Rannveig Oddsdóttir gerir upp hlaupaárið 2018

birt 27. desember 2018

Hlaup.is fékk fjölbreyttan hóp hlaupara í lið með sér til að gera upp hlaupaárið sem nú er senn á enda. Afraksturinn mun birtast á hlaup.is á þeim vikum sem enn lifa af hlaupaárinu. Af mörgu er að taka, afrekin óteljandi, almenningshlaupin eru alltaf að verða fleiri og betri, fleiri og fleiri fara erlendis að hlaupa og utanvegahlaupin verða vinsælli ár frá ári.Að þessu sinni gefum við Rannveigu Oddsdóttur, hlaupafrömuðu frá Akueyri orðið. Rannveig hefur lengi verið í fremstu röð hlaupara á Íslandi. Eftir að hafa átt við meiðsli að stríða framan af ári kom Rannvegi fyrst kvenna í mark í Laugavegshlaupinu á nýju brautarmeti.

Hvað stóð upp úr í íslensku hlaupalífi á árinu? Það er gaman að fylgjast með þeirri miklu grósku sem er í hlaupunum þessi misserin. Mér finnst ég merkja aukinn áhuga á allskonar hlaupum, bæði hefðbundnum götuhlaupum, utanvegahlaupum og últrahlaupum. Fólk er á ferð og flugi um landið og til útlanda til að taka þátt í hlaupum og ólíklegasta fólk er farið að hlaupa. Hér á Akureyri hefur líka verið mjög gefandi að fylgjast með hópnum okkar vaxa og dafna og sjá hvernig starfið er farið að skila sér í þéttum og flottum hópi sem hefur verið áberandi í hlaupalífinu, við áttum til dæmis mjög flottan hóp í Laugavegshlaupinu.

Hvaða íslenski hlaupari stóð upp úr á árinu? Elísabet Margeirsdóttir á án efa hlaupaafrek ársins með því að hlaupa 400 km í kínverskri eyðimörk eins og að drekka vatn. Það leika það ekki margir eftir.

Hvað kom þér á óvart á íslenska hlaupaárinu? Það kom kannski ekki með öllu á óvart en ég held að við höfum sjaldan átt jafn margar sterkar hlaupakonur og nú. Það er svo sem engin búin að ná metunum hennar Mörthu en hópurinn sem er að hlaupa 10 km á undir 40 mín, hálfmaraþon undir 1.30 og maraþon nálægt þremur tímum hefur held ég aldrei verið verið þéttari.

Hvernig gekk þitt hlaupaár persónulega? Árið byrjaði í meiðslum og fyrstu mánuði þess var ég að berjast í gegnum hásinabólgu. Ég nýtti tímann hins vegar ágætlega til annars konar æfinga, var dugleg að fara á gönguskíði, ganga á fjöll, synda og sundhlaupa og náði þannig að halda grunninum við. Ég ákvað að einbeita mér að utanvega- og fjallahlaupum þetta sumarið og náði nokkrum góðum hlaupum. Laugavegurinn stendur klárlega uppúr sem hlaup ársins hjá mér en þar sigraði ég og bætti brautarmet íslenskra kvenna. Ég átti líka ágætt hlaup í Henglinum og Súluhlaupinu og náði nokkrum götuhlaupum líka.

Hvað mun standa upp úr á næsta hlaupaári? Það verður gaman að fylgjast með þeim ungu hlaupurum sem hafa verið að gera góða hluti í götuhlaupunum undanfarin ár og eiga enn inni bætingar. Elín Edda, Andrea Kolbeins, Arnar Pétursson og Hlynur Andrésson eru til alls líkleg. Svo eru líka sífellt fleiri að feta sig inn á braut utanvega- og últrahlaupa og ég held að það verði spennandi að fylgjast með okkar sterkasta fólki þar á nýju ári.

Eitt atriði sem þarf að bæta í íslensku hlaupasamfélagi? Utanumhald um skráningu á árangri í götuhlaupum og utanvegahlaupum. Tímar úr hlaupum skila sér seint og illa inn í afrekaskrá FRÍ og það eru ekki nógu skýrar reglur um það hvaða hlaup eiga að fara þar inn. Þetta þarf að skýra svo hlauparar viti hvaða árangur fæst viðurkenndur og hlauphaldarar viti hvaða skilyrði þeir þurfa að uppfylla eigi hlaupin að fara inn í afrekaskrá. Eins held ég  að á tækniöld hljóti að vera hægt að koma þessari skráningu í skilvirkara ferli svo ekki þurfi að handfæra alla tíma inn í afrekaskrána. Fólk hefur gaman af því að skoða þessa lista og keppa við að potast upp á þeim svo mér finnst mikilvægt að þeir séu réttir og uppfærðir reglulega.

Sjá einnig:
Arnar Pétursson gerir upp hlaupaárið 2018.
Anna Berglind Pálmadóttir gerir upp hlaupaárið 2018.
Búi Steinn Kárason gerir upp hlaupaárið 2018.