Kári Steinn um komandi verkefni: Sjaldan eða aldrei í betra maraþonstandi

birt 02. mars 2015

Kári Steinn á ferðinni á ÓL í London 2012."Ég er ekki búinn að skipuleggja allt árið en ég er búinn að negla niður dagskrána fyrir fyrri hluta árs. Eins og staðan er núna þá er ég á fullu í maraþonundirbúningi og stefni á að hlaupa hálfmaraþon í Berlín þann 29. mars sem lið í undirbúningnum. Síðan er stóra markmiðið að bæta sig í Hamborgarmaraþoni þann 26. apríl," segir Kári Steinn Karlsson í samtali við hlaup.is um hlaupaárið sem framundan er. Seinni hluti ársins ræðst að miklu leyti af árangrinum í Hamborg, ef Kári Steinn hleypur undir 2:18 þá gerir hann ráð fyrir að taka þátt í heimsmeistaramótinu í Peking í lok ágúst.Mun leggja allt í sölurnar fyrir Ól í RíóÓlympíuleikarnir í Ríó fara fram á næsta ári og það hefur að sjálfsögðu sín áhrif þó enn sé rúmt ár í leikana. Mikið er í húfi enda Ólympíuleikar ein stærsta upplifun í lífi hvers íþróttamanns sem þangað nær. Enn liggur ekkert fyrir um Ólympíulágmörk þ.e. á hvaða tíma Kári Steinn þarf að hlaupa á til að komast á leikana. "Það eru ekki enn komin lágmörk fyrir Ólympíuleikana í Ríó en mér skilst að þau verði gefin út í apríl. Fyrirkomulagið verður væntanlega með öðrum hætti í þetta skiptið en ég hef heyrt að lágmörkin verði stífari en áður."Að auki á Kári Steinn von á að ákveðnum kvóta af hlaupurum sem ekki ná svokölluðum A-lágmörkum verði hleypt inn á leikana og þá verði farið eftir árangri. "Hvernig sem þessu verður háttað þá breytir það því ekki að ég kem til með að hlaupa eins hratt og ég mögulega get og reyna að tryggja mér þátttökurétt á leikana," segir Kári Steinn ákveðinn.

Áhersla á stórar og krefjandi maraþonæfingar
Kári Steinn ætti að koma fullur sjálfstraust í komandi verkefni enda æfingaveturinn gengið mjög vel hingað til. Meiðsli hafa ekki sett strik í reikninginn og að sögn hans hafa gæði æfinga verið mjög mikil það sem af er vetri. "Ég er skynsamari en oft áður, hef fært mig mikið inn á bretti í stað þess að berjast sífellt við klakann og náttúruöflin sem oft hefur bitnað á heilsu og gæðum æfinga hjá mér. Fyrir áramót var meiri áhersla lögð á hraða en upp úr áramótum hefur magnið aukist jafnt og þétt og aðaláherslan á að ná sem flestum stórum og krefjandi maraþonæfingum í bankann. Maraþonæfingarnar hafa gengið lygilega vel og ég er farinn að ráða við æfingar sem ég hef hingað til ekki ráðið við. Það er hins vegar munur á því að hlaupa á bretti og hlaupa úti þannig að ég passa mig á að ofmetnast ekki en ég er þó handviss um að ég hafi sjaldan eða aldrei verið í betra maraþonstandi."

"Ekkert stórkostlegt en heldur engin skelfing"Í byrju febrúar var Kári Steinn valinn langhlaupari ársins af lesendum hlaup.is. En hvernig horfir Kári Steinn á hlaupárið 2014, hvað stóð upp úr? "Það var mikill heiður að vera útnefndur langhlaupari ársins og þá sérstaklega þar sem hlauparar landsins kjósa. Hápunktur ársins var Íslandsmet í hálfu maraþoni í mars en ég náði ekki að fylgja þeim árangri eftir. Þetta var svona miðlungs ár, ekkert stórkostlegt að gerast hjá mér en engin skelfing heldur," segir Kári Steinn sem greinilega gerir kröfur á sjálfan sig.Það er vonandi að Kári Steinn verði á brautinni á Ól í Ríó að ári liðnu.

"Mér þótti verst að hitta ekki á gott maraþon en ég steindrapst eftir 25 km í Rotterdam og endaði á 2:19 og svo fékk ég krampa í kálfana eftir 30 km á Evrópumeistaramótinu í Zurich og endaði á 2:21. Það jákvæða er að ég lærði mikið af báðum hlaupum og er nú þegar orðinn betur undirbúinn fyrir Hamborgarmaraþon en ég var fyrir bæði Rotterdam og Zurich. Þannig að ég hef fulla trú á að ég nái að hitta á gott hlaup í Hamborg, reynslunni ríkari og vonandi í mínu besta formi," segir Kári Steinn. Það er því engan billbug að finna á þessum frábæra hlaupara sem vonandi verður á hlaupabrautinni í Ríó að ári liðnu.