Siggi P í viðtali: Samtals hlaupið 2,5 sinnum í kringum jörðina

birt 13. desember 2014

Siggi P í fullum skrúða 1985, árið sem hann setti Íslandsmet í maraþoni sem átti eftir að standa í 26 ár.Sigurður Pétur Sigmundsson er einn af allra bestu langhlaupurum sem Ísland hefur átt. Íslandsmet hans í maraþoni stóð í 26 ár þangað til Kári Steinn Karlsson sló það í Berlín 2011. Sigurður hefur unnið til fjölda Íslandsmeistaratitla auk annarra afreka á hlaupasviðinu, m.a. varð hann breskur háskólameistari í 10.000m hlaupi á námsárum sínum í Skotlandi.Eftir keppnisferilinn hefur Sigurður síður en svo sagt skilið við hlaupin, hann hefur komið víða við í þjálfun, m.a. á okkar bestu langhlaupurum. Þá hefur Siggi P eins og hann er ávallt kallaður skrifað mikið um hlaup, æfingar og æfingaáætlanir, m.a. á hlaup.is.  Við settumst niður með Sigga P og ræddum um gamla tíma og nýja í hlaupaheiminum, Íslandsmetið sem stóð í 26 ár, þjálfun hlaupara og margt fleira.- Þú ert búinn að velkjast lengi um í hlaupaheiminum og margt hefur breyst síðan þú byrjaðir. Hverjar eru stærstu breytingarnar sem hafa orðið? Er margt fyrir hendi í dag sem hefði getað hjálpað ykkur gömlu jöxlunum á sínum tíma?Þegar ég kom heim úr námi erlendis árið 1982 fylgdu tveir mjög snjóþungir vetur. Þá hefði verið gott að hafa hlaupabretti, sem og innanhúsaðstöðu eins og er í Laugardalshöllinni. Á þeim tíma var einnig mjög lítið um upphitaðar götur og gangstéttir. Við urðum bara að ösla snjóinn. Þegar ég var unglingur var heldur ekki neina almennilega hlaupaskó að fá. Ég byrjaði að æfa í strigaskóm og handboltaskóm og var orðinn 17 ára þegar ég eignaðist mína fyrstu hlaupaskó sem þættu ekki merkilegir í dag.

-Er eitthvað sem þú myndir gera öðruvísi í þínum æfingum ef þú væri að hefja ferilinn núna?
Ég myndi leggja meira upp úr því að byggja upp alhliða styrk ásamt því að teygja oftar og meira. Áherslan var fullmikil á æfingahörku, hlaupa sem mest og taka vel á, sem gat leitt til álagsmeiðsla. Ég myndi draga aðeins úr kílómetrasöfnuninni sem var nokkuð rík í mér. Í dag er þjálfun langhlaupara fjölbreyttari en áður - margir synda og hjóla með sem er skynsamlegt til að dreifa álaginu. Ég var þó heppinn að því leyti að sem unglingur stundaði ég fótbolta og handbolta og fékk þar af leiðandi nokkuð fjölbreytta þjálfun.

-Hvernig var litið á ykkur sem voruð að hlaupa í "gamla daga"? Hefur skoðun almennings á hlaupum ekki breyst töluvert á síðustu árum?
Þegar ég var að byrja að æfa frjálsar íþróttir upp úr 1970 hljóp nánast enginn nema hann væri íþróttamaður. Það var óþekkt að fólk á miðjum aldri væri að hlaupa en margir stunduðu hins vegar sund. Hlaup þótti ekki spennandi og ég man eftir því að þegar ég hljóp um götur bæjarins kölluðu krakkarnir gjarnan á eftir mér "einn tveir, einn tveir". Aðspurður um hlaupaæfingar gerði ég oftast lítið úr þeim, sagðist vera að byggja mig upp fyrir fótboltann.

-Eftir að hafa fylgst með þróuninni í öll þessi ár, hvaða þættir gera það að verkum að hlaup eru jafn vinsæl og raun ber vitni í dag?Almenningur hefur áttað sig á því að hreyfing og hollusta eru leiðin til aukinna lífsgæða. Hlaup er einföld og þægileg leið til að hreyfa sig og auðvelt er að sjá framfarir með tímamælingum. Samfélagið hefur breyst mikið á síðustu 50 árum, fólk hefur mun meiri frítíma en áður og getur því gert meira fyrir sig.-Hleypur þú mikið enn þann dag í dag? Tekur þú þátt í almennings- eða keppnishlaupum?Mínum afreksferli lauk of snemma, ég varð að hætta 29 ára vegna þrálátra bakmeiðsla og átti í raun mín bestu maraþonár eftir. Næstu 10-15 árin kom ég með "mini-comeback" af og til. Tók t.d. þátt í Norðurlandamóti öldunga 1993 og 1997. Ég hef alltaf haldið mér í þokkalegu formi en lítið sem ekkert tekið þátt í hlaupum síðustu 10 árin. Eftir liðþófauppskurð í febrúar 2008 hef ég aldrei fengið mig alveg góðan.Þegar ég hóf að þjálfa hjá Fjölni haustið 2011 byrjaði ég að taka hraðaæfingar annað slagið með hópnum á brautinni í Laugardalshöllinni og uppgötvaði að ég hef miklu meira gaman af slíkum æfingum heldur en að hlaupa langt. Undanfarin þrjú ár hef ég tekið þátt í Íslandsmóti öldunga innanhúss og gengið vel miðað við aldur og fyrri störf eins og sagt er. Fór svo í byrjun mars sl. og keppti á Norðurlandamóti öldunga innanhúss í Haugesund og náði 3. sæti bæði í 800 m og 1.500 m í flokki 55-59 ára. Siggi í toppformi 86´, 28 ára gamall. Hlaupafatnaðurinn tekið örlitlum breytingum síðan.

Vandinn er alltaf sá að halda sér heilum, ég er oft  með verki hér og þar enda búinn að hlaupa samtals tvisvar og hálfu sinni kringum hnöttinn. Ekki skrýtið að skokkurinn sé eitthvað farinn að gefa sig. En ég er þó ótrúlega frískur ennþá og heilsugóður og er að sjálfsögðu þakklátur fyrir það. Það er ekki sjálfgefið að geta hlaupið nánast eins og maður vill orðinn 57 ára.

Siggi P og Gunnar Páll Jóakimsson ásamt landsliðsmönum Íslands í langhlaupum, þeim fv. Ingvari Hjartarsyni, Arnari Péturssyn og Kára Steini Karlssyni.-Siggi P hefur sett sitt mark á íslenska hlaupaheiminn og hefur m.a. komið að þjálfun á mörgum af okkar bestu hlaupurum. - Hver er aðkoma þín að hlaupum í dag?Eins og áður sagði er ég að þjálfa millivegalengda- og langhlaupara hjá Fjölni en þar eru nokkur mjög efnileg ungmenni um og yfir tvítugt sem ég hef verið að byggja upp. Þekktust þeirra eru Arndís Ýr Hafþórsdóttir og  Ingvar Hjartarson. Arndís hefur verið í fremstu röð íslenskra hlaupakvenna í nokkur ár en ég hef verið að beina henni í lengri hlaup en þar liggur styrkur hennar að mínu mati. Var mjög ánægður með bætingu hennar í hálfmaraþoninu (1:20:02) á HM í Kaupmannahöfn í lok mars. Hún á eftir að bæta þann árangur enn frekar og hlaupa gott maraþon eftir nokkur ár.

Ingvar er þegar kominn í landslið Íslands og er á meðal 3-4 bestu langhlaupara landsins. Ég sé fyrir mér að hann geti orðið arftaki Kára Steins eftir nokkur ár Þarna eru einnig Guðlaug Edda og Helga Guðný sem eru báðar efnilegar og Hugi Harðarson er í mikilli framför. Þar fyrir utan er ég alltaf að þjálfa minn eigin hlaupahóp, í rauninni tvo. Það hef ég gert í um 20 ár og haft mikla ánægju af að undirbúa fólk á öllum aldri til að takast á við hin margvíslegustu verkefni, allt frá því að taka þátt í 5 km hlaupi upp í ultra vegalengdir.

Síðan hef ég tekið að mér mörg verkefni s.s. startað og þjálfað skokkhópa til skemmri og lengri tíma. Nefni þar Hlaupahóp Stjörnunnar, Skokkhóp Álftaness og skokkhópa fyrirtækja s.s. Orkuveitunnar, Húsasmiðjunnar og Actavis. Það besta við þetta allt saman er hversu mörgu frábæru fólki ég hef fengið tækifæri til að kynnast.

-Það er m.a. hægt að panta sérsniðna æfingaáætlun frá þér í gegnum hlaup.is og fá ákveðna eftirfylgni, hvað felst í slíkri áætlun?Jú, mikið rétt. Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á að halda vel utan um þá sem ég er að þjálfa. Tel mikilvægt að útbúa sérsniðna æfingaáætlun til fjögurra vikna í senn sem tekur mið af bakgrunni, getustigi, tíma og markmiðum svo eitthvað sé nefnt. Ef fólk vinnur skipulega að því að ná markmiðum næst oftast betri árangur og ánægjan af hlaupunum verður meiri.-Miðað við það sem þú sérð, eru íslenskir áhugahlauparar almennt að hlaupa á "réttan" hátt, hver eru algengustu mistök íslenskra hlaupara?,Mér finnst fólk almennt vera duglegt að afla sér þekkingar enda auðveldara um vik en áður með tilkomu netsins. Samt sem áður eru dæmi um að fólk fari of geyst af stað sem getur leitt til álagsmeiðsla. Þá finnst mér of margir, taka of fljótt þátt í ultra hlaupum. Ég tel vænlegra til árangurs að gefa sér lengri tíma og byggja fyrst upp styrk á styttri vegalendrum.-Að þínu mati, hverjar eru lykilæfingar fyrir langhlaupara?Það skiptir miklu máli að þétta grunninn t.d. með alhliða styrktaræfingum, teygjum og hæfilegu hlaupaálagi. Þegar fólk er komið af byrjunarstiginu eru hraðaæfingarnar lykilæfingar. Þær styrkja viðkomandi, forma hlaupastílinn og byggja upp hraðaúthald. Til að fólki líði vel á jöfnum hraða í langhlaupi er mikilvægt að hafa byggt upp hraðaúthald - þannig verður langhlaupið auðveldara. Önnur lykilæfing er langa hlaupið um helgar. Það er mikilvægt til að byggja upp sjálfstraustið, sérstaklega til að byrja með.Siggi ásamt Arndísi Ýr á HM í hálfmaraþoni í Kaupmannahöfn í lok mars síðastliðnum.

-Siggi P átti Íslandsmetið í maraþonhlaupi í heil 26 ár þangað til Kári Steinn Karlsson sló metið fyrir tveimur árum. Hvernig var að sjá á eftir metinu og hvaða skýringu hefur þú á því að metið stóð svona lengi?
Ég var mjög ánægður að sjá að einhver væri tilbúinn að leggja á sig þá vinnu sem þurfti til að ná metinu. Það er ekki sjálfgefið í samfélagi þar sem svo mikið snýst um efnisleg gæði og starfsframa. Kári Steinn er mjög góður hlaupari, góð fyrirmynd og á eftir að bæta sína tíma töluvert. Af hverju metið stóð svona lengi er ekki gott að segja til um. Of einfalt svar er að segja að aðstaðan hafi ekki verið nógu góð - Vilhjálmur Einarsson fékk silfur á Ólympíuleikunum 1956 og þá voru aðstæður ansi fábrotnar miðað við það sem þekkist í dag. Þeir hlauparar sem komu á eftir mér náðu ekki nægilega mörgum góðum æfingaárum í samfellu til að geta tekið feril sinn skrefinu lengra. Það þarf mikla þrautseigju, vinnusemi, metnað og andlegan styrk til að ná árangri í langhlaupum. Þessa eiginleika verða ungu langhlaupararnir að rækta til að bæta sig.

Siggi ásamt Laugavegshópnum á æfingu í Henglinum. Ár hvert þjálfar Siggi hlaupara sem stefna á Laugaveginn.-Svona í lokin, lumarðu á einhverri góðri sögu frá þeim tíma þegar þú varst að æfa hvað mest?Vorið 1975 fór ég í æfinga- og keppnisferð til Englands með Gunnari Páli Jóakimssyni og Jóni Diðrikssyni. Förinni var heitið til Durham þar sem Ágúst Ásgeirsson og Sigfús Jónsson voru við nám og hlaupaæfingar. Þeir félagar höfðu undirbúið komu okkar og til að hafa gistinguna sem ódýrasta höfðu þeir leigt hjólhýsi á svokölluðu caravanside í útjaðri bæjarins.Jóni leist ekki á blikuna og ekki batnaði lund hans þegar þurfti að hlaða púðum við rúmgaflinn því rúmið var alltof stutt fyrir mann 1,95 m á hæð. Um morguninn burstuðum við tennurnar við krana úti á túni.

"Ekki manni bjóðandi að búa við þetta, hvað þá í 5 vikur", sagði Jón og við fluttum daginn eftir á Bed&Breakfast. Þar tók á móti okkur aldraður húsráðandi sem barist hafði í stríðinu og kallaði ekki allt ömmu sína. Þverneitaði að hækka hitann í húsinu og sagði til skýringar að það væri kominn maí - við gætum bara notað fleiri teppi.

Í Bretlandi er ekki þverfótað fyrir hundum og ég man eftir því í þessari ferð að eitt sinn er við vorum í langhlaupi að þá kom hundur á harðaspretti á móti okkur. Jón stóð grafkyrr eins og myndastytta en ég og Gunni Páll stukkum upp í tré. Jón, bændasonur úr Borgarfirði, kunni lagið á hundum og kenndi okkur að hræðast þá ekki. Löngu seinna notaði ég þessa aðferð á langhlaupi í Edinborg. Hljóp þá yfir grænt svæði og man að þar var gömul kona að viðra hundinn sinn, stærðar Schaefer hund. Skipti engum togum en hann kom á rás til mín og stökk á öxlina á mér en aðhafðist ekki meira þar sem ég var alveg kyrr. Man eftir því þegar ég kom til baka úr hlaupinu að kærastan mín spurði hvaða bleyta eða drulla þetta væri á öxlinni á mér. Ég lét sem ekkert væri og þorði ekki að segja henni að þetta væri slef eftir stóran hund.