Reykjavíkurmaraþon 2004 - Steinn Jóhannsson

birt 24. ágúst 2004

Mitt fyrsta maraþon

Þá var stóri dagurinn runninn upp. Ég vaknaði rúmlega sjö og fékk mér eina ristaða brauðsneið með smjöri, tvö glös af Leppin orkudrykk og eina musli-stöng. Vonandi myndi orkan frá þessum morgunmat duga mér eitthvað í hlaupinu.

Áætlunin var tilbúin í huganum. Stefnt var að því að fara fyrstu 10km á 42:30 og fara fyrri helminginn á 1:29,15 sem þýddi 4:15 per km. Svo átti bara að koma í ljós hvernig seinni helmingur hlaupsins myndi þróast.

Veðrið var frábært þegar ég mætti niður í Lækjargötu um 9:20. Fjölmargir hlauparar voru mættir og að hita upp. Ég hljóp u.þ.b. í 8 mín í upphitun og hugsaði með mér að upphitun þyrfti ekki að vera svo löng þar sem ég ætlaði að hlaupa rólega af stað. Þetta hljómar kannski skrítið en fyrir gamlan 800m hlauparar er um 4:15 mjög rólegt af stað.

Félagi minn Árni Már Jónsson ætlaði að hjóla með drykki og Squeezy-gel fyrir mig. Upphaflega áætlun gerði ráð fyrir að ég myndi nota 6 pakningar að gelinu og drekka um þrjá brúsa (750 ml) á leiðinni. Gísli Ásgeirs. ritari FM hafði mælt með því að drekka á öllum drykkjarstöðvun og ég ætlaði að reyna það. Hins vegar hef ég alltaf þurft að drekka lítið á æfingum og í keppni þannig að það var vissulega furðuleg tilfinning að ætla að drekka á nokkurra kílómetra fresti í hlaupinu. Ég lét Árna einnig taka fyrir mig bólgueyðandi krem og saltlakkrís þar sem ég bjóst við að fá sinadrætti á leiðinni. Vonandi þyrfti ég ekki á því að halda.

Kl. 10:00 var hlaupið ræst. Ég kom mér nokkuð framarlega í hópinn þar sem ég vill venjulega byrjar framarlega og losna við troðning. Ég heyrði það á ráslínunni að vel flestir þátttakenda voru útlendingar og við Íslendingar því í miklum minnihluta. Ég stillti mér upp við hliðina á Þórhalli Jóhannessyni sem stefndi á þrjá klukkutíma og því var heppilegt að byrja með honum.

Loksins kom skotið og allir ruku af stað. Ég skokkaði af stað og leið frábærlega. Mér fannst hraðinn rólegur og var um leið hissa að ekki voru nemu u.þ.b. 14-15 keppendur fyrir framan mig. Ég hugasði með mér að þetta væri nú ansi róleg byrjun í þessu frábæra veðri. Þegar ég kom að fyrstu kílómetra merkingunni þá var tíminn 3:47 mín og þá skildi ég hvers vegna ég var svona framarlega. Ég var að hlaupa allt of hratt en leið ekki þannig því að mér fannst ég vera að skokka rólega. Ég ákvað því að hægja á mér og fór fyrstu 5km á 19:46 og leið enn mjög vel. Þá fór ég að hugsa með mér að þetta gengi ekki lengur og ég yrði hreinlega að hægja á mér ef ég ætlaði að komast heilt maraþon. Það sem mér þótti skrítnast var að ég var alltaf einn. Nokkrir útlendingar voru skammt undan eða ca. 50-100m og annað eins bil í þá sem voru á eftir mér. Ég hugasði með mér að ef mér liði vel eftir hálft skyldi ég auka og reyna að hlaupa með einhverjum því það getur verið gott að vera í hóp og það keyrir mann áfram.

Þegar ég svo hljóp í gegnum fyrstu 10 km var millitíminn 40:04 og tíundi km var á 3:59. Hraðinn var allt of mikill og ég varð hreinlega að hægja á mér ég ætlaði að koma mér í mark. Ég ákvað að fá mér gel og drekka aðeins til þess að fá smá orku. Verst hvað gelið er hræðilega vont og erfitt að koma því ofan í sig. Á þessum tímapunkti var ég búinn að drekka um 0,1 l.

Næstu 5 km voru rétt undir 21 mín og heildartíminn á 15 km var 1:01,02 sem er alls ekki svo slæmt. Líðanin var góð og ég náði einum útlending eftir u.þ.b. 17 km. Sá spurði á lélegri ensku hvað ég ætlaði að fara hratt og ég sagðist ætla að hlaupa á rúmlega þremur klukkutímum. Hann tjáði mér hins vegar að hann ætlaði að hlaupa á 2:45,00 og ég vissi um leið að hann næði því aldrei því hann var farinn að hægja verulega á sér. Ég hljóp því fram úr honum eftir u.þ.b. hálfan km. Í raun fannst mér betra að hlaupa einn því þá væri maður ekki að hugsa um neina andstæðinga. Annað sem ég furðaði mig á var að ég virtist vera nokkuð framarlega í hópnum og það virtust ekki vera margir Íslendingar á undan mér. Það yrði þá bara að koma í ljós síðar hvar ég væri í röðinni. Sætið skipti engu máli heldur að klára hlaupið með sóma.

Þegar ég kom í gegnum 20km þá var millitíminn 1:21,37 og mér leið mjög vel. Engin eymsli voru að angra mig og því ákvað ég að halda sama hraða. Tíminn á hálfu maraþoni var 1:26,05. Það var fínn tími og miða við hversu auðvelt þetta var ennþá þá gæti ég haldið þessu eitthvað meira.

Ég jók hraðann lítillega og á 24 km fór ég undir fjóra mínútur. Tíminn á 25 km var 1:42,07 og hafði hægast km verið 4:20 mín (áttundi km) og sá hraðasti 3:43 mín (níundi km). Sennilega var eitthvað að mælingunni á þessum km. Eftir 25km var ég orðinn nokkuð bjarsýnn að fara niður á þrjá klukkutíma. Ég gerði alltaf ráð fyrir að hlaupa á vegginn og því var gott að eiga smá tíma inni. Þegar ég kom svo að 30 km markinu þá var tíminn 2:02,44 sem þýddi að ég mátti hlaupa seinustu 12 km á 57,16 mín til þess að fara undir 3 klukkutíma. Á þessum tímapunkti gerði ég mér grein fyrir að það væri raunhæft en áttaði mig einnig á því að ef ég lenti í vandræðum þá hefði ég þó nokkurn tíma upp á að hlaupa. Þrítugasti km var á 4:15 og það má segja að þá hafi ég virkilega byrjað að finna til þreytu. Ég uppgötvaði að ég hafði ekki drukkið mikið á leiðinni. Ég var búinn með einn brúsa og hafði fengið smá powerade á tveimur drykkjarstöðvum. Ennfremur voru einungis tveir gel-pakkar búnir. Ég ákvað því að reyna að drekka meira og pína meira gel ofan í mig.

Næstu kílómetrar 31-35) voru frá 4,16-4,26 mín. Tíminn á 35km var 2:24,32. Þrátt fyrir þreytuna var ég að halda tímanum frá 4,25-4:34. Þegar ég náði svo 37 km markinu var ég kominn með bakþanka yfir því að hafa látið mér detta í hug að fara heilt maraþon. Mig langaði mest til þess að hætta en ákvað að bíta á jaxlinn og hugsaði um leið að fyrst mér liði svona illa en næði samt að hlaupa um 4:30 þá yrði lokatíminn ekki svo slæmur. Þegar ég hljóp í gegnum 40 km var millitíminn 2:46,57 og þá vissi ég að ég færi nokkuð undir þrjá tíma. Ég jók aðeins hraðann því tveir útlendingar sem ég hafð náð áður og farið fram úr náðu mér og ég náði aðeins að elta þá. Fertugasti km var á 4,23 mín. Eftir það hægði ég á mér og sá 41 var á 4,33. Þegar ég áttaði mig á að það væri aðeins rúmur km eftir þá ákvað ég að auka hraðann eind og ég gat venjulega í götuhlaupum (hafði reyndar ekki hlaupið neitt götuhlaup á þessu ári). Hins vegar jókst hraðinn ekki neitt og ég fékk millitímanna 4,33 á kílómetir númer 42. Ég var svo þreyttur þegar ég kom inn Lækjargötuna að ég tók ekki einu sinni endaprett.

Fjölmargir skokkarar fóru fram úr mér og mér leið bölvanlega í fótunum og vissi að líðanin ætti eftir að versna þegar ég kæmi í mark. Þegar ég hljóp í gegnum markið sá ég að tíminn var 2:56,58 kl. og það var aldeilis frábært. Ég hafði gert gott betur en ég hafði stefnt að og þetta var draumi líkstast þegar ég heyrði að ég hefði náð 10 sæti og verið fyrsti Íslendingurinn í maraþoninu.

Eftir hlaupið reyndi ég að drekka sem mest til þess að fá ekki krampa og líðanin var miklu betri en ég átti von á. Sennilega leið mér svona vel þar sem hlaupið hafði gengið vonum framar. Ég var virkilega ánægður með árangurinn og ekki spillti stemningin fyrir þar sem fjöldi fólks hafði hvatt hlauparana á leiðinni.

Eftir á þá hugsa ég með mér að næst muni ég undirbúa mig betur. Ég byrjaði ekki að hlaup fyrr en í júní en hafði synt nokkrum sinnum í viku fram að þeim tíma. Hlaupadagskráin hljóðaði upp á fjögur hlaup í viku frá 30-40 mínútur. Ég náði þó að hlaupa tvisvar sinnum yfir klukkutímann og fjórum sinnum milli 50-60 mín á tímabilinu júní til ágúst. Flestir urðu kílómetrarnir 42 á viku og það er einfaldlega allt of lítið sem undirbúningur fyrir maraþon. Ég held svona eftir á að það sem hefði styrkt mig mest fyrir hlaupið hefði verið löng hlaup um helgar sem hefðu verið rúmlega tveir klukkutímar. Hins vegar er öruggt að sundæfingarnar undanfarið og þá sérstaklega allar ferðirnar í sjóinn með Kela og Kidda hafa skilað sér. Það er alveg á hreinu að sund og hlaup fara mjög vel saman og sund er kannski alls ekki svo slæmur undirbúningur fyrir maraþonhlaup.

Það er öruggt að ég mun hlaupa fleiri maraþon en þá betur undirbúinn og í betra hlaupaformi. Ég er þegar byrjaður að hugsa um fleiri maraþon en bíð með ákvörðun því eflaust eiga næstu dagar eftir að verða erfiðir þar sem maraþon getur víst setið í mönnum nokkuð lengi.

Eftirfarandi saga birtist á: http://steinnjo.blogspot.com/