Litið til baka á árið 2004: NH

birt 28. mars 2005

Þá er árið 2004 liðið. Þetta hefur verið mikið hlaupaár hjá mér, það er að minnsta kosti hægt að halda því fram þegar aðeins eru tæp þrjú ár síðan ég stóð upp og hóf að hlaupa eftir að hafa verið antisportisti alla tíð.

2004 voru hlaupin nokkur 10 km hlaup, tvö hálfmaraþon, tvö maraþon, Laugavegurinn og 40 km hlaup á fertugsafmælinu mínu. Hljóp með Jóni Frantzsyni mínum ágæta hlaupafélaga. Það hlaup markaði upphaf hlaupaársins hjá mér. Úr því voru allar hlaupaæfingar miðaðar við löngu hlaupin.

½ maraþon var hlaupið í sveitaþoninu á 1:37. Næsta hlaup var á Mývatni, fyrsta maraþonið. Á Mývatni var einstakt veður til að hlaupa. Hæfilega heitt og smá gjóla til að hressa og umhverfið er einstakt. 03:44:50 var tíminn. Þetta var góð upplifun, að ná að hlaupa heilt maraþon og líða vel allt hlaupið, orðin smá þreyttur í hnjám síðustu fimm kílómetrana en það hvarf fljótlega eftir að komið var í mark. Frábær stuðningur frá Selfyssingum á leiðinni og fylgd Birgis Kristjánssonar síðustu kílómetrana var ómetanleg
Ég hljóp síðan hálft maraþon daginn eftir með konunni minni. Hennar fyrsta hálfa. Þá fór þreytan verulega að segja til sín á síðustu kílómetrunum en þetta hafðist með góðum hlaupafélaga. 01:58:05 var endatíminn. Mæli ekki með heilu og hálfu maraþoni á sama sólarhringnum.

Þá fór næsti mánuður í lokaundirbúning, andlega og líkamlega fyrir Laugaveginn. Vaknað eldsnemma þann 17. júlí og haldið í rútu í Landmannalaugar. Eftir nokkra bið var haldið á Hrafntinnuskerið. Lagði upp í góðum hópi sem sá reyndi Laugavegshlaupari Þórður Sigurvinsson leiddi upp skerið. Hann gaf okkur góð ráð sem komu sér vel. “Ekki hlaupa upp brekkurnar. Ganga”. Síðan lét nýgræðingurinn sig vaða of hratt niður Jökultungurnar, helst til hratt, en áfram var haldið. Í Álftavatni var vel tekið á móti sem og á öllum drykkjarstöðvum hlaupsins. Starfsmenn þakka ykkur fyrir frábæra þjónustu.

Fékk góðan stuðning yfir Bláfjallakvíslina. Sandarnir voru nokkuð strangir og tóku orðið í. Í Emstrum var hvatning og góð orð til að þreytan gleymdist um stund. Eftir Emstrurnar tók við lengsti og erfiðasti hluti leiðarinnar. Eflaust vegna þreytu.

Þegar Húsadalurinn nálgaðist voru sífellt fleiri við leiðina til að hvetja og gefa okkur hressingu. Takk fyrir öll sömul. Áður en haldið var á Kápuna var drykkjarstöð og síðan barist upp Kápuna, smá skjálfti sem fór sem betur fer fljótt. Fylgdi Þórði niður Kápuna og stikaði síðan í humátt á eftir honum í átt að Þröngá. Þegar yfir hana var komið var bara að koma sér í mark. Hitti konuna mína rétt eftir Þröngá. Hún fylgdi mér í markið. Úff hvað það var gott að hitta hana og komast alla leið 6:30:10 var tíminn. Montinn? Jú og ánægður með að sigra Laugaveginn.

Eftir Laugaveginn var aðeins slakað á en síðan stefnt á Reykjavíkurmaraþon, heilt þon.
Lagt upp og farið út á svipuðu tempói og á Mývatni, heldur hraðar í upphafi en fljótlega hægt niður í það sem ég fann að ég ætti að vera á. Súper veður og hiti gerði hlaupið erfiðara en á Mývatni og síðan var eflaust komin þreyta eftir fyrri hlaup sumarsins, bæði líkamleg og andleg. Hugsaði þegar ég kom að 21 kílómetrs keilunni “nú væri gott að vera að koma í mark”. Kláraði hlaupið á 03:46:28, frábær stemmning í bænum og gott að hitta hlaupafélaga frá Selfossi í markinu.

Síðasta keppnishlaup ársins var á heimavelli, Brúarhlaupið. Ákvað að taka 10 km. Hélt að ég væri búinn að missa niður hraða eftir öll löngu hlaupin, fannst það eftir Námsflokka og Heilsuhlaupið. En Brúarhlaupið varð "surprise" ársins. Þeyttist út með Magnúsi Jóhannssyni og hljóp með honum. Hélt mér á jöfnum hraða allt hlaupið og kom í mark á 43:32.Bæting um 1:10 mínútur frá besta tíma fram að því. Fyrsti tími minn í 10 km var 55:59 í Flóahlaupi UMF Samhygðar 6. apríl 2002. Það var mitt fyrsta keppnishlaup. Síðan er þetta orðin ástríða, áhugamál og lífstíll, skemmtileg og gefandi della.

Njörður Helgason.