"Ég varð pirraður eftir að hafa lent í þessu veseni," segir Kári Steinn í viðtali eftir Rotterdam maraþonið.

birt 26. apríl 2014

Kára Steini gekk vel framan af í RotterdamKári Steinn Karlsson, íslandsmethafi í maraþonhlaupi var töluvert frá sínu besta í Rotterdam maraþoninu sem fram fór 13. apríl síðastliðinn. Kári Steinn kom í mark á 2:19:17, tæpum tveimur mínútum frá eigin Íslandsmeti og hafnaði í nítjánda sæti. Rétt er þó að benda á að enginn Íslendingur hefur hlaupið maraþon hraðar og hefði tíminn nægt til að slá Íslandsmet Sigurðar P. Sigmundssonar sem stóð í 25 ár, þangað til Kári Steinn bætti það í Berlín 2011.Við heyrðum í Kára Steini sem var ekki allt of sáttur með hlaupið: "Hlaupið gekk mjög vel framan af. Ég var í góðum hópi sem stefndi á 2:15, þannig að ég þurfti ekki að hafa of miklar áhyggjur af hraðanum heldur einbeitti mér að því að slaka á og fljóta með. Eftir að hafa flotið vel í gegnum fyrsta hálfa maraþonið á hárréttum tíma (1:07:39) fór róðurinn að þyngjast og ég þurfti að hafa meira fyrir kílómetrunum en það er svo sem ekkert óeðlilegt þegar líða tekur á seinni hlutann í maraþoni," segir Kári Steinn um fyrri hluta hlaupsins.Samstuð kom Kára Steini úr jafnvægiSnurða hljóp á þráðinn eftir 25 kílómetra þegar Kári Steinn lenti í samstuði við annan hlaupara sem sneri við fyrir framan hann eftir að hafa misst af drykkjarstöð. Kári Steinn fipaðist við atvikið og missti hópinn sinn um 30 metra fram úr sér. "Ég varð pirraður að hafa lent í þessu veseni og reyndi strax að keyra upp hraðann og ná hópnum enda stífur mótvindur á þessum kafla og ég vissi að framundan væru erfiðir kílómetrar og mikilvægt að hafa einhvern að hlaupa með."

"Ég náði að minnka bilið aðeins en fljótlega í kjölfarið var hlaupið yfir Erasmusbrúnna sem er stærsta brekka hlaupsins og þá fann ég að það var afskaplega lítið eftir á tankinum og rúmir 15 kílómetrar í mark. Á þessum tímapunkti hægðist mikið á mér og ég sá hópinn sem ég hafði hlaupið með allt hlaupið fjarlægjast hratt. Ég missti allan takt og næstu 15 kílómetrar voru með þeim erfiðari sem ég hef hlaupið," viðurkennir Kári Steinn.

"Fullhvasst en það þýddi samt ekki að ég hefði ekki átt að bæta mig."
Margir biðu spenntir eftir Rotterdam maraþoninu og hugsanlegri atlögu Kára Stein að eigin Íslandsmeti, ekki síst eftir góðan árangur hans á HM í hálfmaraþoni í Kaupmannahöfn sem fram fór í lok mars. Aðspurður segir Kári Steinn að honum hafi í raun liðið betur í hlaupinu í Rotterdam heldur en í Kaupmannahöfn. Hinsvegar hafi utanaðkomandi aðstæður verið hagstæðari í Kaupamannahöfn, þar hafi veður verið gott, frábær stemming og samkeppnin allt að því fullkominn. "Í Rotterdam var fullhvasst en það þýddi samt ekki að ég hefði ekki átt að bæta mig. Ég missti hins vegar taktinn of snemma í hlaupinu og það var of langt í mark til að pína sig í gegnu á fullu gasi. Hefði ég misst taktinn rúmum 5 kílómetrum seinna hefði hlaupið líklega farið allt öðruvísi. Þá hefði verið nógu stutt í mark fyrir mig til að geta hlaupið á hörkunni síðustu kílómetrana í stað þess að gefast hálfpartinn upp," útskýrir Kári Steinn.

Keppnistímabilið er þó rétt að byrja og þvert á móti er ástæða fyrir Kára Stein til að örvænta. Hann virðist í góðu formi, fullur orku og hungurs eftir lærdómsríkt síðasta ár. Það er því enginn ástæða til annars en að búast við öðru en að Kári Steinn höggvi nærri eigin Íslandsmeti á árinu. Sjálfur sagði hann í viðtalið við hlaup.is fyrir stuttu að stefndi á Íslandsmet í öllum greinum á komandi tímabili.

Með augun á EM í frjálsum í ágúst
En hver eru næstu skref hjá Kára Steini, hvernig lítur sumarið út? "Ég er lítið búinn að negla niður annað en Evrópumeistaramótið í frjálsum íþróttum í Zurich sem fram fer í ágúst.  Þar mun ég hlaupa maraþon ef ég verð valinn í liðið (það eru engin lágmörk í maraþoninu) en ef það klikkar þá fer ég í eitthvað sterkt haustmaraþon í staðinn. Evrópumeistaramótið verður því næsti toppur hjá mér en fram að því kem ég líklega til með að taka þátt í þeim fjölmörgu skemmtilegu hlaupum sem Ísland hefur upp á að bjóða ásamt því að kíkja vonandi eitthvað út fyrir landsteinana og hlaupa 10 kílómetra og hálfmaraþon.," segir Kári Steinn að lokum.

Varstu búinn að lesa ítarlegt viðtal hlaup.is við Kára Stein