Ágúst Kvaran segir frá: 164 km ævintýrahlaup í grísku fjalllendi

birt 07. desember 2014

Ágúst, kona hans Ólöf og aðstandendur hlaupsins að því loknu í október síðastliðnum.Ágúst Kvaran er þekktur hlaupagikkur í íslenska hlaupaheiminum enda farið ófá ofurhlaupinn víða um heim. Á milli þess að hlaupa fyllir hann íslensk ungmenni þekkingu en Ágúst er prófessor í eðlisefnafræði við Háskóla Íslands.Það væri efni í heila ritröð að gera grein fyrir afrekum Ágúst á hlaupasviðinu en við látum nægja að benda á heimasíðu hans að sinni.Í október síðastliðnum þreytti Ágúst 100 mílna ofurhlaup í Grikklandi og í kjölfarið setti hann saman skemmtilega frásögn af hlaupinu og aðdraganda þess. Gefum þessum heiðursmanni orðið:

Ævintýrahlaup í grísku fjalllendi
Veðurspáin breyttist frá degi til dags, allt frá rigningaspám í sólskinsspár og því fylgdu tilsvarandi tilfinningasveiflur! Þannig var mér innanbrjósts þar sem ég dvaldi á Krít fyrstu vikurnar í október stuttu áður en fimmta 100 mílna (160 km) fjallahlaupið "Rodopi Ultra Trail" (ROUT) fór fram 17. - 18. október, 2014. Ég hafði tekið þátt í fjórða hlaupinu árið áður (2013), líka í kjölfar þess að ég dvaldi á Krít og hafði nú í hyggju að endurtaka það.

Eftir að hafa tekið þátt í fjölmörgum styttri ofurmaraþonum á fyrri árum og hlaupið Sahara eyðimerkurhlaupið Marathon des Sables árið 2009 langaði mig til að kljást við 100 mílna hlaup á síðasta ári. Í því fólst þó viss áhætta. Árið áður (2012) hafði reynst mér afar erfitt. Ég ökklabrotnaði í reiðhjólaslysi og fór í aðgerðir við rifnum liðþófum í báðum hnjám á árinu. Það var því eðlilegt að spyrja hvort yfirhöfuðið væri ráðlegt að taka aftur þátt í ofurmaraþonhlaupi. Mér virtist þó ekki verða meint af styttri og meðallöngum hlaupum  á fyrri hluta ársins 2013 svo ég  ákvað að láta á það reyna.

Fyrra Rodop ofurhlaupið 2013
Ég hugðist dvelja á Krít haustið 2013, vegna vinnu og ákvað að leita að 100 mílna hlaupi á nálægum slóðum á vefnum. Þannig fann ég ROUT sem fram fór í október. Hlaupið átti að fara fram í fjalllendi í Norður Grikklandi, nánartiltekið í  Rodopi-fjöllunum sem eru nálægt búlgörsku landamærunum. Ég heillaðist strax af lýsingunni á hlaupaleiðinni og þeim aðstæðum sem þar voru tilgreindar: 164 km fjallahlaup á bröttu og grófu undirlagi í þéttum skógi í óbyggð.

Einnig kom fram að hlauparar yrðu að vera sjálfbjarga að verulegu leyti og þeir gætu jafnvel átt von á að mæta bjarndýrum eða úlfum á leiðinni! Það var ljóst að ég mundi hafa frá mörgu að segja barnabörnunum mínum ef mér tækist að kljást við þessa þrekraun! Ég ákvað að slá til. Ég nálgaðist þetta verkefni af varkárni,  án þess að taka of mikla áhættu og lagði aðaláherslu á að ljúka hlaupinu inna tímamarka sem þá voru 42 klukkustundir.Til að gera langa sögu stutta tókst þetta ágætlega og ég lauk hlaupinu á um 38 og hálfum klukkutíma. Mér leið ágætlega allan tímann, naut hlaupsins í hvívetna og fæturnir þoldu þetta!Ágúst og Ólöf kvöldið fyrir fyrra Rout Ágústs í október 2013.

Viljinn til að gera betur
Vikurnar og mánuðina eftir keppnina sóttu minningarnar frá ROUT 2013 að mér. Hlaupaleiðin og landslagið voru ógleymanleg. Það er ólýsanlegt að hlaupa tímunum saman í algjörri óbyggð án nokkurra ummerkja um mannabyggð með einungis „hrein náttúruhljóð" í eyrum. Í niðamyrkri næturinnar, þar sem engrar ljósmengunar af mannavöldum gætti virtust stjörnurnar bjartari og nálægari en ég hafði nokkru sinni fyrr séð. Hjálpsemi, góðvild og jákvæður húmor fjölmargra sjálfboðaliða á áningar- eða skráningarstöðvum var mér minnistæð. Ég hafði eignast fjölmarga vini sem hjálpuðu til við að endurvekja þessar og margar aðrar minningar með færslum á Facebook.

Í "æfingabúðum" á Krít.Þegar ég hugsaði til baka gerði ég mér grein fyrir að ég hafði gert fjölmörg mistök í hlaupinu 2013, sem mér fannst að ég ætti að geta bætt. Í fyrsta lagi hafði ég villst nokkru sinnum og það helst á síðasta fjórðungi leiðarinnar þar sem hlaupin var sama leið til baka og í upphafi, einfaldlega vegna skorts á athygli í byrjun hlaupsins.Í öðru lagi hafði ég verið óskipulagður á ýmsan hátt:  Keppendum gafst kostur á að senda fyrirfram einhverjar nauðsynjar á tvo áningarstaði. Í stað þess að senda takmarkaðan en vel valinn búnað hafði ég sent fullar töskur sem innihéldu óþarfa að stórum hluta. Það olli töfum þegar á hólminn var komið.Einnig, í stað þess að ganga ákveðið til verks við að matast og byrgja mig upp hafði ég drollað um of á áningarstöðum. Í þriðja lagi fannst mér að unnt væri að auka hraðann á ákveðnum hluta leiðarinnar. Mér fannst ég því verða að reyna aftur!Í ofanálag, þá vildi svo til að á áætlun var að fara aftur til Krítar haustið 2014 vegna vinnu minnar. Það var því nærtækt að sameina vinnu og áhugamál og taka að nýju þátt í  ROUT í október 2014.

Reynslunni ríkari í undirbúningnum 2014Frá upphafi ársins (2014) jók ég jafnt og þétt hlaupamagnið í hverri viku. Um sumarið lagði ég áherslu á utanvegahlaup fjarri byggð á Íslandi. Ég tók þátt í lengstu vegalengd Hengilshlaupsins í júlí sem er  50+ mílna /83 km fjallahlaup um Hengilsvæðið og nágrenni og í ágúst hljóp ég Reykjavíkurmaraþonið (42.2 km). Vikurnar rétt fyrir ROUT-2014, þegar ég dvaldi á Krít í nágrenni Heraklion, stundaði ég að mestu  fjalla og utanvegahlaup.Dagana rétt fyrir keppnina, þegar ég lagði áherslu á hvíld frá hlaupum og fylgdist grannt með veðurspánni fyrir Rodopi fannst mér ég vera vel undirbúinn og reiðubúinn fyrir átökin og vonaði innilega að aðstæður yrðu ákjósanlegar.Hleðsla í hámarki daginn fyrir hlaupið í október síðastliðnum.

Ég mætti ásamt konunni minni, til að taka við skráningargögnum við rásmarkið daginn fyrir hlaupið. Þar var okkur tekið með kostum og kynjum af fjölda þátttakenda og skipuleggjenda sem við höfðum marga hverja hitt árið áður. Mér leið eins og einum of „ROUT fjölskyldunni". Leyfilegur hámarksfjöldi þátttakenda, 120 talsins, voru skráðir til keppni. Það ríkti spenna og eftirvænting í loftinu. Ég tók við keppnisnúmerinu mínu, 53, sem jafnframt var sætið mitt frá árinu áður og innbyrði lokahleðsluna fyrir hlaupið í pastaveislu fyrir keppendur.

Haldið af stað að morgni 17. okt 2014
Að loknum takmörkuðum svefni í nálægu þorpi kvöldið fyrir hlaupið hóf ég mína aðra ROUT þrekraun ásamt 115 öðrum hlaupurum klukkan 6:00 um morguninn 17. október.  Framundan var erfitt 164 km fjallahlaup á grófu undirlagi, grýtt og bratt að verulegu leyti sem klára átti á innan við 40 klukkustundum þetta árið. Fyrsti fjórðungur leiðarinnar (41 km) var að stórum hluta niður í móti í vestur að stað sem nefnist Zarkadia. Þá var farin 82 km rangsælis hringleið aftur til Zarkadia og loks endað með því að fara sömu leið og farin var í upphafi til baka (41 km) að upphafsreit. Síðasti fjórðungurinn fól því í sér brattar „uppbrekkur" að verulegu leyti (sjá mynd að neðan). Fyrri hluti hringleiðarinnar var mikið til upp í móti en síðari hlutinn niður í móti.

Skógur, klettar, ár, lækir. Allt má finna í "ROUT."Hæðsti punktur leiðarinnar, um miðbik hlaupsins (82 km), var í um 1600 m yfir sjávarmáli, nálægt landamærum Grikklands og Búlgaríu. Samanlögð hækkun var um 8000 m. 26 skráningarstaðir voru á leiðinni, þar af einungis 6 áningarstöðvar. Keppendum var því gert að hlaupa með drykki, næringu og nauðsynlegan búnað að einhverju marki.Það greiddist fljótlega úr hlaupahópnum. Eftir fyrstu 20 kílómetrana var ég að mestu einsamall á ferð og hitti sjaldan aðra keppendur hlaupandi. Meðan á hlaupinu stóð lagði ég ríka áherslu á að drekka vatn og orkudrykki ört og að borða gel eða orkufæðu reglulega til að lágmarka orkutap. Á áningarstöðum bætti ég á mig drykkar- og orkubirgðum auk þess að innbyrða  eins mikinn viðbótar mat og drykk og ég mögulega gat.

Á þeim áningarstöðum þar sem ég hafði látið senda viðbótar búnað (eftir 41, 69 og 123 km) smurði ég fæturnar með vaselíni og skipti um sokka. Ólíkt því sem margir keppendur gerðu notaði ég ekki göngustafi alla leiðina. Þess í stað notaði ég einungis stafi, sem biðu mín eftir 123 km, síðasta fjórðung leiðarinnar sem fól í sér bröttustu „uppbrekkurnar".

Allur skalinn, upp niður upp, möl, ár, mold, gras og blöðrur
Undirlag leiðarinnar var afar fjölbreytt: malbik, moldarvegir, graslendi, stórgrýti, blautlendi eða þurrlendi. Keppnin krafðist þess að klifra upp snarbrattar brekkur eða klappir, hoppa yfir ár og fallna trjáboli eða renna sér niður fjallshlíðar, jafnt að nóttu sem degi. Yfirferðin var því mjög misjöfn bæði hvað hraða og tækni varðaði, allt frá því að stika hægt upp snarbrattar brekkur til þess að hlaupa hratt niður fjallshlíðar. Sjaldan gafst færi á að hlaupa lengi samfellt með jöfnum hraða. Merkingar á leiðinni voru almennt góðar og betri en árið áður. Yfir nóttina var auðvelt að rata í skóginum þar sem fjöldi endurskynsmerkja lýstu greinilega af birtunni frá ennisljósinu mínu. Í þetta skiptið villtist ég aldrei. Hinn takmarkaði fjöldi áningarstaða (sex stöðvar) gerði það að verkum að tilhlökkun fyrir hverja stöð var þeim mun meiri.

Almennt leið mér vel í hlaupinu. Eins og við var að búast dró af manni jafnt og þétt eftir því sem á hlaupið leið en ég varð aldrei aðfram kominn af orkuskorti. Á síðasta fjórðungi hlaupsins fór ég hins vegar að finna fyrir vaxandi óþægindum í fótum út af blöðrum. Þetta var einkum bagalegt þegar hlaupið var niður í móti á grýttum slóðum.Mýkra undirlag og jafnvel ganga upp brattar brekkur var þá kærkomin! Á síðasta áningarstaðnum, eftir 137 km fékk ég bráðabirgðaaðstoð hjúkrunarfólks sem linaði verstu þjáningarnar.Samanburður á frammistöðu Ágúst í "ROUT" árið 2013 og 2014.

Drifinn áfram af tálsýnum og eiginkonunni
Það var mikill léttir að ná síðustu skráningarstöðinni, um það bil 7 kílómetrum frá endastöðinni, en eftir það var að mestu um að ræða mjúkan og sléttan vegartroðning. Engu að síður var sársauki við hvert fótmál og „endaspretturinn" virtist engan endi ætla að taka. Í þann mund sem mér fannst að ég hlyti að vera um það bil að klára birtist skilti sem gaf til kynna að „einungis 5 kílómetrar væru eftir"! Mér var farið að líða undarlega. Daginn fyrir hlaupið hafði ég ásamt konunni minni, Ólöfu, gengið síðasta hluta leiðarinnar. Þá sáum við skilti sem á stóð „1000 m eftir". Mig var farið að lengja eftir að sjá það aftur nú. „Jú, þarna var það".

Síðustu skrefin stigin á 164 km leið. Ansi þung að sögn Ágústs.Ég  setti undir mig hausinn og jók hraðann, leit því næst upp aftur....en skiltið var „horfið". Gat verið að ég væri farinn að sjá sýnir mótaðar af óskhyggju (tálsýnir) eftir að hafa vakað samfellt í næstum 34 klukkustundir?! Og nú birtist kona framundan á veginum...en í þetta skiptið var ekki um tálsýn að ræða. Þetta var Ólöf! Þvílíkt augnablik!Endamarkið nálgaðist. Stuttu síðar hlupum við saman fram hjá  „1000m" skiltinu.  Í fjarska heyrðust raddir. Bjölluhljómur klingdi. Sviðsmyndin stækkaði skyndilega.Endamarkið var í augsýn. Háværari bjölluhljómur, hróp og köll. Ég kastaðist áfram af öllum mætti og fór yfir endamarkið með bros á vor og tár í augum. Þvílíkt augnablik.

Að ofan má sjá kort af hlaupaleiðinni í Norður-Grikklandi. Að neðan má sjá hæðarlínurit.

Bæting um fjóra og hálfa klukkustund á milli ára
Ég hafði klárað hlaupið á um 34 klukkustundum og 7 mínútum, sem var bæting upp á næstum fjóra og hálfan klukkutíma frá árinu áður. Þegar ég leit yfir farinn veg og bar saman niðurstöður beggja hlaupanna (sjá mynd neðan) gerði ég mér grein fyrir að bætinguna má rekja til margra samverkandi þátta. Í fyrsta lagi nálgaðist ég verkefnið þetta árið af meiri ákveðni og festu en árið áður sem þýddi einfaldlega að meðalhraðinn var meiri nú. Í öðru lagi var ég skipulagðari og eyddi skemmri tíma á áningarstöðum. Loks má nefna að ég villtist ekki líkt og áður.

Annað ævintýrahlaupið mitt í Rodopi fjöllum Grikklands er nú yfirstaðið. Eftir sitja minningar um ógleymanlega atburði, sem hafa kennt mér að þekkja betur minn innri mann, hvers ég er megnugur og hvar mín takmörk liggja. Minningarnar munu varðveitast með mér það sem eftir lifir og munu vissulega geta orðið uppspretta margra sagna fyrir barnabörnin um undraheim „ROUT fjölskyldunnar" í ævintýraheimi Rodopi fjallanna.

Ágúst Kvaran, nóvember, 2014

Tilvísanir og krækjur:
Vefsíða hlaupsins:http://www.rout.gr/;
Úrslit: http://www.rout.gr/index.php?name=Rout&file=results&year=2014
Hlaupaleiðin: https://www.youtube.com/watch?v=g5iFFkM1bQw&list=UUa8XbOw2q_fh3LieG4oHOpw
Myndband (ræsing; Á.K. ca. 58 sek): http://www.youtube.com/watch?v=1Sbe77lkFCQ&list=UUKMmloGYjIam7Wotwz7aIwg
Myndband (hlaup; Á.K. ca. 32 sek.): https://www.youtube.com/watch?v=SDQ0GIv89-A
Myndband (lúkning; Á.K. ca. 11 mín): https://www.youtube.com/watch?v=77xjRi7O65Q
Umfjöllun á mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/22/adrenalinid_helt_honum_vakandi/?fb_action_ids=734655176614067&fb_action_types=og.recommends
Umfjöllun á hlaup.is: http://www.hlaup.is/listbullets_date_adv.asp?cat_id=122&module_id=220&element_id=25983