Hlaupaárið 2015 gert upp: Anton Magnússon, þjálfari Skokkhóps Hauka

birt 06. janúar 2016

Anton að klára Laugaveginn í fyrra með stæl og rúmlega það.Uppgjör hlaup.is við hlaupaárið 2015 heldur áfram og nú er það Anton Magnússon, þjálfari Skokkhóps Hauka sem lætur gamminn geysa.Hvað stóð upp úr í íslensku hlaupalífi á árinu?Í mínum huga er tvennt sem stendur uppúr í íslensku hlaupalífi á árinu 2015. Það fyrsta er að við erum loks komin að ákveðnum þáttaskilum í íslensku hlaupalífi. Það varð töluvert róstur og umræða um lögmæti ákveðinna hlaupa og árangurs ákveðinna hlaupara. Umræðan varð oft óvægin og í upphrópunarstíl. Við höfum of lengi leyft hlutunum að „bjargast" og ekki verið of stressuð á reglum bæði fyrir hlaupara og ekki síður hlaupahaldara. Mér sýnist að það góða sem við getum tekið út úr þessu er að nú verður unnið að því að skýra reglurnar og ekki síður gera fólk meðvitað um reglurnar. Hlaupahaldarar fá svo vonandi mun meira aðhald og aðstoð við að gera keppnishlaupin faglegri og betri.Annað atriði sem mér finnst standa uppúr á árinu eru utanvegahlaupin. Íslensku utanvegahlaupin eru orðin jafn glæsileg og fagleg og þau allra bestu í heiminum. Hlaup eins og Laugavegurinn, Jökulsárhlaupið, Esjuhlaupið, Snæfellsjökullinn og Hvítasunnuhlaup Hauka eru farin að draga að útlendinga allsstaðar að úr heiminum. Það þýðir að við erum að gera eitthvað rétt.Ekki skemmir fyrir að við eigum orðið fjöldan allan af frábærum utanvegahlaupurum, nægir þar að nefna Elísabetu Margeirs og Þorberg Inga sem dæmi. Þessir hlauparar eru komnir í heimsklassa og árangur þeirra mun án vafa hvetja íslenska hlaupara til að pressa enn hraðar og hærra í dásemdinni sem utanvegahlaup eru.

Hvaða íslenski hlaupari stóð uppúr á árinu og hvers vegna?
Í mínum huga er engin vafi hver ber af sem hlaupari ársins 2015. Þorbergur Ingi blómstraði að vanda og þeystist í gegnum Laugaveginn á tíma sem margir héldu að yrði aldrei raunhæft að hlaupa á. Hann toppaði svo árið með frábærum árangri í Heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir hversu stórkostlegur árangur hans var á Heimsmeistaramótinu. Ég ætla samt að spá því að hann eigi nóg inni og eigi eftir að bæta töluvert af "órjúfanlegum afrekum" í sarpinn á næstu árum.

Hvernig gekk þitt hlaupaár persónulega?
Ég átti á heildina litið mjög fínt hlaupaár. Ég fór mjög hægt af stað, því ég er að koma út úr tveggja ára meiðsla tímabili þar sem lítið var hlaupið. Sem dæmi voru janúar æfingarnar hægir þriggja kílómetra hringir. Það tekur sérstaklega á kollinn þegar maður þarf að hlaupa svona stutt og hægt en þetta hafðist. Ég uppskar svo að hafa verið skynsamur og fór ferskur í gegnum Snæfellshlaupið, Laugaveginn og fjöldann allan af styttri hlaupum. Hraðinn og styrkurinn er allur að koma aftur svo ég horfi bjartsýnn fram á næstu ár.

Hvað mun standa upp úr á næsta hlaupaári?
Ég næ þeim virðulega aldri snemma á næsta ári að falla í flokk fimmtugra og fallegra. Stefnan er því sett á að bæta sem flesta tímana mína á árinu, því að allt sem fertugur getur gerir fimmtugur betur. Höfuðmarkmiðið er þó að njóta þess að hlaupa og að ná að þvælast sem mest með hlaupafélögunum í Skokkhópi Hauka. Áttatíu manna hópur frá okkur er skráður í Þriggja landa hlaupið og svo verður Laugavegurinn og Hvítasunnuhlaupið á sínum stað, árið verður því án vafa dásamlegt.

Eitt atriði sem þarf að bæta í íslensku hlaupasamfélagi?
Í stóra samhenginu verður mest spennandi að sjá hvort hlaupasamfélagið og hlaupahaldarar nái að nýta sér umræðuna sem blossaði upp 2015 til að gera hlaupaárið 2016 það besta hingað til.

Hvað kom þér á óvart á íslenska hlaupaárinu?Fjöldinn af útlendingum sem koma gagngert til Íslands til að hlaupa. Ég hef lengi gert mér grein fyrir að það fælust gríðarleg tækifæri í hlaupaferðamennsku og að útlendingar eru tilbúnir að leggja ýmislegt á sig til að hlaupa við jafn heillandi aðstæður og eru á Íslandi. Sá gríðarlegi fjöldi útlendinga sem hljóp Laugaveginn og tók þátt í Reykjavíkurmaraþoninu kom mér þó á óvart. Þessi landkynning sem hlaupin eru, er greinilega að virka og hefur vaxið mun hraðar en ég þorði að vona. Anton th. ásamt hlaupafélögum eftir Laugavegshlaupið 2015.

Sjá einnig: Hlaupaárið 2015 gert upp: Óskar Jakobsson, þjálfari hjá Valur Skokk