Hlaupaárið 2014: Arnar Pétursson rifjar upp

birt 05. janúar 2015

2014 var Arnari gjöfult á hlaupabrautinni.Um jól og áramót er hollt að líta yfir farin veg. Hlaup.is hefur því fengið einstaklinga úr íslensku hlaupalífi til að rifja upp hlaupaárið sem nú er að líða. Næstu daga mun afraksturinn birtast á hlaup.is. Arnar Pétursson, Íslandsmeistari í maraþonhlaupi karla ríður á vaðið.Hlaupaárið 2014, hvað stóð upp úr?Mér fannst gaman að sjá menn eins og Mo Farrah og Bekele prófa maraþonið, held það verði mjög gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni. Það er eitthvað meira heillandi við að sjá menn sem eru búnir að ná árangri á brautinni færa sig í maraþonið frekar heldur en menn eins og Wilson Kipsang og Dennis Kimetto sem hafa ekki náð neinum svakalegum hæðum á brautinni.

Hvað stóð upp úr hjá þér persónulega á hlaupaárinu 2014?
Það eru þó nokkrir atburðir sem standa upp úr þetta árið, eiginlega sumarið allt í heild sinni. Ég var í skiptinámi í Þýskalandi og æfði þar við rosalega flottar aðstæður, magnað að hugsa sér að það geti verið sumar í 6 mánuði en ekki bara eina helgi í ágúst. Það var náttúrulega ótrúlega gaman að hlaupa í Kaupmannahöfn á heimsmeistaramótinu í hálfu maraþoni og hálf óraunverulegt að vera í sama herbergi og heimsmethafinn í hálfu maraþoni korter fyrir start. Svo var stemmingin eitt það magnaðasta sem ég hef upplifað. Að komast upp um deild með landsliðinu í fyrsta skipti í sögunni var rosalegt og það var gaman að finna hvað það var góður andi í liðinu þrátt fyrir að allir séu einstaklingsíþróttamenn.

Reykjavíkurmaraþonið gekk eins og í sögu og það var mjög gott að ná í góða bætingu þar. Það var kannski hápunkturinn að sjá að þetta var hraðasti tími Íslendings yngri en 25 ára, árangur sem ég er mjög stoltur af.

Við hverju má búast af Arnari Péturssyni á næsta hlaupaári?
Ég mun einbeita mér að 1500-3000m á komandi innanhústímabili og reikna með miklum bætingum í þeim vegalengdum. Í sumar mun ég svo einbeita mér að lengri vegalengdum en helstu verkefnin eru Evrópukeppni landsliða og Smáþjóðaleikar sem verða haldnir á Íslandi, þar mun ég keppa í 3000m hindrunarhlaupi og er markmiðið að nálgast 9 mín. Svo vonast ég eftir miklum bætingum í 5000m og 10000m en þar tel ég mig eiga mikið inni.

Hvaða afrek hjá íslenskum hlaupurum stóðu upp úr árinu, eitthvað sem kom á óvart?
Ég held að árið hjá Ívari Trausta Jósafatsyni sé eitt það magnaðasta sem ég hef heyrt um. Mæli með því að fólk kynni sér hvað hann er búinn að vera að gera á síðastliðnu ári.

Hvernig fannst þér íslenska hlaupaárið, erum við á réttri leið?
Ég missti náttúrlega af sjö mánuðum þetta árið en fyrir utan það er ég mjög sáttur. Það er gríðarlega mikið af skemmtilegum og fjölbreyttum hlaupum á hverju ári og þátttakan eykst jafnt og þétt. Þess vegna langar mig að hvetja fólk til að vera óhrætt við að prófa nýja hluti og nýjar vegalengdir, til dæmis fara "út á land" og hlaupa Flandrasprettinn, svo mæli ég mikið með Gullsprettinum og Viðavangshlaupaseríu Framfara sem er ár hvert í október og nóvember. Víðavangshlaupin eru oftar en ekki skemmtilegustu hlaupin og þar verða líka oft til skemmtilegar sögur.

Sjá einnig:
Gunnar Páll Jóakimsson rifjar upp hlaupaárið 2014
Arndís Ýr Hafþórsdóttir rifjar upp hlaupaárið 2014
Stefán Gíslason rifjar upp hlaupaárið 2014