Lífið er gott! - en hefur ekki alltaf verið það - Seinni hluti: HSS

birt 28. mars 2005

Seinni hluti - Batinn og hlaupin.

Þegar ég kom út í lífið var ég dauðhræddur við allt og alla. Sjálfsmynd mín var í molum. Ég gerði mér grein fyrir að nú tæki við langt bataferli sem þyrfti að sinna mjög mikið og markvisst. Til þess hafði ég hóp góðra vina og kunningja – og félagsskap engum öðrum líkur, heil samtök og sporin 12 sem ég steig markvisst og ítarlega. Ég hafði fengið fúsleikann og viljan. Vonin hélt mér gangandi þegar ég átti ekki eina einustu krónu og afborganir fortíðarinnar bönkuðu uppá. Skuldum vafinn óð ég út í samfélagið í leit að nýju lífi og þar sem ég hafði fengist við kennslu áður sem virtist eiga mjög vel við mig ákvað ég að hringja í nokkra skóla og spyrja hvort ekki vantaði forfallakennara. Viti menn, innan tveggja sólarhringa frá því ég kom úr meðferð, var ég kominn með vinnu sem afleysingakennari í Ölduselsskóla í Breiðholti þar sem ég fékk síðan að þroskast og læra í rúma tvo vetur. Frábæru fólkinu þar á ég mikið að þakka og ekki síst Daníel Gunnarssyni, Sigríði Heiðu Bragadóttur og Valdimar Helgasyni ásamt fleirum þar, ekki síst nemendunum sem gáfu mér ómælda gleði og ánægju. Eftir fyrsta veturinn í Ölduselsskóla skráði ég mig í Kennaraháskólann þar sem ég er nú rúmlega hálfnaður með námið í fjarnámi. En eftir fyrsta veturinn í Ölduseli var ég líka orðinn 114 kg, rauður og þrútinn, sveittur og þreyttur. Mér leið illa. Þrátt fyrir góðan andlegan bata hafði mér hrakað líkamlega og þyngst enn meira. Sykurinn hafði komið í stað lyfja virtist vera og ég var étandi mikla óhollustu á versta tíma dagsins, á kvöldin.

Þann 16. ágúst 2002 fékk ég aftur nóg, náði botninum á ný og stoppaði! Ég tók mig til og fór út að hlaupa. Þrátt fyrir að einn læknir hafði sagt að ég myndi aldrei spila handbolta á ný né hlaupa, þá silaðist ég nú um götur Seljahverfisins, móður og másandi, löturhægt stuttar vegalengdir. En eitthvað gerðist. Líkaminn tók við sér og með breyttu og bættu mataræði náði ég að festa inn í daglega rútínu mína, hlaupaáætlun, þökk sé Jóhanni Inga Gunnarssyni sálfræðingi, sem kom uppí Ölduselsskóla og hélt þar fyrirlestur sem fjallaði m.a. um markmið og markmiðasetningu, hvernig maður ætti að setja sér skrifleg markmið. Sem og ég gerði. Ég fór að ráðum Jóhanns Inga og með öllum mínum vilja og fúsleika, hugsuninni um viðbjóðinn sem ég hafði fengið á sjálfum mér, hljóp ég dag eftir dag, í hvernig veðri sem var. Svo jók ég þetta jafnt og þétt og áður en langt um leið var ég búinn að missa 10 kg og farinn að hlaupa 5x í viku. Áður en 3 mánuðir voru liðnir var ég búinn að missa 15 kg og þurfti hvað eftir annað að skerpa á markmiðunum því ég náði öllu svo fljótt.

Lífið varð yndislegt og hversdagurinn dásamlegur. Ég var ástfanginn af lífinu. Ég kom öllum málum uppá borð og í farveg. Samdi um skuldir og mætti hverjum og einum sem ég hafði sært, móðgað eða skaðað og gerði hreint. Ég skoðaði sjálfan mig – í gegnum aðra, gerði mér grein fyrir brestum mínum og tók á þeim. Eigingirni, sjálfselska, tillitsleysi, tilætlunarsemi, ótti, gremja o.s.frv. eru undirrót allra vandamála minna og án þess að vera meðvitaður um þessa bresti og hvernig taka skuli á þeim, er ég ekki í góðum bata.

Gamlárshlaup ÍR 31. des. 2002 var mitt fyrsta ,,medalíuhlaup" og ég lauk því á um 57 mínútum sem var þá minn langbesti tími á 10 km. Svo tók ég þátt í eins mörgum hlaupum og ég mögulega gat komist í og áður en langt um leið hljóp ég 10 kílómetrana á 45 mínútum, en það var haustið 2003 í ,,Hlaupið undan vindi" á Selfossi. Ég hljóp heilt maraþon nákvæmlega ári eftir að ég byrjaði að hlaupa, 17. ágúst 2003 og þá hafði ég náð af mér 35 kílóum. Ég hljóp maraþonið á 4 klst og 17 mín. sem ég er bara mjög sáttur við. Ég stefndi bara á að ljúka hlaupinu. Í Akraneshlaupinu 31. maí 2003 hljóp ég hálf-maraþonið á 1 klst og 45 mín. Næst stefni ég á að fara maraþonið undir 4 klst. og hlakka til sumarsins.

Ég reyni að hlaupa ekki undir 10 km í hvert skipti og 5x í viku. Ég hljóp einn af mér kílóin í Reykjavík og kynntist borginni alveg uppá nýtt í gegnum hlaupin. En nú er ég fluttur að Ljósafossi í Grímsnesi þar sem ég er að kenna og á dásamlega konu sem ég elska eins og lífið sjálft, - sem er nú ekkert lítið! Um daginn hitti ég nokkra hressa pjakka á Selfossi sem hlaupa saman 2x í viku og kalla sig ,,Frískir Flóamenn". Þeir buðu mér að slást í hópinn sem og ég gerði – og sé ekki eftir. Það er alveg meiriháttar gott að hlaupa með öðrum og ég vildi bara að ég hefði áttað mig fyrr á því.

Mataræðið er og hefur verið, lykilatriði ásamt hlaupunum. Ég byrjaði á því að hætta bara að borða nammi. Allt sem flokkast undir ,,nammi" fór út. Þá byrjaði ég að stelast í ísinn og sá að fljótlega varð hann að fara líka. Svo hætti ég strax að borða á kvöldin og setti mér það markmið að borða ekki eftir kl. 8 á kvöldin. Svo gafst ég fljótlega upp á því að borða oft á dag og lítið, þar sem ég seldi mér alls kyns ullabjakk í þessum ,,litlu" máltíðum. Ég ákvað að borða bara þrisvar á dag og vel í hvert skipti. Byrjaði að borða morgunmat og þá helst hafragraut með léttmjólk og gervisykri, sem ég tel mun betri en alvöru sykur, þótt óhollur sé. Svo fór ég að borða létt-súrmjólk með gervisykri og miklu múslí. Þetta borða ég enn nánast einu sinni á dag. Svo borða ég bara hvað sem er í matinn en forðast sætindi.
Á þessum tíma hef ég gert fullt af mistökum. Ég hef troðið í mig sælgæti og ,,fallið" óendanlega oft á því að sneiða fram hjá sykri. En málið er að ég gefst ekki upp. Það er ekki allt ónýtt þó ég fái mér ís með öllu eða nammi í bíó. Ég bara held áfram. Tek á því næsta dag og reyni þá að sleppa sykrinum og óhollustunni.

Nú er að byrja, eins og þeir segja, ,,Pig-Season", hjá okkur hlaupurum. Dagurinn lengist, það hlýnar í veðri og sólin vill vera memm. Það er frábært.

Lífið heldur áfram að vera gott. Einn dag í einu.

Ykkar einlægur á trúnó, Hallgrímur Sveinn Sævarsson.