt af stað austur að Skógum um klukkan tvö. Ég og Lísa fórum frá Selfossi með Guðjóni Ægi og Þórdísi í ferð með FÍFUNUM, Félagi íslenskra fjalla- og utanvegaráfara.

Komin austur upp úr kl. þrjú. Sáum að við vorum komin á réttann stað fyrir utan Edduhótelið í gamla Skógaskóla. Þar voru allir í aðsniðnum buxum. Með drykkjarbelti og í skrautlegum bolum, margir með húfur og sólgleraugu. Þetta gátu ekki verið annað en langhlauparar.
Lögðum af stað í rútu frá Skógum upp úr kl. hálf fjögur. Alls þrjátíu manns, karlar og konur. Komum inn í Bása upp úr kl. fimm. Stilltum okkur upp í myndatöku og héldum svo af stað. Upp, upp. upp.

Brekkan er löng og á köflum allbrött. Hæsti punkturinn á leiðinni yfir hálsinn er í 1100 metra hæð. Skógar eru í 60 metrum yfir sjó. Básar líklega í um 100-150 metrum yfir sjó. Þetta var því góður kílómetri upp á við en vegalengdin yfir hálsinn er um 22-24 kílómetrar.
Já þetta var því upp og niður. Ferðin upp hlíðina að norðan var farin varlega. Gengið rösklega upp brekkurnar og skokkað létt á því sem var sléttara.
Þegar ofar dró fór að vera snjór á gönguleiðinni. Þá var bara að hafa það, gengið upp skaflana og haldið áfram upp á við. Þegar bröttustu brekkunni lauk var erfiður hjalli að baki. Enn var spotti að hæsta punkti ferðarinnar.

Uppi á hálsinum var talsverður snjór. Yfir hann skokkuðum við. Einhversstaðar undir snjónum var jú merkt leið. Nokkuð óvenjulegt að hlaupa í snjó, langa leið. En þetta gekk. Þegar hæsta hjalla var náð við Baldvinsskálann var talsverður vindur. Sem betur fer í bakið.
Þarna var fallegt útsýni til allra átta. Það var kannski þarna við skálann sem maður áttaði sig á því hvað við vorum hátt uppi. Eyjafjallajökull hóll í vestrinu. Og Goðabunga hæð fyrir austan okkur. Bæði upp á 1600 metra yfir sjó.

Nú lá leiðin niður á við. Leiðin niður að Skógafossi var nokkuð jafn hallandi niður á við. Til að byrja með snjór á köflum en hann minnkaði stöðugt. Enda meiri bráðnun suður á móti sólu mest allann daginn. Við snjóröndina var holklaki, drulla í skódýpt.
Hlaupið niður í móti sló mann upp í bakið og það varð að gæta sín á grófum stígnum sem hlaupið var eftir. Auðvelt að detta eða misstíga sig. Þegar komið var að Skógá voru 8 kílómetrar að Skógafossi. Þetta styttist. Það var líka breyting á umhverfinu. Eyjafjallajökull var að taka á sig rétta mynd. Farinn að verða myndarfjall aftur, ekki hæð í vestrinu eins og uppi á hálsinum. Síðasti spölurinn var að Skógafossi og niður tröppurnar austan við hann. Gott að komast niður á kunnuglegar slóðir undir Eyjafjöllum.

Aftur hrósa ég þessum fjallahlaupum og fjallahlaupurum. Skemmtilegur hópur og góðar leiðir sem eru valdar. Í hópnum sem við fórum með í þetta skiptið voru flestir að taka æfingu fyrir Laugavegshlaupið 16. júlí. Guðjón Ægir og ég erum nokkuð ákveðnir í að fara. Lísa að hugsa málið. Heyrðist á Þórdísi að Laugavegurinn væri ekki á döfinni. En miðað við frammistöðuna er ég viss um að báðar kæmust alla leið með sóma. Tími okkar frá Selfossi var um 3:25 frá Básum að Skógum. Hlaupið var ekki keppni fólk fór á sínum hraða og allir komust klakklaust í Skóga. Fórum á eftir í sturtu og fengum súpu og brauð á Eddunni. Fín ferð, þakka öllum fyrir daginn.