Þorvaldsdalsskokk 2000 - Viktor Arnar Ingólfsson

birt 02. ágúst 2004

Frásögn Viktors Arnar Ingólfssonar

Það var þoka í Eyjafirði laugardagsmorguninn 1. júlí þegar ég ók frá Akureyri á leið í Þorvaldsdalsskokkið. Svo mikil að ég fann ekki Árskógsskóla og endaði niðri á bryggu á Árskógssandi. Hefði eflaust haldið áfram út í Hrísey ef góðviljaður heimamaður hefði ekki snúið mér við. Ég fann svo skólann og nokkra hlaupalega náunga sem tvístigu á planinu. Skipuleggjendur mættu svo á svæðið upp úr klukkan níu og skráningin hófst. Það var eitthvað vel á annan tuginn af körlum og ein kona.

Nú var tilkynnt að hinkrað yrði með startið sem átti að verða klukkan tíu og séð til hvort þokunni mundi ekki létta. Ég varð feginn því úr því ég fann ekki skólann frá þjóðveginum yrði ég illa villtur á fjöllum. Hópnum var þó smalað inn í litla rútu og ekið inn að Fornhaga í Hörgárdal þaðan sem átti að hefja hlaup. Við Fornahaga sat svartaþoka nánast niður í dal og óárennilegt að hlaupa á fjöll. Ég fékk lánaðan síma til að hringja í konuna, sem beið mín með börnin á Akureyri, og tilkynna að það mundi dragast að ég snéri úr þessari för sem var svona hliðarspor í sumarfríinu.

Nú var spáð og spekúlerað um stund og ýmsar tillögur ræddar. Ein var á þá leið að hlaupið yrði fært niður á þjóðveg og var það talin ágætis lausn ef ekki rættist úr. Það var þó ákveðið að bíða enn og Bjarni Guðleifsson, sem var í forsvari fyrir skipuleggjendur, bauð í te heim að Möðruvöllum. Það var þegið með þökkum og var teið borið í þátttakendur í stórum ílátum. Hjálparsveitarmenn voru þegar komnir á fjöll til að manna drykkjarstöðvar og voru þeir í síma eða talstöðvarsambandi við byggðir.

Lengi vel bárust slæmar fréttir af skyggni en á tólfta tímanum fannst mönnum að það væri að létta til að norðanverðu. Það var því ekið aftur inn að Fornhaga og athugað með skyggni. Enn var þokan í fjallinu en þó heldur á undanhaldi. Það var ákveðið að starta og gefin leiðarlýsing. Hafa ána á vinstri hönd og fjallið á hægri hönd. Jafnvel ég treysti mér til að muna það. Bjarni lofaði svo að vera síðastur og smala eftirlegukindur. Menn fóru að græja sig til og nokkrir drógu af sér síðubuxurnar. Loks var talið niður og hlaupið af stað.

Það er drjúg brekka frá Fornhaga upp í mynni dalsins og fóru menn mishratt. Ég sá á eftir stærstum hluta hópsins á drjúgum hraða upp brattann og bölvaði því hvað ég hafði verið latur við brekkuæfingarnar. Þokan var á sínum stað en reyndist ekki eins þétt og óttast var. Maður sá nauðsynleg kennileiti, þ.e. ána og fjallið og í upphafi var stutt á milli manna. Ég sá fram á að geta ekki notað skyggnið sem afsökun fyrir lélegum tíma og reyndi því að herða skeiðið. Það gekk misjafnlega því nú skiptist á kargaþýfi og mýrar. Stundum fann maður kindagötur en hlaupalagið er nú einu sinni þannig að ég þarf breiðari veg til að halda fullum hraða en þann sem rollurnar láta sér nægja. Hraðinn var eiginlega mestur í mýrunum því víða héldu þær nokkuð vel. Fyrir kom að maður sökk í forina og var þá kúnstin að halda skónum á löppunum. Ég hafði komið mér upp búnaði sem auðveldaði það en frétti af öðrum sem töpuðu af sér skónum og þurftu að leita lengi.

Við fyrstu drykkjarstöð var tilkynnt hátt og skýrt að nú væri 12% leiðarinnar að baki og maður hefði hækkað sig um einhverja metratölu sem ég man ekki núna. Það fór að birta til og í ljós kom að Þorvaldsdalur er bæði snotur og afskaplega langur. Ég fór aðeins að líta í kringum mig og rúllaði við það á hausinn. Slapp þó við meiðsli en horfði betur niður fyrir tærnar á mér eftir þetta.

Önnur drykkjarstöð var þegar leiðin var hálfnuð og eftir hana tók við hrikaleg skriða. Þar varð maður að hoppa á milli stórra steina og ekki hugsa um að flýta sér. Eftir þetta fór færið heldur að batna en við þriðju drykkjarstöðina var vatnsmikil þverá sem maður var ferjaður yfir á jeppa. Ég þurfti að hinkra dálítið eftir bílnum og náði að snýta mér og pissa á meðan. Þegar í ljós kom að endanlegur tími var rúmlega mínútu fram yfir 3 klst. var ég fljótur að kenna þessari töf um að settu 3 klst. marki var ekki náð. Veður og skyggni var nú hið besta og síðustu 7 km er sæmilegur bílslóði. Það var tekið vel á móti manni í markinu en ég gat ekki tafið við það og varð að drífa mig til Akureyrar til að friða konuna og halda áfram með sumarleyfisáætlunina.

Úrslit hlaupsins verða líklega birt annarsstaðar en það voru einhverjir strákar úr Flugleiðaskokkhópnum sem voru fyrstir á ca. 2:10. Ég var minna þreyttur eftir þetta hlaup en 21,1 km götuhlaup því ég gat ekki haldið uppi neinum hraða á löngum köflum og þá hvíldist maður á labbinu. Mitt markmið var að hafa þetta sem æfingu fyrir fyrsta Laugavegshlaupið mitt og ég held að það nýtist vel sem slíkt. Ég mæli með því að skokkarar fari þetta a.m.k. einu sinni til gamans og ég ætla einhverntíman aftur til að ná tíma innan við 3 klst. Það er vel staðið að skipulagningu hjá heimamönnum sem standa að þessu árlega af mikilli þrautseigju þótt þátttaka sé ekki meiri. Ég þakka þeim fyrir góða skemmtun.