Elísabet hljóp 330 km: Hlóð fæturna eins og síma

birt 20. september 2016

Elísabet Margeirsdóttir getur svo sannarlega kallað sig ofurhlaupara eftir nýjasta afrek sitt. Í síðustu viku lagði Elísabet 330 km að velli í Tor Des Geants fjallahlaupinu sem fram fór í Ölpunum. Þrekraunin stóð í rétt rúmar 113 klukkustundir og hækkunin sem Elísabet kleif á þeim tíma var um 25.000m. Íslenska ofurkonan hafnaði í 8. sæti í kvennaflokki og er því enn og aftur að stimpla sig inn sem ofurhlaupari á heimsmælikvarða.Í ítarlegu viðtali á mbl.is segir Elísabet frá ævintýrum sínum í hlaupinu, undirbúningnum og mörgu fleiru. Elísabet lýsir því í viðtalinu að á köflum hafi brekkurnar i hlaupinu verið hálfgert fjallaklifur, þó séu keppendur í hlaupaskóm. „25.000m upp er ekkert svo erfitt ef þú kannt það en að fara niður drepur mann. Niðurhlaupin eru það erfiðasta," segir Elísabet í viðtalinu og ítrekar að hún hafi aldrei kynnst öðru eins og brekkunum í hlaupinu

Svaf í sjö tíma á fimm sólarhringum

Eins og gefur að skilja var Elísabet ekki stanslaust á hlaupum í klukkustundirnar 113. Á leiðinni var að finna skála þar sem keppendur gátur lagt sig og nærst. Að sögn Elísabetar voru stoppin hennar allt frá því að vera mjög stutt og upp í þrjár klukkustundir. „Þá var ég frekar buguð (í þriggja tíma stoppinu) og ekki búin að sofa neitt svo ég svaf í klukkutíma, fór í sturtu og borðaði mjög vel. Ég fór út af stöðinni þegar sólin var að koma upp og var eins og ný manneskja."Elísabet viðurkennir að hún hafi hugsanlega átt að sofa meira en í heildina svaf hún í sjö klukkustundir á rétt rúmum fimm sólarhringum. „Í stað þess að sofa samfleytt í þrjá tíma eins og sumir gerðu fann ég að þetta var nóg fyrir mig," sagði Elísabet í samtali við blaðamann mbl.is.Aðspurð hvernig hún hafi sett hlaupið upp svarar Elísabet að hún hafi ákveðið að fyrstu 230 km myndi hún hlaupa algerlega á eigin forsendum og stefna að því að líða vel. Í kjölfarið myndi hún endurmeta stöðuna og það tókst svona líka vel.

Bannað að hugsa um hve mikið er eftir

„Maður má aldrei hugsa um hvað maður á mikið eftir, heldur bara næsta áfangastað, bara næsta tind, næstu drykkjustöð. Maður á heldur aldrei að hugsa um kílómetra," segir Elísabet og tekur fram að hún hafi frekar fylgst með hæðarmælinum en kílómetrafjöldanum.

Margir skyldu ætla að Elísabet væri illa farin eftir þessa ótrúlegu þrekraun en hún kannast ekki við það. Hún sé með eina blöðru á hælnum en annars ami ekkert að henni. Þó viðurkennir Elísabet að henni hafi verkjað mjög í iljarnar á köflum, „..En með því að taka þessi tutt­ugu mínútna stopp þá hlóð ég fæturna bara eins og síma."