Íslandi allt: New York maraþon 2004 - Bryndís Baldursdóttir

birt 15. nóvember 2004

Aðdragandinn
Þetta byrjaði allt saman þegar Kaupmannahöfn klúðraðist hjá mér í vor.  Ég hætti snarlega við að fara þegar vinnan, kuldinn og letin lögðust á eitt við að rústa hjá mér æfingaplaninu.  Þá skráðum við Ásgeir okkur í New York og það var langt þanga ðtil.  Ásgeir er meira og minna (aðallega meira) búinn að vera meiddur síðan.  Fyrst þurfti hann í hnéaðgerð vegna liðþófa, síðan snéri hann ökkla og ofreyndi svo hinn öklann.  Í haust bættist svo gæsaskytterí ofan á aðrar meiðslafjarverur.
Ég er hinsvegar búin að auka markvisst hlaupin síðan við komum úr sumarfríinu í haust, og er bara þó nokkuð sátt við þann undirbúning þó að kílómetrafjöldinn í honum hafi verið um það bil fjórðungi minni en venjulega vegna sundæfinga.  Ég er svo sem ekkert viss um að ég hefði gert betur í þessu hlaupi með fleiri kílómetra að baki, það var svo margt annað sem spilaði þar inn í .
Ívar vinur okkar sagði mér margt um þetta hlaup þegar ég sagði honum hvert við værum að fara.  Ég get því ekki sagt að ég hafi ekki verið vöruð við því að brautin væri erfið eða að ég hafi ekki vitað það fyrir að ég ætti að reyna að pota mér aðeins framar í startinu, því þetta vissi ég allt saman vel.  Það hentaði mér bara einhvernveginn ekki að fara í hlaup með erfið braut í huga.  Hitt var svo almennur klaufaskapur.  Sumt verður maður bara að reyna á sjálfum sér til að ná því inn í kollinn.
Þegar nær dró hlaupinu var ég semsagt farin að hugsa um að bæta tímann minn (sem er 4:06), og hver veit hvað ég gæti gert  á fullkomnum degi í mínu besta dagsformi á sléttri braut, mér finnst það ennþá ósannað mál.
Planið var :
A:  Undir 3:50 (ná Bostonlágmarkinu og fara í Boston með Elínu og Jóhönnu)
B:  Undir 4 tíma
C:  Njóta dagsins

Ferðalagið
Ferðaáætlun :  Flogið út á föstudegi, keppnisgögnin sótt á laugardegi, maraþon á sunnudegi og svo mánudagur, þriðjudagur og miðvikudagur til að skoða borgina og versla. 
Það var bara allt í einu komið að þessu. Við búin að sníkja okkur far með Þóru og Lúlla á völlinn og ég sat við lestur heillaóska þegar þau renndu í hlaðið hjá okkur um hálfþrjúleytið á föstudegi. 
Fluginu seinkaði.  Vélin átti að fara um fimmleytið, en úti var brjálað rok og mér fannst ekki árennilegt útsýnið út um þakgluggana í Keflavík þar sem járnaverk sást svigna undan vindinum.  Ég veit samt ekki hvort það var þess vegna eða vegna þess að einhverjir sárasakleysislegir ríflega miðaldra meðlimir Hells Angels höfðu ákveðið að koma í kurteisisheimsókn á skerið sem vélinni seinkaði.  Eitt er víst að við gátum stytt okkur stundir við að virða fyrir okkur lögregluþjónana, öryggisverðina, gráa fyrir járnum og hundana sem skálmuðu inn og út af ganginum með útgönguhliðunum á meðan við biðum eftir að kallað yrði út í vél.
Við fórum í loftið um hálfníuleytið og ferðin gekk tíðindalítið fyrir sig.  Klukkan ½ 4 að nóttu til á íslenskum tíma (23:30 í NY) komum við svo á hótelið.

Hótelið okkar var á frábærum stað, ofarlega á 5. Avenue, beint á móti almenningsbókasafninu sem er sviðsmyndin í stórmyndinni The day after.  Nokkru ofar við þá götu er svæði sem kallað hefur verið playground of the rich people, þar sem Rockefeller reisti sér minnismerki og nokkru neðar við sömu götu er Empire State byggingin.  Við vorum semsagt í göngufæri við nánast allt á Manhattan frá hótelinu okkar. 
Í stíl við annað í þessu háhýsahverfi vorum við Ásgeir á 18. hæð, en það þótti ekkert sérstaklega hátt uppi.  Hótelið okkar var þrjátíu hæðir og var fremur lágreist miðað við aðrar byggingar á þessu svæði.  Lyfturnar í þessum húsum ganga á geðveikum hraða sem veldur mér verulegum vandræðum þar sem ég þjáist af óþægindum sem má kannski kalla lyfturiðu og koma fram í því að ég missi allt jafnvægisskyn eftir að hafa farið inn í eitthvað sem hreyfist hratt upp niður eða út á hlið ef það er ekki útsýni út úr því með föstum punkti til að miða við.

Við fengum áfall þegar við sáum rúmið okkar.  Það er nú kannski til of mikils ætlast að fá rúm á stærð við skeiðvöllinn okkar, en það má nú kannski á milli vera.  Næst ætla ég að biðja um TVÖ rúm.  Beddinn var að svipaðri breidd og rúmið sem unglingurinn minn sefur á.  Ofan á honum voru hin dæmigerðu hótelsængurföt, eitt lak með teppi ofaná.  Dýnan var svo ofan á allt saman grjóthörð.  Líklega hafa stjörnurnar sem þetta hotel hefur verið fengnar út á staðsetninguna.  Líklega ætti maður að hafa vit á því að vera bara heima hjá sér fyrst maður er orðinn svona kröfuharður. 
Við hlupum beint út af hótelinu aftur og leituðum að einhverju að éta.  Í borginni sem aldrei sefur er nóg af veitingastöðum.  Sumir þeirra loka þó um tólfleytið.  Eftir að hafa gengið framhjá lokuðum McDonalds fundum við einskonar kjörbúð sem seldi heitan mat eftir vigt.  Ég mæli ekki með svona mat um þetta leyti.  Hann er búinn að liggja í hitaborðinu ansi lengi. 
En hvað sem öðru líður þá varð okkur ekki meint af matnum (búið að sjóða alla sýkla úr) og við sváfum bara aldeilis ágætlega.

Íslandi allt
Laugardagurinn var tekinn snemma.  Matthildur útbýtti auglýsingabolum frá Reykjavíkurmaraþoni sem lituðu Íslendingahópinn fagurrauðan.
Svo var arkað af stað klukkan níu að finna rútur sem keyrðu fólk í Expoið.  Þegar við komum að rútustoppinu sáum við á kortinu að við vorum þegar komin hálfa leið.  Eftir nokkurra mínútna bið eftir rútunum var þó nokkur hópur sem rölti bara af stað.  Við þolinmóða fólkið vorum að sjálfsögðu þar.  Á leiðinni hittum við New York búa sem höfðu farið í Reykjavíkurmaraþon.  Þau sögðu okkur að það kynni að verða kalt að fara yfir brýrnar.  Það þóttu okkur gagnlegar upplýsingar.
Við vorum heilluð af því hvað Ameríkarnarnir voru góðir í skipulagi.  Þarna gengur allt voða hratt fyrir sig, og manni líður pínulítið eins og risaeðlu innan um þetta lið.  Ég var alltaf að lenda í því, í Expoinu, inni í búðum, uppi í Empire State, eiginlega hvar sem er að það var vörður að reka á eftir mér.  Go, go, go.  Keep moving, folks.  Dont let there be a gap!   Just keep walking mam.  Mér fannst ég svo oft vera fyrir.  Í svona mannmargri borg er gífurlegt vinnuafl í þessu.  Allt svertingjar.
Biðröðin í að sækja keppnisgögnin náði í hlykkjum yfir risastórt anddyri, en hún stoppaði aldrei.  Maður bara rölti þetta í hægðum sínum, þurfti aldrei að stoppa og svo þegar maður var búinn að fá gögnin þá var maður fjarlægður af svæðinu (Just keep movin mam) í hvelli svo ekki myndaðist tappi af ráðvilltu fólki fyrir útgöngunni.

Þarna var allt mögulegt að finna.  Fyrir utan rándýran Asics fatnað með New York Maraþon logoinu var hægt að gera þarna góð kaup á allskyns sportfatnaði og skóm.  Þarna var líka verið að gefa allskyns prufur og við komum út klyfjuð af íþróttadrykkja og próteinbarprufum og skóm og með armbönd með hlaupaáætlun pr. mílu og súrefnisplástra á nefi og í vösum.
Klukkan hálftvö var svo mæting í Time Warner bygginguna þar sem Íslandi Allt kynningin var í fullum gangi.  Þetta er víst dýrasta og flottasta byggingin á Manhattan já eða með þeim dýrustu og flottustu.  Ég frétti að hádegisverður á veitingastað á efri hæðum þarna kostaði einhverja 300 dollara.  Þarna inni var svona svipað eins og í Kringlunni.  Þennan dag voru Siggi Hall og fleiri íslenskir kokkar við lambakjötssteikingu og kynningu í byggingunni, Flugleiðir voru þarna með kynningarbás, en hápunkturinn var þegar tveir stórir íslenskir kórar söfnuðust saman kringum rúllustigann sem lá upp úr matvöruversluninni í kjallaranum og sungu á meðan Ólafur Ragnar og Dorrit svifu upp úr djúpunum í stiganum.  Utan um þetta allt saman slógum við hlaupararnir svo þunnan rauðan hring og stungum verulega í stíl við mörgæsafötin og galakjólana sem kórfólkið klæddist.  Mikið hefði verið huggulegt að hafa landsliðsbúning í íslensku fánalitunum. 
Svo hélt forsetinn okkar ræðu um það hvað við erum nú hlutfallslega best í heimi og miðað við höfðatölu eiginlega búin að vinna þetta hlaup.  Ekki spurning.

Eftir þetta vorum við hlauparar boðin í nýopnaða hlaupabúð í byggingunni þar sem við fengum mjög góðan afslátt og versluðum mikið. 
Í þetta fór nú laugardagurinn.  Marmaragólfin í Time Warner sendu kalda þreytustrauma upp leggina.  Í matvörubúðinni á neðstu hæðinni fékk ég þann besta indverska mat sem ég hef á ævinni bragðað.  Seldur eftir vigt.  Svo var skreiðst heim á hótel.  Ég var allt of þreytt til að fara í pastamáltíðina sem plönuð var í dagskránni, enda klukkan á Íslandi orðin 12 um kvöldmatarleytið og vissara að halla sér bara, enda þurfti að vakna á óguðlegum tíma fyrir hlaupið.

Maraþondagurinn
Upp klukkan 5 og reynt að drulla.  Ég held að það hafi verið indverski maturinn sem gerði gæfu muninn.  Þetta er fyrsta maraþonið mitt þar sem allt hefur gengið eins og í sögu hvað þetta varðar.  Svei mér þá ef ég spekúlera ekki bara í því næst að skipta út pastanu, sem er eiginlega bara hveitilím þegar maður hugsar út í það, fyrir skítagrænt masala með kartöflum og kjúklingabaunum útí.
Svo fór vaselínseremónían fram.  Vaselín á allt sem hugsanlega gat nuddast við eitthvað.  Gunnar Richter kenndi mér að nota vaselín.  Síðan er ég alveg hætt að vera með einhvern pempíuskap við þetta.  Maður tekur stórar slummur og smyr á sig eins og koppafeiti.  Gunnar setur vaselín á allan fótinn, ekki bara tærnar.  Hann fær líka aldrei blöðrur.  Ég gerði þetta núna.  Drekkti fótunum í vaselíni og fór svo í lukkusokkana frá Fjólu.  Þetta varð að hinni bestu samsetningu því ég fékk ekki eina einustu blöðru í þessu hlaupi.  Neglurnar eru líka allar á og engin blá ennþá. 
Svo fór ég í síðar og langerma- og keppnisbolinn utan yfir.  Kvöldið áður hafði ég límt á hann límstafi með GO BIBBA bæði framan og aftaná. 
Ég þoli mjög vel hita, en afskaplega illa kulda.  Ég vildi því ekki taka sénsinn á því að verða of kalt.  Datt náttúrlega ekki í hug að það yrði steikjandi hiti, enda haust í Ameríku.  Hitastigið daginn áður hafði verið 8-13 stig.

Klukkan 5:30 opnaði morgunverðarsalurinn.  Spes snemmopnun fyrir hlaupara.  Matthildur hafði líka náð að kría út úr þeim að það yrði brauð á boðstólnum auk vatnsdeigshornana sem annars voru mjög girnileg, en ekki árennileg undirstaða fyrir átökin.  Brauðrist var hinsvegar hvergi að sjá.  Ekki það að það pirraði mig neitt, ég var kampakát búin með nauðsynlegustu morgunverkin.
Það var brottför frá hótelinu klukkan 6:15 og ég rétt náði því að hlaupa upp á herbergi eftir morgunverðinn, koma mér í utanyfirfötin og grípa pokann með dótinu sem átti að nota eftir hlaup.  Urðum samt heldur sein niður í lobby og allur hópurinn var farinn út þegar við komum niður.  Þau höfðu þó ekki farið langt enda sáum við þau standa í risastórri röð á næsta horni þar sem rúturnar, sem áttu að flytja fólk að startinu, stóðu.  Við Ásgeir tókum til fótanna og hlupum í röðina.  Vissum af reynslunni að lengd biðraða í þessarri borg segir ekkert um það hversu lengi þarf að bíða.  Hlutirnir ganga oft ansi hratt fyrir sig þarna.
Í rútunni áttaði ég mig fyrst á því að mér höfðu orðið á alvarleg mistök.  Þetta var óvenju heitur dagur.  Það var alveg heiðskýrt og ég hafði gleymt sólgleraugum og húfu á hótelinu.  Ég krossaði fingur og vonaði heitt og innilega að einhver af þessum þrjátíu og fimm þúsund manns mundi henda eða missa derhúfu.
Startið var á Staten Island.  Á leiðinni yfir brúna sáum við lögreglubáta við brúarstólpana og álengdar stóðu vopnaðir menn.  Þarna var mikill viðbúnaður.

Þegar út úr rútunni kom gengum við í hægðum okkar eftir rennu sem lá inn á startsvæðið.  Sitthvoru megin stóðu gæslumenn sem stjórnuðu umferðinni (Just keep walking, folks) og yfirbragðið var allt eins og þegar gyðingarnir voru á leiðinni í útrýmingarbúðirnar.  Þó kannski ögn léttara.  Og þó
Þegar inn á svæðið kom skildust leiðir okkar Íslendinganna eftir því hvaða litur var á númerunum okkar.  Sumir voru á bláu svæði, aðrir grænu og enn aðrir á appelsínugulu.  Ég fór á bláa svæðið ásamt Ásgeiri, Lúlla og fleira fólki.  Við fundum gróinn gangstéttarkant og lögðum hann undir okkur.  Þarna reyndum við svo að láta fara vel um okkur á meðan við biðum eftir að hlaupið byrjaði.  Ég var með úrið stillt á íslenskan tíma og hjá mér var klukkan rúmlega 12 en hlaupið átti ekki að byrja fyrr en klukkan 3, eða 10 um morgunn á amerískum tíma.  Við vorum því ekkert að flýta okkur að setja fatapokana okkar í bílana heldur notuðum þá fyrir kodda og lögðum okkur í morgunsólinni. 
Tíminn leið ótrúlega hratt þarna á biðsvæðinu.  Við sátum eða lágum og slökuðum á á milli þess sem við spjölluðum saman.  Lúlli festi gelin á okkur með alveg nýrri aðferð sem hann ætti að sækja um einkarétt á.  Ég ætla að láta Lúlla eftir að sýna ykkur hvernig hann gerir þetta.  Það er engum blöðum um það að fletta að maðurinn er snillingur.
Stöku sinnum fór einn og einn á kamarinn.  Þar voru að sjálfsögðu raðir eins og allsstaðar annarsstaðar, en þær gengu fremur fljótt fyrir sig.  Að öðru leyti héldum við kyrru fyrir á litlu eyjunni okkur og höfðum það náðugt saman.

Tæplega tveimur tímum fyrir hlaupið kom Áslaug Ösp blaðskellandi, upptendruð og mjög stressuð.  Hún var búin að flækjast um allt svæðið í leit að bílnum sem átti að geyma dótið hennar.  Bíllinn var númer 1 og átti að vera á appelsínugula svæðinu.  Starfsfólkið var búið að vísa henni hingað og þangað um bæði blátt og grænt svæði og Áslaug var engu nær um að finna bílinn.  Við settum Áslaugar fatapoka ofan í Ásgeirs sem við gerðum ráð fyrir að yrði á svipuðum tíma og kvöddum Áslaugu aftur.  Nokkru síðar birtust svo Eyrún og Valgerður, en við þrjár vorum einu íslensku konurnar með blá númer.  Þær stöllur voru að hlaupa sitt fyrsta maraþon og settu stefnuna á 4 ½ tíma.  Þær ætluðu að vera samferða og mér fannst það gott hjá þeim og hugsaði með trega til félaga minna Elínar og Hafdísar sem hlupu með mér í Búdapest.

Svo var bara allt í einu komið að þessu.  Strákarnir kvöddu og færðu sig í sín starthólf.  Rásnúmerin sögðu til um startröðina og ég átti að vera í næstsíðasta hólfinu.  Stelpurnar skruppu á kamarinn.  Voru mun klárari í kollinum en ég.  Ég hefði átt að fara með þeim.  Ég þurfti nefnilega að pissa.  Eiginlega þarf ég alltaf að pissa fyrir hlaup.  Það byrjar svona tveimur tímum fyrir hlaup og heldur áfram að vera svoleiðis þar til nokkru eftir að hlaupið startar.  Oft fer ég svona 5 sinnum á klósettið síðustu 2 tímana fyrir hlaup.  En ekki þarna.  Það voru biðraðir, ég var hrædd um að allir yrðu bara farnir þegar ég yrði búin að pissa og svo vissi ég sem var að þessi tilfinning er aðallega stress, og að mér myndi að öllum líkindum ennþá finnast að ég þyrfti að pissa þegar ég væri búin.  Ég gerði þarna því mín fyrstu mistök í þessu hlaupi með því að sleppa því að taka síðustu sprænuna, ja fyrir utan að gleyma sólgleraugum og húfu.

Svo byrjaði röddin að glymja í hátalaranum The time is now 9:47.  Participators in the BLUE area should be moving along to the start.  Ég stillti mér upp á mínu svæði og beið.  Allir í kringum mig stóðu og biðu.  En meðfram köntunum var fólk á ferðalagi.  Strunsaði hratt meðfram röðinni og hvarf eitthvert framfyrir.  Ég fór að virða fyrir mér númerin framan á þessu fólki.  Þarna var fólk með allskonar númer, bæði fyrir framan og aftan mig.  Þá fór ég að virða fyrir mér númerin framaná fólkinu í kringum mig.  Ég var númer 30036.  Við hliðina á mér var stúlka með 39 þús. og eitthvað.  Ég leit á mitt númer og svo á hennar og svo aftur á mitt.  Hún horfði á tilburðina og brosti hringinn.  I dont think it really matters, sagði hún svo hlægjandi.  Þetta var alveg rétt.  Á þessum stað skipti þetta engu máli.  Ég leit upp og sá fyrir framan mig héra með skilti sem á stóð 5:30.  Undir það höfðu svo raðað sér mismunandi hlaupalegir hlauparar, þar á meðan Scoopy Doo og Batman.  Þeim verður heitt, hugsaði ég og horfði með hryllingi á loðfeldinn sem umlukti Scoopy Doo.

Þegar þarna var komið var runnið upp fyrir mér ljós.  Ég var á kolröngum stað.  Ég átti að vera miklu framar.  Ég stökk út í kantinn og fór að mjaka mér meðfram röðinni eins og hinir.  Ég náði að komast fram úr 5:30 skiltinu.  Ég var hratt að síga á 5:00 skiltið þegar ég heyrði skotið af stað.  Eftir það liðu að ég held einhverjar átta mínútur.  Á þeim tíma komst ég fram úr 5:00 hópnum og var farin að sjá 4:30 þegar hópurinn var farinn að hlaupa.  Should we be running yet?, sagði einhver við hliðina á mér.  Góð spurning.  Ég hafði ekki tekið eftir að við færum yfir neina mottu.  En eins og kaninn segir, I dont think it really matters.

Og svo var hlaupið
Svo kom allt í einu mottan og allt í kringum mig var mannhaf.  Brúin sást framundan og það var engin smá brú.  Það var mjög tilkomumikið að horfa yfir alla hauparaþyrpinguna svo langt sem augað eygði upp alla brekkuna og upp á brúna.  Brekkan var svona svipuð og brekkan á milli lífs og dauða.  Löng og strembin.  En þetta var alveg í startinu og maður ferskur og léttur og svo var crowdið á þannig hraða að það var alveg vonlaust að ætla sér of hratt af stað.  Brekkan reyndist því auðveldur biti.  Uppi stóðu svo kallarnir í röðum meðfram handriðunum og sprændu í kór út í Hudson fljótið.  Ohhhh hvað ég öfundaði þá.  Ég var ennþá í spreng að pissa.
Uppi á miðri brúnni dró ég svo þær Eyrúnu og Valgerði uppi og spjallaði við þær um stund áður en ég gaf í aftur.  Þær ætluðu að vera á 4:30, en ég á 3:50 og ég þurfti því að haska mér ögn betur.  Að baki var Staten Island og framundan var Brooklyn.  Við tók sikk sakk og rykk, fram úr, hægja, beygja, fram úr.  Brátt fór að hilla undir 4:00 hérann og ég ákvað að slaka aðeins á, enda þessar rykkingar ekkert sérstaklega maraþonvænar.

5 mílur var hlaupið eftir sömu götunni í Brooklyn með steikjandi sólina beint á hnakkanum.  Það var ekki ský á himni og engan skugga að sjá.  Ég kom við á hverri einustu drykkjarstöð og tók alltaf 2 glös.  Öðru reyndi ég að koma ofan í mig, hinu hellti ég yfir hausinn á mér.  Ég var komin þónokkuð inn í hlaupið þegar ég áttaði mig á því að vatnið fór allt framan í og framan á mig í stað þess að kæla hnakkann þar sem sólin hitaði sem mest.  Ég sá oft húfur sem einhverjir höfðu misst en náði aldrei að grípa neina.  Það er meira en að segja það að taka vinkilbeygju til að ná í eitthvað af götunni í svona mannmörgu hlaupi, og svo var ég svo sein að hugsa að ég var yfirleitt komin framhjá þegar hugsunin náði inn.  Nei, þarna var húfa.
Eftir svona 8 til 13 kílómetra hljóp ég fram á einn alveg afgamlan hlaupara sem hafði fengið hjartaáfall.  Hann hálfhékk uppi og hélt um handlegginn og öxlina og einhverjir stumruðu yfir honum.  Ég rétt náði að beygja frá svo ég lenti ekki á kallgreyinu og hugsaði sem svo að það væru nú til verri staðir til að deyja á en svona hlaup. 
Eftir svona 15 kílómetra gafst ég upp.  Allt þetta vatnssull, - drykkjarstöðvarnar voru ábyggilega á svona tveggja til þriggja kílómetra fresti og ég alltaf alveg að pissa á mig.  Ég beygði því útaf hjá næstu kamraröð.  Og hvað haldiði, auðvitað voru biðraðir á kamrana.  Þetta var löng röð af kömrum og það stóðu tveir til þrír og biðu við fyrstu kamrana.  Ég hljóp því lengra meðfram þeim þangað til ég sá einn lausan og skellti mér þangað inn.  Læsingin var kengbogin svo hurðin hékk varla að stöfum.  Ég þurfti ekki lengi að velta fyrir mér ástæðunni fyrir því þegar það var rifið í hurðina af þvílíku afli að ég hélt að húsið með öllu saman mundi detta á nefið.  Þetta gerðist svo með reglulegu millibili á meðan ég var þarna inni sem var eins og gefur að skilja eins stutt og hægt var að hafa það.

Ég fékk áfall þegar ég kom út í hlaupið aftur.  4:00 hérinn var að sjálfsögðu löngu horfinn og fólkið sem var að hlaupa þar sem ég var, það var ekkert sérstaklega hraðskreitt.  Ég byrjaði á að reyna að komast fram úr, en sá það fljótt að með þessu áframhaldi yrði hlaupið mitt þennan daginn töluvert lengra en 42,2 kílómetrar.  Rykkingarnar voru farnar að taka í.  Ég hægði því á mér og lét mér nægja að dóla þetta framúr einum og einum og reyndi að hafa það eins átakalítið og hægt var og njóta þess sem þarna var að sjá í staðinn.
Hlaupið í gegnum Brooklyn var alveg geðveikt skemmtilegt.  Það var hlaupið í gegnum hvert hverfið á fætur öðru þar sem fólk frá mismunandi þjóðlöndum hafði tekið sér bólfestu og litað með sinni menningu.  Þarna var arabískt hverfi og ítalskt hverfi, Spánverjahverfi, Pólverjahverfi, svertingjahverfi, gyðingahverfi, en skemmtilegast af öllu var að fara í gegnum hverfið þar sem Amish fólkið bjó.  Karlmennirnir allir klæddir svörtum síðum frökkum og svörtum sparibuxum og með krullur í skegginu og skrítna svarta hatta og börnin alvarleg í brúnum og mildum litum eins og öll börn voru í árið 1918.


Áhorfendur voru alls staðar meðfram hlaupaleiðinni, hrópandi og hvetjandi (nema Amish fólkið sem heiðraði okkur með þögulli nærveru).  Börn af öllum stærðum teygðu hendur út á hlaupabrautina til að gefa fimm.  Sumir voru með skilti með hvatningarorðum til vina og vandamanna, en allir hvöttu alla.  Þeir sem voru með nöfnin sín skrifuð á bolina sína fengu sérstaka hvatningu.  Í upphafi hlaupsins fékk ég líka hvatninguna Go Bibba en eftir því sem á leið hlaupið og vatnið og svitinn þvoðu stafina af urðu hvatningarhrópin mín snubbóttari.  Go Bib   Go Bi  og svo reif ég restina af stöfunum af.  Var að hugsa um að snúa bolnum mínum við, því aftan á stóð Iceland og þar var óskert Go Bibba, en það sá það enginn áhorfandi.  Einn og einn hlaupari sem hafði lent aftanvið eins og ég lét hinsvegar þessi orð falla um leið og þeir tættu framúr og hurfu.

Á hálfu var ég á rétt rúmum 2 tímum og var nokkuð sátt þar sem ég gat skrifað a.m.k. 4 mínútur á bévaða klósettferðina.  Þá var klukkan orðin tólf á hádegi, orðið steikjandi heitt og heitasti tíminn framundan.
Og nú rennur allt saman í minningunni.  Það var bara ægilega heitt og mér var illt í hnakkanum sem ég var þó farin að muna eftir að kæla líka.  Birtan var mikil og skerandi og hlaupaleiðin var öll í brekku.  Mikið var um lúmskan upphalla og oft sá maður orminn af hlaupandi mannhafinu langar leiðir fyrir framan sig, sem þýddi að maður var að horfa annaðhvort upp eða niður.  Brýrnar frá Brooklyn yfir á Manhattan og brýrnar yfir í Queens og til baka voru háar og erfiðar.  Brýrnar voru eini staðurinn þar sem ekki var áhorfendaskari að fylgjast með og hvetja og það var freistandi tilhugsun að labba þær úr því að enginn sá til, enda gerðu það margir.
Einhvers staðar í þessu hlaupi hætti ég að vera á meiri hraða en hinir í kringum mig og þörfin fyrir að komast framúr dvínaði til muna.  Ég hugsaði með eftirsjá til 4:00 skiltisins og þótti sýnt að ég yrði að gefa það upp á bátinn að ná því aftur.  Svo fóru hlutirnir að snúast mér í óhag.  Fleiri og fleiri voru að fara framúr mér (Go Bibba).

Á einhverri brúnni hlupu fram úr mér tvær stelpur með blinda stráka í bandi.

Þegar ég kom að Central Park (uþb 7 km. eftir) hljóp framúr mér maður sem var að tala í farsíma.  Im on the corner of 97th Street and feeling fine.  Svo hélt hann áfram að blaðra um veðrið og tíðarfarið og hvarf léttstígur inn í manngrúann fyrir framan mig. 
Fljótlega eftir þetta held ég að ég hafi misst meðvitund.  Ég tók eftir því að fólk í kringum mig var labbandi og það var að fara framúr mér.  Svo kom helvítið hann Scoopy Doo í loðfeldinum sínum, glottandi í allar áttir.  Þá voru tvær mílur eftir.  Lengstu tvær mílur sem ég hef á ævinni hlaupið.  Eftir því sem nær dró síðustu mílunni fjölgaði áhorfendunum og þegar við beygðum inn í garðinn þar sem markið átti að vera þá var orðið mjög stappað á áhorfendasvæðinu og hvatningarhrópin voru yfirþyrmandi.  Hversu mikið sem mig hefði langað til að labba þá var það bara ekki hægt.  Samt var fullt af hlaupurum labbandi þarna.  Ábyggilega 1-2 af hverjum 10.  Áhorfendur létu þá ekki í friði.  Sérstaklega ef það var nafn skrifað á bolinn þeirra.  Go, John, GO! GO! GO! GO!!!!   og  Yeeeeeaaahhhhhhhh!!!!! þegar John greyið hengslaðist af stað á einhverskonar joggi sem skilaði honum hægar áfram en gönguhraðinn.

Í Central Park voru svo brattar brekkur niður.  Það renndi stoðum undir þann grun minn að ég væri lengi búin að hlaupa í upphalla.  Brattar og laaaangar brekkur niður og á þessum stað í maraþonhlaupi er maður ekki í fíling til að hlaupa niður.  Ef út í það er farið þá er maður ekkert í fíling til að hlaupa neitt yfir höfuð, en niðurhalli er ekki að hjálpa neitt.  Sérstaklega ef hann er mikill.
Ég kom í mark á 4:37 og mér fannst eins og ég væri búin að vera 6 tíma á leiðinni.  Ég var strax sannfærð um að það væru ábyggilega allir Íslendingarnir farnir bara.

Það að koma í mark í svona stóru hlaupi er ekkert endilega endirinn.  Þarna tók við erfiðasti hluti leiðarinnar.  Það má náttúrlega ekki leyfa fólki að stoppa bara, hvað þá að setjast niður.  Ímyndið ykkur tappann sem myndi myndast á marksvæðinu.  Nei, nú tók við margra kílómetra ganga um stíga Central Park með álteppi á öxlunum.  Og nú helltist yfir mig ógleðin.  Mig langaði til að setjast á gangstéttarbrún eða halla mér upp að grindverki, en það var ekki viðlit.  Alls staðar voru starfsmenn að reka á eftir Just keep walking, folks, keep walking.  Einstaka sinnum sá ég einn og einn aumingja sitja á gangstéttarbrún og starfsmann að stumra yfir honum.  Þeir voru fyrir fólkinu sem var að reyna að keep on walking eftir stígnum.  Grindverkin voru úr mjúku efni sem lét undan ef maður hallaði sér að þeim.
Meðfram stígnum stóðu svo bílarnir með fötunum okkar.  Það fyrsta sem ég sá þegar ég kom í markið var afturendinn á bílnum hennar Áslaugar númer 1.  Þessi sem ekki fannst á biðsvæðinu.

Eftir 10 mínútna kvalafulla göngu kom ég að rifu í grindverkinu.  Hinum megin við voru nokkrir bekkir og þangað höfðu einhverjir hlauparar brotið sér leið.  Ég staulaðist þangað og lét fallast á bekkinn.  Þarna sat ég svo ábyggilega einar fimmtán mínútur og barðist við ógleðina og lét líða úr leggjunum.  Ég var komin að bíl tuttugu og eitthvað.  Minn bíll var númer 53.
Einhvernveginn tókst mér svo að rölta í bílinn og svo áfram inn á græna fjölskyldusvæðið þar sem Íslendingarnir höfðu ákveðið að hittast.  Á stígnum að því svæði stóð allt fast og þar kvartaði vörður undan því að hér væru bláir að smygla sér inn á græna svæðið og því gengi þetta svona.  Ég vafði álteppinu fastar að mér og vonaði að það liði ekki yfir mig svo ég yrði ekki flutt á bláa fjölskyldusvæðið þar sem enginn var.  Það var líka miklu lengra í burtu.

Fjölskyldusvæðið var hólfað niður í stafrófsröð og ég fann íslenska fánann undir I.  Ja, eiginlega var ég ekki búin að finna neinn, hvorki fánann né Íslendingana þegar þau kölluðu á mig og þá var ég á góðri leið með að ráfa framhjá þeim.
Það var ekkert smá gott að sjá Kristján sem hefur tekið á móti mér í nánast öllum hlaupum til þessa með hressilegu fasi og gamanyrðum á vör.  Það fylgdi því einhver svona heimakær öryggiskennd.
Nú var sko gott að hvíla sig.  Ég hafði ekki lyst á neinu, en náði þó að troða í mig banana og einhverjum vökva.  Og klæða mig með dyggri hjálp Ásgeirs.  Svo var sest á vegg og notið þess að hvíla lúin bein og fá fréttirnar af gengi félaganna.  Eyrún og Valgerður höfðu einhversstaðar skotist framúr mér og komu í mark á 4:28.  Hefði betur verið bara samferða þeim.
Eftir klukkutíma setu á veggnum fóru að renna á okkur tvær grímur.  Við höfðum engan tíma haft til að kynna okkur lestarkerfið og vorum ekki með lestarkort og lítinn pening.  Leigubíl var hvergi að fá, enda um 100 þúsund manns á svæðinu, hlauparar og fylgdarlið.  Það var því ekki um annað að ræða en að labba bara af stað í átt að hótelinu og freista gæfunnar með að ná í leigubíl á leiðinni. 
Það voru ca. 5 kílómetrar niður á hótel og við fengum sko engan leigubíl, en við Ásgeir stungum okkur inn á Hard Rock Café og fengum okkur ekta ameríska nautasteik á leiðinni og það var ein sú albesta steik sem ég hef á ævinni bragðað.

Good morning Amerika
Nei, þetta er ekki búið.  Nei, ónei.  Eftir að hafa skrölt niður á hótel eftir maraþonið og reynt að komast ofan í minibaðið sem var lítið stærra en þvottabali og alls ekki dýpra, þá skreið maður bara undir sinn hluta af ameríska hótel lakinu og féll í dá til morguns. 
SVO var vaknað upp úr 6 því að klukkan 7 fór Sight seeing bus frá hótelinu okkar með þá Íslendinga sem vildu vera með í því að mæta í Good Morning Amerika, morgunþátt í beinni útsendingu.
Það má segja henni Matthildi ferðarskipuleggjanda til framdráttar að hún hvatti okkur ekki til að fara þetta.  Það var algerlega okkar eigin ákvörðun, hvers og eins að fara í þennan þátt, að hluta vegna þess að okkur var boðið, að hluta fyrir forvitnissakir, að hluta til að taka þátt í óvenjulegri upplifun, en þó ekki síst vegna þess að við vorum fulltrúar Íslands á erlendri grund.  Við vorum þó næstum því öll þarna og enn og aftur var farið í rauðu bolina, og nú bætti Matthildur um betur og dreifði íslenskum fánum.
Við vissum ekkert hvað við vorum að fara að gera, höfðum held ég ekkert okkar séð þennan þátt einu sinni.  Höfðum þær upplýsingar einar að Ameríkanar sjálfir mundu sumir gefa af sér handlegginn til að fá að fara þetta, en það er nú bara í stíl við annað sem sagt er um Kana.

Nú, það sem kom okkur aðallega í opna skjöldu var það að þátturinn var tekinn upp úti.  Eftir steikjandi hitann daginn áður var enginn almennilega klæddur og enginn klæddur til að standa úti á stétt og ofan í kaupið var svo skítkalt, - líklega ekki nema 2 stiga hiti.
Eftir að hafa staðið í röð til að fá kaffi og kleinuhring þar sem birgðir kláruðust áður en allir höfðu fengið var okkur stillt upp í hálfan hálfhring framan við myndavélarnar úti á torgi og farið yfir hvernig við ættum að haga okkur.  Hinu megin í hálfhringnum stóðu hlauparar frá Luxemburg. 
Að baki þáttastjórnandanum stóð kona með skilti sem sagði til um það hvenær við ættum að brosa og hvernig og hvenær við ættum að upphefja fagnaðarlæti (go crasy).  Ég missti að mestu af þessum leiðbeiningum, enda var ég aftarlega í hópnum og treysti á að þeir sem stóðu fremst mundu sjá um þetta.
Svo hófst útsendingin og fram geystist glaðbeittur þáttastjórnandi sem brosti hringinn og var vinur allra og talaði við alla.  Svo komu auglýsingar og brosið þurrkaðist af manninum sem stóð þarna og hryllti sig í morgunnepjunni og utanum hann stóðu uþb 100 krókloppnir hlauparar, helmingurinn í eldrauðum stuttermabolum utanyfir bosmamiklum jökkum, veifandi íslenska fánanum, talandi hver við annan um hvað við værum hálfvitaleg.  Og það vorum við.

Verst fannst okkur samt hvað þáttastjórnandinn virtist miklu hrifnari af Luxemburgurunum en okkur.  Þeir voru nefnilega með einhverjar sextugar kellingar sem höfðu hlaupið maraþonið sem virtust höfða sérlega sterkt til hans.  Íslandskynningin var því á góðri leið með að renna út í sandinn þegar þarna birtust nokkrir tugir bandarískra skólabarna sem áttu líka að taka þátt í showinu.  Einhverjum datt það snjallræði að gefa krökkunum fánann sinn og hver af öðrum réttum við fánana okkar yfir til krakkanna, hundfegin að losna við þetta hallærislega flagg, enda fíluðum við okkur eins og vitleysinga veifandi þessu eins og kornabarn hringlunni sinni.  Ohhh it was SO cute when you gave all your flags to the children, vældi leiðsögumaðurinn í rútunni á leiðinni á hótelið.  Þetta fannst þáttastjórnendunum líka og það var tekin löng mynd af krökkunum veifandi íslenska fánunum fyrir alla Ameríku.

Restin
Daginn eftir hlaupið röltum við Ásgeir í stuttan göngutúr og ætluðum hvorki langt né víða.  Við sáum í neðri hluta byggingar með stillönsum allan hringinn og á þeim héngu bíóauglýsingar og ákváðum að kíkja í bíó.  Inni komumst við svo að því að við vorum ekki í bíóhúsi heldur í Emire State.  Úr því að við vorum nú stödd þarna ákváðum við að kíkja upp.  Stóðum í langri röð til að fá miða og komumst að lokum í lyftuna.  Mælirinn í lyftunni í Empire State telur 10 20 30 hún fer svo hratt.  Alveg upp í 80.  Þar stoppar hún.  Og þá eru 6 hæðir eftir.  Seinna frétti ég reyndar að hægt væri að finna aðra lyftu, en það vissum við ekki þá.  Við þrömmuðum því allar 6 hæðirnar upp og niður stiga með flissandi Ameríkana á eftir okkur.  Göngulagið var víst ekkert þokkafullt.

Næstu daga komumst við að því að Könum finnst sjálfsagt að hafa medalíurnar sínar um hálsinn daginn eftir.  Þeim finnst sjálfsagt að vera upp með sér af afrekinu og taka heilshugar þátt í gleðinni með þeim sem sigruðust á NY maraþon.  Um leið og þeir sjá einhvern með verðlaunapeninginn um hálsinn eða í maraþonbolnum þá koma þeir áhugasamir til að spyrja um hlaupið og óska manni til hamingju.  Mér líkar VEL við Kana.

Ég gæti skrifað sautján síður í viðbót um upplifanirnar í Amríku.  Um uppskeruhátíðina okkar sem haldin var í dýrustu og fínustu byggingunni á Manhattan þar sem hádegisverður á efri hæðum kostar 300 dollara, - um kvöldverðinn okkar í Djassklúbbnum þar sem ekki mátti dúka borðin afþví að í djassklúbb eiga að vera svört borð og ekki mátti tala saman því það var verið að spila svo fínan djass.  Um allar ræðurnar sem einhverjir ókunnugir kallar héldu á uppskeruhátíðinni okkar um það hvað það hefði verið mikil vinna að fá leyfi fyrir okkur að vera þarna og hvað við ættum að vera þakklát fyrir það.  Um kvöldverðinn sjálfan, eldaðan af Sigga Hall við annan (amerískan) kokk, þar sem aðalrétturinn var kjúklingur með kartöflumús og ekki hægt að fá neitt merkilegra óáfengt að drekka með en kók og spræt.  Um eftirréttahlaðborðið sem reyndist vera kokteill í boði menntamálaráðuneytisins.   Um þetta ætla ég nú samt ekki að hafa fleiri orð og það eru tvær ástæður fyrir því.  Sú fyrsta að ef þau yrðu fleiri orðin um þetta þá yrðu síðurnar sautján og hin er sú að mér finnst Matthildur hafa staðið sig frábærlega vel við undirbúning þessarrar ferðar.  Hún gat ekkert vitað að það væri ekki hægt að treysta svona fínum mönnum með fín orð um hversu flott þetta væri allt saman.  Ekki frekar en við.

Ég ætla hinsvegar að hafa nokkur orð um frábæran hóp af skemmtilegu og hressu fólki sem ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast, um morgunskokk í yndislegum félagsskap Áslaugar og Þóru í Central Park, um frábært show á Brodway og enn og aftur um skipulegan og skotheldan undirbúning Matthildar.   Takk fyrir frábæra ferð og frábæran félagsskap.