Óshlíðarhlaup 2004 - Skúli S. Ólafsson

birt 06. júlí 2004

Óshlíðin að baki
Síðastliðinn laugardag var liðið ár frá því ég fyrst hljóð hálfmaraþon. Það var í Óshlíðarhlaupinu. Síðan þá hef ég verið á stöðugum hlaupum og smám saman dregist inn í þessa hlaupamenningu með öllu því sem henni fylgir. Raunar er það með ólíkindum hvað græjur þurfa alltaf að tengjast dellum. Hlaupadellan er þar í engu undanskilin þótt hún ætti ekki eðli málsins samkvæmt að vera þurftafrek. Það eina sem þarf eru góðir hlaupaskór.

Hlaupamenning
Engu að síður er alls kyns fínerí í boði sem ertir miðtaugakerfið, veldur óþreyju og áður en varir eru menn búnir að sanka að sér ýmsum nauðsynjum. Í fyrra er ég mætti í hlaupið var ég vissulega vel skóaður en að öðru leyti var þetta bara gamli íþróttagallinn. Núna var ég kominn í s.k. dry-fit bol, storm-dry buxur, með s.k. buff á höfðinu, polarúr um úlnliðinn, drykkjarbelti um mittið og í því var ómengað blávatn, blandaðir orkudrykkir, og það furðulegasta af þessu öllu tveir pakkar af orkuhlaupi, dísætu og vemmilegu. Enn á ég eftir að eignast km. mæli sambland af armbandsúri, púlsmæli og gps tæki.

Í fyrra hljóp ég þennan 21 km. á 2:04, það gerir rétt rúmlega 10 km. meðalhraða eða tæpar sex mín. fyrir hvern km. Í ár setti ég mér það markmið að fara þetta á 1:45, sem er þá 12 km. meðalhraði eða 5 mín. á km. Ég hafði ekki áður hlaupið þessa vegarlengd á þessum hraða en hef hins vegar farið hana nánast vikulega frá því í vor, bara á rólegum hraða.

Hvatningargarg í byrjun
Því fylgir talsverð stemmning að taka þátt í svona langhlaupi. Í þessu tilviki fer hópurinn með rútu til Bolungarvíkur og þar hita menn sig upp. Flestir skokka rólega nokkra hringi á svæðinu, menn teygja sig og segja í óspurðum fréttum frá ökklameiðslum, bakverkjum og stirðum liðböndum. Loks raða menn sér upp við rásmarkið, merkið er gefið, þumlar þrýsta á skeiðklukkur og svo er rokið af stað.

Upphaf Óshlíðarhlaups er hlaupið nokkuð greitt. Ástæðan er sú að leiðin liggur í gegnum kríuvarp og hljómar því hvatningargarg yfir höfðum hlauparanna sem virkar vel. Aðeins voru því liðnar 9 mínútur þegar ég var búinn með fyrstu tvo km. Eftir það reyndi ég að halda mér á áður ákveðnum hraða 5 mínútur á km. Það gekk vonum framar. Skrokkurinn var vel haldinn, ég hafði hvílt mig síðustu tvo daga fyrir keppni og kláraði ég fyrstu fimm km. á 23 mín. Leiðin er náttúrulega íðilfögur, á hægri hönd eru klettar og þar sitja fýlar og ritur á hreiðrum. Á vinstri hönd er svo sjórinn sem gefur frískandi ilm og þar fyrir handan blasir við Riturinn, Jökulfirðir og Snæfjallaströndin. Leiðin er ekki erfið, brekkur eru hvorki krappar né margar en ökumenn hefðu sumir mátt sýna meiri tillitssemi.

Haldið jöfnum hraða
Þótt púlsmælir sé ekki forsenda þess að menn geti fært annan fótinn fram fyrir hinn getur hann þó verið mikið þarfaþing þegar hlaupin slík vegalengd sem hér um ræðir. Ég setti mér þá reglu að fara ekki mikið yfir 180 slög á mínútu og hélt ég því í við mig þegar samferðamenn tóku skyndilega að auka hraðann. Mér datt til dæmis ekki í hug að fara að hanga aftan í Massa enda hef ég haft bakhlutann á honum fyrir augunum nógu oft og lengi á síðustu vikum og mánuðum. Mælirinn segir til um það undir eins og álagið er farið að aukast. Ef þessa er ekki gætt vilja mælikvarðar brenglast og mönnum hættir til að reyna að halda í við þrautþjálfaða langhlaupara og klára því orkubirgðir áður en hlaupið er á enda.

Þegar komið var að Hnífsdal voru 10 km. að baki og tíminn minn 46 mín. Þá tók ég úr beltinu fyrri pakkann af orkuhlaupinu, reif upp umbúðirnar og svolgraði jukkið í mig. Þetta er ægilegur óþverri en þarna var drykkjarstöð í sjónmáli og greip ég þar vatnsglas til að skola honum niður. Orkuhlaup þetta er til þess ætlað að gefa líkamanum ærlegan skammt kolvetna svo að menn fái nú trukk fyrir seinni hlutann. Ætli plasíbó áhrif hafi ekki líka sitt að segja? Undirmeðvitundin trúir ekki öðru en að jafn bragðvond blanda geri gagn!

Þarna sigldi fram úr mér kona nokkur, Ásdís Kristjánsdóttir, vel studd af bónda og tveimur börnum sem stóðu við veginn. Það var þó allur áhorfendaskarinn í Hnífsdal, enda lítið fyrir augað í jafn fámennu hlaupi sem þessu. Ég minntist þess ekki að hafa séð til hennar er hópurinn var þéttari svo hún hefur greinilega tekið fyrri hlutann rólega en gefið hressilega í þegar seinni hlutinn var hafinn. Hver hefur sinn stíl.

Mótvindur í lokin
Þegar komið var að Ísafjarðarkirkju voru 15 km. að baki og enn var ég undir tilsettum tíma. Ég átti þá eftir einn pakka af orkuhlaupi sem ég hugðist innbyrða er komið væri inn í Fjörð og lokaspretturinn væri framundan. Enn var ég þó að þvælast með tvo brúsa af vatni samtals hálfan lítra, eða hálft kíló. Ég sá að þetta var hreinn óþarfi því nægar birgðir höfðu verið á drykkjarstöðvum svo ég tæmdi þá á stéttina og reyndar hluta yfir höfuðið á mér í leiðinni.

Nú tók við sá hluti leiðarinnar sem mörgum þykir hvað erfiðastur. Leiðin liggur eftir Skutulsfjarðarbrautinni inn í Fjörð þar sem snúið er við og sama leið er hlaupin til baka. Þar mætast hlauparar úr 10 km. hlaupi og hálfmaraþoni og kasta menn kveðju hver á annan og hvetja áfram. Veðrið á leiðinni hafði verið ágætt. Vissulega komu vindhviður úr ýmsum áttum eins og gengur en þær þurrka bara á manni svitann og hressa við á hlaupunum. Nú fann ég hins vegar ískyggilega mikinn meðvind sem var allt annað en notalegt því ég átti eftir að hlaupa sömu leið til baka.

Þegar síðasta drykkjarstöðin var í sjónmáli píndi ég seinni hlaup-skammtinum upp í mig og greikkaði um leið sporið eftir vatnsglasi. En því miður reyndist ekkert ómengað vatn á þeim stað aðeins orkudrykkur, helblár eins og frostlögur og með hressilegum skammti að þrúgusykri eins og gefur að skilja. Vatnið í brúsunum hefði þarna loks komið að notum. Ég var því með sykurgrettuna á andlitinu þá þrjá km. sem eftir lifðu af hlaupinu.

Mótvindurinn lét nú til sín taka. Hraustlegar hviður komu víða á leiðinni sem hægðu rækilega á manni. En nú var þetta senn á enda og engin ástæða til að spara kraftana. Síðustu km. gaf ég allt í en það dugði þó ekki til annars en að halda þeim hraða sem ég hafði verið með fram að þessu. Ég var reyndar hættur að líta á skeiðklukkuna og púlsmælinn enda höfðu þeir mælikvarðar ekkert gildi lengur. Nú var bara að keyra áfram eins og druslan dregur.

Að lokum
Það var því góð tilfinning að koma yfir marklínuna og sjá að tíminn var 1:44:03 eða tæpri mínútu undir settu marki. Til að kóróna þetta fékk ég þriðju verðlaun í mínum aldurs- og kynjaflokki. Við vorum reyndar ekki nema sautján sem þreyttum þetta hlaup og verðlaun voru veitt í þremur aldursflokkum bæði í karla- og kvennaflokki! Það gefur því auga leið að hlaup eins og þetta hentar vel fyrir þá sem hungrar eftir medalíu.

Já, en mikið skelfingar ósköp var þetta skemmtilegt og frábært framtak að Óshlíðarhlaupið skuli vera búið að festa sér sess meðal langhlaupa á Íslandi. Þetta er í tólfta skiptið sem hlaupið fer fram og þótt þátttakan hefði mátt vera betri eru sóknarfæri framundan. Þeim fjölgar stöðugt sem hlaupa að jafnaði og sífellt fleiri sækjast eftir því að taka þátt í hlaupum utan heimahaganna. Á Norðausturlandi hafa menn t.a.m. markaðssett Mývatnsmaraþonið með frábærum árangri og árlega mætir þangað fjöldi útlendinga auk innlendra hlaupara.

Hvernig væri nú að menn settust niður með góðum fyrirvara fyrir Óshlíðarhlaupið 2005 tækju saman skemmtilegan útivistarpakka með kajakferðum, skoðunarferðum, göngum og hjólreiðum í tengslum við sjálft hlaupið? Mörgum þykir leiðin löng vestur fyrir ekki lengra hlaup en slíkur pakki myndi örugglega freista margra hlaupahópa á landinu og hvetja þá til vesturfarar sem gæti um leið orðið skemmtiferð. Einnig mætti koma á samvinnu Mývatnsmaraþonið og ganga inn í það kynningarstarf sem þar fer fram á erlendri grundu. Þar með gætu erlendir hlauparar þreytt heilmaraþon við Mývatn og svo hálfmaraþon á Óshlíðinni.

Eins og segir hér í upphafi fylgir þessum hlaupum merkileg menning og stundum talsverð útgjöld. Fólk græjar sig upp og hagar frítímanum að einhverju leyti með tilliti til þessa áhugamáls. Hver veit nema að þarna sé komið enn eitt tækifærið í ferðamennsku á Vestfjörðum?