Þátttökugjald

  • 27,5 km7.900 kr

Um hlaupið

  • Vegalengdir27,5 km
  • Dagsetning10. júlí 2021

Þann 14. júlí árið 1974 var opnað fyrir umferð yfir Skeiðarárbrú og þar með um hringveginn.

Þann 10. júlí næstkomandi verður Skeiðarárhlaup haldið í þriðja sinn, en það endar uppi á því 880 m langa minnismerki, gömlu brúnni yfir Skeiðará.

Um Skeiðarárbrú

Skeiðarárbrú var byggð á árunum 1972-1974. Að opna brúna var atburður sem breytti landslagi og menningu okkar til frambúðar og er því brúin tákn um miklar samfélagsbreytingar. Helgi Hallgrímsson, sem var verkfræðingur hjá Vegagerðinni á þessum árum, hannaði brúna og stýrði framkvæmdum á Skeiðarársandi.

Markmið manna var að vinna með náttúruöflunum og byggja brú á sandinum sem myndi skemmast sem minnst í flóðum, en óraunhæft var talið að byggja brú sem stæðist flóðin með öllu. Fyrir þennan tíma höfðu menn alla tíð komist leiðar sinnar yfir sandinn sundríðandi yfir árnar á hestum eða farið um jökulveg. Frá miðri síðustu öld voru gerðar ýmsar tilraunir með að komast yfir árnar á vélknúnum ökutækjum.

Þórbergur Þórðarson lýsir í frásögn sinni Vatnadagurinn mikli, för sinni í gegn um Öræfin og yfir Skeiðará, árið 1933. Þar telur hann upp Vatnaboðorðin fjögur:

  1. Haltu ekki fast í tauminn!
  2. Stattu ekki í ístöðunum!
  3. Haltu annarri hendi af öllu afli í faxið, ekki í hnakkinn!
  4. Horfðu ekki niður í vatnið, heldur skaltu einblína útí sjóndeildarhringinn eða á Lómagnúp!

Skeiðará færði sig yfir í farveg Gýgjukvísl árið 2009 og síðan þá hefur aðeins lítil læna, Morsá, runnið undir Skeiðarbrúna. Árið 2017 var umferð hleypt yfir nýja brú sem smíðuð var yfir Morsá og þar með glataði Skeiðarárbrú hlutverki sínu. Nú stendur hún sem strönduð í tíma, við hlið hinnar nýju brúar og minnir okkur á hin síbreytilegu náttúruöfl sem umlykja okkur og við erum partur af.

Skeiðarárhlaup Mark Friðrik
Friðrik Ármann kemur í mark í Skeiðarárhlaupinu
Staður og tímasetning

Laugardaginn 10. júlí nk. ræsum við Skeiðarárhlaup á tjaldsvæðinu í Skaftafelli kl 11 í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð. Tímataka fer eingöngu fram að þessu sinni með skeiðklukku. Þak er á fjölda þátttakenda, 30 manns.

Vegalengd, hlaupaleiðin og kort af leiðinni

Hlaupið er 27,5 km og verður ræst á tjaldsvæðinu í Skaftafelli. Þátttakendum verður skutlað frá Skeiðarárbrú til baka að þjónustumiðstöðinni í Skaftafelli að hlaupi loknu. Kort af leiðinni er hægt að sjá neðst á þessari síðu.

Hlaupaleiðin liggur upp Skaftafellsheiðina, fyrstu 8 km upp undir Kristínartinda. Á leiðinni upp blasir Skaftafellsjökull við. Að þeirri hækkun lokinni er hlaupið niðurávið og á jafnsléttu. Frá Kristínartindum að Sjónarskeri er Morsárdalur á hægri hönd og sést inn í Kjósarmunnann og yfir í Bæjarstaðarskóg. Þegar komið er að Sjónarskeri er sveigt inn í Morsárdal. Við komuna inn í Morsárdal er farið yfir göngubrú yfir Morsá og hlaupið meðfram jökulánni í átt að tjaldsvæðinu aftur. Á leiðinni að tjaldsvæðinu er farið yfir aðra göngubrú yfir Morsá að nýju og skömmu síðar er sveigt út á varnargarð sem liggur út að þjóðvegi. Hlaupið er yfir þjóðveginn og mikilvægt að hlauparar séu á varðbergi gagnvart bílaumferð úr báðum áttum. Hlaupið endar uppi á miðri gömlu brúnni yfir Skeiðará.

Skráning og þátttökugjald

Þátttökugjaldi er 7.900 kr og fer skráning fram hér á hlaup.is, sjá efst á þessari síðu. Forskráningu lýkur þann 9. júlí kl. 23.

Þak er á fjölda þáttakenda, 30 manns.

Innifalið í skráningargjaldinu er minjagripur, þjónustugjaldið í Skaftafelli sem veitir aðgang að bílastæði, WC og sturtum við tjaldstæðið, skutl frá Skeiðarárbrú að þjónustumiðstöðinni í Skaftafelli að hlaupi loknu og súpa í kaffiteríunni í Skaftafelli, gegn framvísun miða.

Hlaupanúmer og súpumiði verða afhent í þjónustumiðstöðinni í Skaftafelli á milli 9 og 10 á hlaupdegi, 10. júlí.

Þjónustugjöld verða felld niður í Skaftafelli fyrir þátttakendur. Til þess að fá niðurfellinguna er nauðsynlegt að tilgreina bílnúmer við skráningu svo hægt sé að skrá það inn í kerfi þjóðgarðsins.

Flokkar

Keppt er í kvenna og karlaflokki.

Drykkjarstöðvar og reglur um næringu

Athuga þarf að engar drykkjarstöðvar verða á leiðinni. Hlauparar þurfa því að vera sjálfbjarga með drykk og orku. Einhverjir lækir eru á leiðinni um Skaftafellsheiðina, en fyrsti lækurinn sem hægt er að drekka úr, er u.þ.b. 8 km frá rásmarki hlaupsins.

Óheimilt er með öllu að kasta frá sér rusli á leiðinni og algjört bann er við losun mannlegs úrgangs utan salernis. Algengt er að hlauparar noti gelnæringu í litlum plastumbúðum sem ekki eyðast í náttúrunni. Slíkar umbúðir ásamt öðru rusli hafa því miður orðið eftir á leiðinni og hvert og eitt bréf sem er skilið eftir, er einu bréfi of mikið. Reynslan hefur sýnt að gelbréfin eru stundum að detta úr beltum hlaupara og eftir notkun hafa hlauparar einnig lent í því að þau hafa fokið úr höndum þeirra.

Því eru hér vinsamleg tilmæli um að þátttakendur hætti alfarið að nota þessi gelbréf en setji næringu sína frekar í plastbrúsa, sem hægt er að spenna á sig, t.d. í brúsabelti.

Annað

Pakkatilboð: Hlaup + gisting á Hótel Skaftafelli eina nótt með morgunmat.

  • Eins manns herbergi: 30.800 kr
  • Tveggja manna herbergi: 32.800 kr

Frekari upplýsingar og bókun í gistingu sendist á evabjarna@hotmail.com