Hlaup.is fékk fjölbreyttan hóp hlaupara í lið með sér til að gera upp hlaupaárið sem nú er senn á enda. Afraksturinn mun birtast á hlaup.is á þeim vikum sem enn lifa af hlaupaárinu. Af mörgu er að taka, afrekin óteljandi, almenningshlaupin eru alltaf að verða fleiri og betri, sífellt fleiri fara erlendis að hlaupa og utanvegahlaupin verða vinsælli ár frá ári.Næstur í röðinni til að gera upp hlaupárið 2018 er Heiðar Halldórsson, hlaupafrömuður frá Húsavík sem hleypur með hinum frábæra skokkhóp Skokka. Þess má geta að Heiðar er nýkjörin íþróttamaður Völsungs og Skokka í almenningsíþróttum árið 2018.
Hvað stóð upp úr í íslensku hlaupalífi á árinu?
Í sjálfu sér detta mér í hug bæði neikvæðir og jákvæðir hlutir. Klúðrið í brautarmælingu Reykjavíkurmaraþons var eðlilega fyrirferðamikið í fréttum og situr því ferskt í minninu þegar árið er rifjað upp. Það sem var jákvætt var góður árangur íslenskra hlaupara jafnt og þétt frá byrjun árs og til þessa dags. Þannig náðu tuttugu hlauparar þeim áfanga að hlaupa maraþon á undir þremur klukkutímum og er mér til efs að það hafi gerst áður. Þetta gefur vísbendingu um að langhlaup séu enn á uppleið sem íþrótt í Íslandi sem verður að teljast afar ánægjulegt.Sífellt bætist í flóru hlaupaviðburða og mjög jákvætt að sjá hversu víða um landið er hægt að sækja glæsilega viðburði. Þessu tengt má ég til með að nefna þátttöku Ricky Lightfoot í Dyrfjallahlaupinu en hann er utanvegahlaupari á heimsmælikvarða.
Vonandi mun þátttaka hans og umfjöllun hjálpa Borgfirðingum Eystri að halda þessum glæsilega viðburði gangandi.
Hvaða íslenski hlaupari stóð upp úr á árinu?
Það er erfitt að nefna einhvern einn en nokkur nöfn koma upp í hugann. Í spretthlaupunum var það klárlega Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sem náði í gull og brons á EM-U18. Í langhlaupunum voru það einkum frábær frammistaða Elísabetar Margeirsdóttur í Gobi ofurhlaupinu og frammistaða Þorbergs Inga Jónssonar í Mont Blanc sem stóð upp úr. Ekki má gleyma Arnari Péturssyni sem dóminerar flest hlaup sem hann tekur þátt í hérlendis ár eftir ár.
Hvað kom þér á óvart á íslenska hlaupaárinu?
Mér dettur þrennt í hug.
1. Fjöldi erlendra þátttakenda í Vor- og Haustmaraþoni FM var afar ánægjulegur en nokkuð óvæntur að mínu mati. Það verður gaman að sjá þróunina á næstu árum og hvort fjöldinn haldi áfram að aukast.
2. Þegar að Súlur Vertical var fært yfir í miðjan október. Það hljómaði djörf ákvörðun sökum mögulegra snjóalaga og veðurs.
3. Iceland Running Festival sem haldið var í fyrsta sinn í byrjun júní. Ég skráði mig í hálfmaraþon með litlum fyrirvara og bjóst ekki við miklu en raunin varð skemmtilegasta hálfmaraþon sem ég hef tekið þátt í. Munaði þar mestu um hvað leiðin var flott sem og endirinn hvar maður hljóp niður stíginn í Nauthólsvík og endaði í sandinum.
Hvernig gekk þitt hlaupaár persónulega?
Þetta var besta árið mitt af þeim tíu árum sem eru síðan að ég fór að skrölta um göturnar. Eftir fjögur ár án bætinga náði ég að bæta mig í 5 km, 10 km og þrívegis í 21,1 km. Þá náði ég að bæta minn besta tíma í nokkrum utanvegahlaupum. Stefnan var að klára hringinn með bætingu í 42,2 km en slys sem ég lenti í síðsumars kom í veg fyrir þau plön.
Hvað mun standa upp úr á næsta hlaupaári?
Hlaupahópurinn Skokki sem ég æfi með stefnir á maraþonferð erlendis næsta haust og vonandi verður það einn af hápunktunum. Ég ætla mér að mæta í Iceland Running Festival hjá Ívari Trausta og co. og jafnvel að fara heilt maraþon verði það í boði. Þá vona ég að Reykjavíkurmaraþon eigi eftir að heppnast vel og að íslenskir hlauparar muni áfram sameinast um að standa vel við bakið á árshátíð íslensks hlaupasamfélags.
Eitt atriði sem þarf að bæta í íslensku hlaupasamfélagi?
Ekki margt sem þarf að bæta en helst dettur mér í hug að finna þurfi leiðir til að langhlaupum (hvort sem um er að ræða götuhlaup eða utanvegahlaup) verði gert hærra undir höfði í skólakerfinu en hingað. Það eru ef til vill alltof margir sem óska þess að þeir hefðu uppgötvað sportið fyrr. Kynning á íþróttinni er lykilatriði og hlaupahópar geta aðstoðað í þeim efnum.
Sjá einnig:
Arnar Pétursson gerir upp hlaupaárið 2018.
Anna Berglind Pálmadóttir gerir upp hlaupaárið 2018.
Búi Steinn Kárason gerir upp hlaupaárið 2018.
Rannveig Oddsdóttir gerir upp hlaupaárið 2018.