Parísarmaraþon 2005 - Sjöfn Kjartansdóttir og Guðmundur Kristinsson

birt 11. maí 2005

Í svartasta skammdeginu getur verið ágætt að setja sér háleit markmið sem halda manni uppteknum fram á vor. Það reyndum við í vetur með góðum árangri. Viku fyrir jól ákváðum við að stefna að því að hlaupa okkar fyrsta maraþon í París, þann 10. apríl 2005. Bæði höfum við lagt stund á hlaup í nokkur ár og stundum sagt til gamans að við ætluðum að hlaupa maraþon þegar við yrðum fertug. Það var því ekki seinna vænna að fara að standa við þá fyrirætlan.

Það gekk reyndar ekki þrautalaust að skrá sig.  Í hlaupinu er hámarksfjöldi 35.000, og milli jóla og nýárs var ljóst að Fransmenn voru óðum að skrá sig samkvæmt tölum á heimasíðu hlaupsins: www.parismarathon.com. Netskráningin virkaði hinsvegar alls ekki lengi vel en þegar fjöldi skráðra var kominn vel yfir 34.000 hrökk netskráningin í lag.  Daginn eftir var hámarksfjöldanum náð og búið að loka fyrir skráningar.

Frakkar leggja metnað sinn í að jafnmargir hlauparar séu á lífi fyrir og eftir hlaupið. Til að mega hlaupa í maraþoni í Frakklandi þarf því að skila inn yfirlýsingu frá lækni um heilsufar sitt.  Þetta útveguðum við okkur og sendum í pósti til Frakklands.  En þrátt fyrir að vera með vottorð í vasanum frá lækni uppá að við værum fullfær um að hlaupa maraþon er því ekki að leyna að þegar styttast tók í hlaupið vorum við að verða sammála lækninum sem hafði alveg neitað að votta að geðheilsa okkar væri í lagi þó að hann sættist á að votta líkamlegt heilbrigði.

Við æfðum samkvæmt 18 vikna æfingaprógrammi, sem voru upphaflega fengin hjá www.halhigdon.com, en síðan aðlöguð að aðstæðum hvors um sig. Það er ljóst að hver og einn verður að finna prógramm sem hentar bæði lífsmynstri og getu, félagslífi og fjölskyldu. Það er líka vert að hafa í huga að fjöldi km á viku segir ekki alla söguna, því bæði hvíld og mataræði hafa mikil áhrif á uppbygginguna sem verður á æfingatímanum. En það er nauðsynlegt að æfa fyrir maraþon, annars verður engin ánægja af hlaupinu. Væntanlega gerir þetta ekki nokkur maður nema sér til ánægju og yndisauka!! Það er líka ákaflega gefandi að setja sér háleit markmið, vinna að þeim og ná þeim. Raunhæf markmið og góð æfingaáætlun skila manni örugglega að maraþonmarkinu.
Við komum til Parísar á föstudegi, 2 dögum fyrir hlaupið.  Á flugvellinum hittum við Brynju og Sigrúnu, sem einnig voru skráðar í hlaupið og gáfu okkur góð ráð enda reyndari en við í maraþonhlaupum.
Hótelið okkar reyndist mjög nálægt Champs Elysee, aðeins u.þ.b. 5 mínútna gang frá rásmarkinu. Þrátt fyrir ótalmarga staði sem okkur langaði til að skoða í borginni sátum við á okkur og fórum aðeins í stutta göngutúra um næsta umhverfi hótelsins, þar sem var reyndar margt að sjá.  Í næstu götu við hótelið rákumst við til dæmis á stórkostlega sælkera -og súkkulaðiverslun sem heitir Dalloyau.  Við stóðumst að mestu freistingarnar fyrir hlaup enda komumst við að því að á sunnudagskvöldum (eftir maraþon a.m.k.) er búðin opin til kl. 9.

Við vorum mátulega stressuð fyrir hlaupið, eins og vera ber. Undirbúningur hafði gengið ágætlega, löngu hlaupin gengið vel en bæði veikindi og ferðalög sett strik í reikninginn. Þrátt fyrir það  þá var Sjöfn örugglega komin í sitt besta form á ævinni. 
Síðustu dagana var reynt var að gera allt eftir bókinni, hvílast vel (enginn veit meira en við um brúðkaup Karls og Camillu eftir sjónvarpsglápið á laugardeginum), ferðast með hlaupadótið í handfarangri, úða í sig kolvetnum (pasta, brauð, gatorade) o.s.frv. Hvorugt okkar fór þó í neitt sérstakt carbo-load prógramm, borðuðum einfaldlega kolvetnaríkan mat.  Var maður að gera allt rétt ?
Eitt atriði sem gott er að hafa í huga nóttina fyrir maraþonhlaup, (og er ekki minnst á í neinum maraþon-bókum)  er að geyma ekki hlaupaskóna undir borði þar sem rauðvínsflaska stendur opin. Það getur verið varasamt t.d ef sími er á sama borði og byrjar að hringja um hánótt.  Jafnvel þó það sé vel við hæfi í Frakklandi að hlaupa í skóm bleyttum í rauðvíni!

Það sem er einstakt við Parísarmaraþonið er ekki síst borgin sjálf. Hlaupaleiðin liggur framhjá mörgum merkustu stöðum Parísar:  Við byrjum við Sigurbogann og hlaupum niður Champs Elysee að Concorde minnismerkinu. Áfram framhjá Louvre-safninu og síðan eru hlaupnir 10 km í Vincenne-skógi. Þar er svo snúið við og hlaupið meðfram Signu og framhjá NotreDame. Áfram meðfram Signu í 2 eða 3 undirgöng, síðan er það Eiffel-turninn við 30 km og eftir það aðeins inní Boulogne-skóg og svo aftur upp að Sigurboganum.
Þar sem hótelið var svo nálægt startinu fórum við ekki út fyrr en hálftíma fyrir hlaup.  Úr lobbýinu sáust hlauparar streyma að, flestir voru léttklæddir en þó í regn-pokum sem fylgdu með skráningargögnunum. Ekkert rigndi þó, veðrið var hið ákjósanlegasta, logn, 12 stiga hiti, þurrt og skýjað.
Í starthólfunum var þröng á þingi, margir biðu líka fyrir utan girðingarnar og smokruðu sér inn þegar skriðan fór af stað. Ótrúlegt mannhaf hvert sem litið var.  Á götunni var mikið af drasli, vatnsbrúsum, hlífðarfötum og regnpokunum.  Samkvæmt fylgdarliði okkar var það tilkomumikil sjón að sjá þegar þetta var þrifið um leið og hlaupararnir voru farnir af stað. Götusópar spruttu út úr öllum hliðargötum og innan fárra mínútna var ruslahaugurinn horfinn.

Startið var eins og fyrr sagði ofarlega á Champs Elysee, nálægt Sigurboganum.  Það er svo hlaupið niður þessa miklu breiðgötu að Concorde-torgi og svo áfram framhjá Louvre.  Þessir fyrstu kílómetrar eru í raun ólýsanlegir, maður er að reyna að finna rétta taktinn en á sama tíma er svo margt að sjá.
Alls staðar var mikið af áhorfendum, alla vega í minningunni !  Þrátt fyrir það tókst Sjöfn að sjá allt sitt fylgdarlið, bæði innfædda mágkonu sína og vini hennar og aðfluttan bróður sinn. Í mannhafinu mátti líka sjá okkar heittelskuðu Lullu og Kristján, sem sýndu okkur mikinn stuðning og hvatningu með því að fylgja okkur alla leið, ekki bara í gegnum allt æfingatímabilið, heldur alla leið að startinu og markinu!
Til að auðvelda aðdáendum að fylgjast með gengi hlaupara var hægt að gefa upp símanúmer aðstandenda, sem fengu þá send SMS með millitímum 3svar sinnum á leiðinni.
Alls staðar var fólk að hvetja (Allez, allez!), og á ca. km fresti eða oftar alls konar hljómsveitir að spila, oftast í sérkennilegum og skemmtilegum búningum.
Drykkjarstöðvarnar voru á 5 km fresti.  Á þeim var yfirleitt boðið uppá vatn og ávexti,en ekki orkudrykki.  Við höfðum sitt hvorn háttinn á:
Guðmundur var með gel með sér og greip á hverri stöð eina vatnsflösku, hljóp svo áfram framhjá mesta troðningnum og stoppaði síðan eða gekk aðeins og fékk sér gel og vatn.  Ef ekki náðist að klára hálfa vatnsflösku strax (250ml) tók hann flöskuna með sér þar til hann gat komið meira vatni niður.  Gel fékk hann sér við 10, 20, 25, 30 og 35 km. Þetta reyndist ágætlega, það töpuðust kannski 10-15 sek við þetta en það var unnið upp á milli drykkjarstöðva.
Sjöfn notaðist við vatn og banana á drykkjarstöðvunum, prófaði líka sykurmolana, sem var hin ágætasta orka. Hún klikkaði aðeins á að drekka nægilega mikið á fyrstu stöðvunum og fór fljótlega að finna fyrir því. Það er lykilatriði að vökva sig vel. Hún var með einn gelpakka með sér og notaði hann við 25km. Þurrkuðu ávextirnir komu sér líka vel á síðustu stöðvunum.

Við 27 -29 km var hlaupið í gegnum 2 eða 3 göng, í þeim myndaðist mikil stemning. Frakkarnir hrópuðu svo bergmálaði í göngunum On nest pas fatigué! eða  "Við erum ekki þreytt !"  Enda þreytan rétt að byrja að koma...  Allir öskruðu með af lífs og sálar kröftum hvort sem þeir skildu hrópin eða ekki!!
Það gekk ágætlega að halda hraðanum að 30 km markinu. Við 33-34 km fann maður síðan að þetta var smám saman að verða erfiðara, og drykkjarstöðin við 35 gerði ekki sama gagn og sú þar á undan. 
Hlaupið hafði liðið mjög hratt til að byrja með en þegar á hlaupið leið virtist lengra á milli kílómetramerkinganna.  Maður var greinilega farinn að hægja ferðina og þreytast en margir virtust þó vera ennþá þreyttari. Nokkrir voru farnir að örmagnast (það fór reyndar að gerast upp úr 15 km!!).

Á lokakaflanum var þó margt að sjá sem hjálpaði.  Beaujolais-drykkjarstöðin nálægt 38 km freistaði, en þar sem gagnsemi rauðvínsdrykkju í maraþonhlaupi er enn ósönnuð var henni sleppt.  Við  41 km markið var mikill trommusláttur og aragrúi af áhorfendum og þar helltist yfir mann sælutilfinning og bros sem fór ekki af fyrr en mörgum klukkutímum síðar.  Ennþá voru nægir kraftar eftir til að taka síðustu 1195 metrana á góðri siglingu.
Guðmundur endaði á 3.36.09 í frumraun sinni á maraþonbrautinni. Sjöfn gekk líka mjög vel, hljóp sitt fyrsta þon á 4.01og bætti í leiðinni sinn besta tíma á hálfmaraþoni. Henni leið vel alla leiðina og þó að upp úr 30 km bæri á hugsunum á borð við: til hvers í ósköpunum er maður að leggja þetta á sig?!, þá var um leið mikið öryggi í tempóinu og mjög greinilegt hve æfingar voru að skila sér vel.
Bæði vorum við mjög nálægt því sem við miðuðum við og vorum því hæstánægð eftir hlaupið.

Eftir hlaupið tók við þó nokkur ganga, losa sig við flöguna, fá medalíuna, vatn og síðan tók við gríðarlegt ávaxtahlaðborð.  Ljúffengari appelsínur geta ekki verið til. Örlítið lengra var svo verið að steikja pylsur í gríð og erg sem á þeirri stundu var u.þ.b. það eina sem ekki var hægt að hugsa sér að borða. Eftir hlaupið vorum við bæði hin hressustu og í rauninni bara minna eftir okkur en við höfum stundum verið eftir hálfmaraþon. Kannski allt labbið eftir hlaupið hafi haft góð áhrif.  Lappirnar voru ekki í meira lamasessi en það að við náðum að hlaupa frá kvöldverðinum að Dalloyau sælkera-/súkkulaðibúðinni til að kaupa eftirréttinn sem við höfðum haft augastað á síðan á föstudeginum.  Reyndar var líkaminn ekki alveg tilbúinn að drekka eins mikið kampavín og áætlanir höfðu verið um, það varð að bíða seinni tíma.

Parísarmaraþonið er frábært hlaup! Leiðin er góð, lítil hækkun og margt að sjá. Skipulagið til fyrirmyndar og í alla staði var þessi ferð og undirbúningur hennar meiriháttar ævintýri. Þó að við höfum engin plön um að hlaupa fleiri maraþon á þessu ári, þá er hugmyndin um annað slíkt ekki óaðlaðandi og hver veit hvað gerist á árinu 2006.

Tímar og millitímar:

Sjöfn
Miðaði við 4 tímana og hljóp frekar jafnt alla leið.

Vegal.    Tími    Röð
10 km  55.05 16535
21,1 km 1.56.41 16721
30 km  2.46.31 16266
42,2 km  4.01.20 15805
Alls í sæti 1067 af 4198 konum

Guðmundur
Miðaði við að enda í kringum 3.30 sem þýddi 5 mín/km.  Hafði umfram allt í huga að byrja rólega, fór fyrsta km á 5.40, næsta á 5.20, kannski ekki alveg á planinu að byrja þetta mikið rólega en samt allt í lagi.

Vegal.    Tími    Röð
10 km 51.05 11209
21,1 km 1.46.41 10701
30 km 2.31.39 9865
42,2 km 3.36.09 8303