Þorbergur Ingi: Mikilvægast að fyrsta hugsun sé orkusparnaður

birt 15. ágúst 2014

Þorbergur kominn í mark á nýju Laugavegsmeti.„Ég held að mestu máli skipti að hugsunin sé alltaf að spara orku, þannig að óþarfa orkueyðsla eigi sér aldrei stað. Eða með öðrum orðum, að reyna halda púlsinum jöfnum allan tímann," segir Þorbergur Ingi Jónsson, nýbakaður sigurvegari í Laugavegshlaupinu, um hvernig eigi að hlaupa LaugaveginnÞorbergur heldur áfram og bendir á að líkamlegur styrkur sé mikilvægur. „Einnig er nauðsynlegt að þjálfa "rúllið" þannig að þér líði vel á góðri ferð á beinu köflunum. Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að æfa niðurhlaup."Auk þess að bera sigur úr býtum í Laugavegshlaupinu kom Þorbergur í mark á nýju og glæsilegu brautarmeti eða 4:07:47 og bætti fyrra met um heilar tólf mínútur.

Athyglisverð æfingaáætlun
En hver er formúlan að baki þessum árangri, hvernig æfði Þorbergur fyrir Laugaveginn?

„Ég tók aðeins tvær "mjög langar" æfingar þar sem ég hljóp frekar rösklega 42,2 km og 45 km (3.40-4.15 pace). Annars voru löngu vikulegu túrarnir sem ég hljóp ekki lengri en 22-27 km. Í stað dæmigerðra threshold æfinga eins og 6x1600m og 5x2000m á brautinni, þá hljóp ég alltaf utanvega 6-9x1300-1600m spretti sem innihéldu ca. 300m brekku.

Í stað þess að hlaupa tvær léttar æfingar (30-50 mín)  á "recoverydögum" hljóp ég oftast eina lengri æfingu 65-85 mín, 15-20 km og alltaf utanvega. Ég hélt alltaf inni einni hraðaæfingu á 10 daga fresti, 300-500 m sprettir, bara til að viðhalda hraða og tíðni.

Mér fannst löngu túrarnir og magnið hægja aðeins á mér og minnka kraftinn í brekkunum og því fór ég að taka stutta og hraða brekkuspretti síðustu tvo mánuði fyrir hlaup. Ég reyndi að taka mismunandi brattar brekkur á sömu æfingunni og hljóp 6x300m(skokk á milli) + 6x100m (labb á milli)+ 6x200m (skokk á milli)," segir Þobergur beðinn um að útskýra æfingaáætlun sína í aðdraganda hlaupsins.

Síðasta vikan fyrir LaugaveginnÞá fengum við Þorberg til þess að lýsa síðustu vikunni fyrir Laugaveginn með tilliti til æfinga og næringar:Laugardagur: 55 mín sundhlaup.Sunnudagur: 80 mín á möl, 20 km.Mánudagur: 40 mín hjólatúr.Þriðjudagur: Morgunæfing; 45 mín hlaup, 10 km. Kvöldæfing; 20 mín upphitun. 4x(800+400+200). Alltaf 300-400m hvíldarskokk á milli. Alltaf gefið aðeins meira í með hverju setti. 15 mínútna niðurskokk.Miðvikudagur: 38 mín skokk.Fimmtudagur: Hvíld.Föstudagur: Hádegisæfing; 28 mín skokk. Kvöldæfing: 40 mín ganga.Spurður um næringu segist Þorbergur engu hafa breytt er varðar næringu vikuna fyrir hlaupið. Hinsvegar hafi hann byrjað að taka carboload þremur dögum fyrir hlaup. Sömuleiðis hafi hann tekið salttöflur.

Þykir auðveldara að halda einbeitingu utanvega
Áður en við leiðum talið að öðru en utanvegahlaupum, leikur okkur forvitni á að vita hver sé meginmunurinn á því að hlaupa utanvega og innanbæjar að mati Þorbergs. „Oftast nær er undirlagið mýkra utanvega og þar af leiðandi fer það betur með skrokkinn. Breyturnar og hindranirnar sem þarf að kljást við utanvega eru líka fleiri, s.s. ójöfnur, brekkur og bleyta sem auðveldar manni að halda einbeitingu," útskýrir Þorbergur.

Þorbergi virðist henta vel að hlaupa utanvega.Óhefðbundinn leið á toppinnÞorbergur hefur á síðustu árum verið að stimpla sig inn sem einn allra öflugasta hlaupari landsins en hann byrjaði þó ekki að hlaupa af viti fyrr en um tvítugt og þá frekar styttri vegalengdir.Hann æfði og spilaði fótbolta til 22 ára aldurs auk þess að vera virkur í öðrum íþróttum sem og allskyns fjallabrölti.Það var ekki fyrr en 2004 að Þorbergur þá 22 ára, færði sig yfir í frjálsar með áherslu á 800m og 1500m hlaup.

Áherslunum á styttri vegalengdir hélt Þorbergur allt til 2010 þegar vegalengdirnar tóku að lengjast smátt og smátt. Því er ljóst að bakgrunnur og leið Þorbergs er ekkert sérstaklega hefðbundinn af langhlaupara að vera.

Næsta stóra verkefni Þorbergs er maraþon í Munchen í október næstkomandi. Hann hyggst að sjálfsögðu nota innlend keppnishlaup sem lið í undirbúningnum s.s. Reykjavíkurmaraþonið.

Mest krefjandi að halda sér heilum
En hvernig horfir Þorbergur til framtíðar, hver eru markmiðin?
„Eitt aðalmarkmiðið og það mesta krefjandi er að halda mér heilum og meiðslalausum. Ég stefni síðan að því að halda áfram að bæta mig með áherslu á lengri vegalendir eins og maraþon. Til þess þarf ég auðvitað að bæta mig en frekar í styttri vegalengdum frá 3000 m upp í hálfmaraþon. Nái maður að samræma það að æfa vel og halda sér heilum koma bætingar í kjölfarið," segir þessi öflugi hlaupari að lokum.