Hlaup.is fékk fjölbreyttan hóp hlaupara í lið með sér til að gera upp nýliðið hlaupaár. Afraksturinn mun birtast á hlaup.is á þeim vikum sem enn lifa af hlaupaárinu. Af mörgu er að taka, afrekin óteljandi, almenningshlaupin eru alltaf að verða fleiri og betri, fleiri og fleiri fara erlendis að hlaupa og utanvegahlaupin verða vinsælli ár frá ári. Síðastur til að gera upp hlaupaárið 2018 er Þórólfur Ingi Þórsson. Hann hefur um árabil verið einn af fremri hlaupurum landsins. Hlaupaárið hefur verið Þórólfi gjöfult, hann hefur náð eftirtektarverðum árangri í brautarhlaupum, gerði góða ferð á EM öldunga á Spáni auk þess að vera ofarlega í fjölmörgum götuhlaupum innanlands. Þá hafnaði Þórólfur í öðru sæti í Gamlárshlaupi ÍR.
Hvað stóð upp úr í íslensku hlaupalífi á árinu?
Hjá mér persónulega er það helgarferð í maí til Alicante á Evrópumeistaramót öldunga. Ég keppti í 10 km og hálfu maraþoni með einungis 36 klst millibili og bætti mig í báðum vegalengdum, m.a. bætti ég mitt eigið aldursflokka Íslandsmet í 10 km 40-44ára, 32:58 og var þar með fyrsti 40 ára+ Íslendingurinn til að fara undir 33 mín í 10 km. Ég varð 6. í mínum flokki og 19. í heildina af Evrópu öldungum.
Heilt yfir þá stendur upp úr áframhaldandi áhugi á hlaupum og sífellt er verið að bæta þátttökumet í keppnum.
Hvaða íslenski hlaupari stóð upp úr á árinu?
Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja, það eru svo margir í kringum mig og sem ég er að fylgjast með sem gerðu góða huti á árinu og voru að bæta sig. Mér fannst gaman að sjá Írisi Önnu koma aftur inn í hlaupin og standa sig vel, Elín Edda náði verðlaunapalli í Munchen hálfmaraþoni, Andrea Kolbeinsdóttir var virkilega góð á árinu og náði flottum árangri. Svo verð ég að nefna Rannveigu Oddsdóttur, hún er búin að hlaupa í mörg ár og nær að halda neistanum til að bæta sig. Að lokum kvennamegin er það Anna Berglind sem sannaði það í ár að hún er mjög fjölhæfur hlaupari og ein af þeim bestu utanvega og á götu.
Hjá strákunum eru það hlauparar eins og Hlynur Andrésson sem bætti nokkur Íslandsmet og stóð sig vel í landsliðsverkefnum. Arnar Pétursson hélt áfram að vinna flest hlaup hér heima og náði líka frábærum tíma í 10 km hlaupi í Þýskalandi í vor ásamt því að hlaupa mjög flott hálft og heilt maraþon. Svo langar mig að nefna Vigni Má Lýðsson sem hefur bætt sig mjög mikið í hálfu maraþoni á árinu.
Hvað kom þér á óvart á íslenska hlaupaárinu?
Það var ekkert sérstakt sem kom á óvart. Það er alltaf gaman að sjá fleiri og fleiri fara út að hlaupa sér til heilsubótar.
Hvernig gekk þitt hlaupaár persónulega?
Ég er mjög sáttur við hlaupaárið mitt, það byrjaði mjög vel strax í janúar þegar ég skrifaði undir samning við Nike á Íslandi. Í febrúar setti ég nýtt 40-44 ára met í 3.000m hlaupi innanhús, í júní setti ég svo met í sama aldursflokki í 10.000m á braut og bætti þar með 21.árs gamalt met og varð jafnframt Íslandsmeistari í 10.000m hlaupi. Þetta var sjötta aldursflokka Íslandsmetið mitt.Haustið hefur reynst mér gott en ég hef unnið öll þau götuhlaup sem ég hef tekið þátt í, en upp úr stendur góð bæting í hálfu maraþoni í Haustþoninu 1:13:56. Svo er ég stoltur af því að hafa verið valinn í landsliðið til að keppa á NM í Víðavangshlaupum sem fram fór í Laugardalnum í nóvember.
Hvað mun standa upp úr á næsta hlaupaári?
Sem stendur er ég ca hálfnaður í tæplega sjö mánaða æfingaprógrammi fyrir 10 km í Leverkusen 10.mars og hálfu maraþoni í Berlín 7.apríl. Ég stefni á geggjuð hlaup í báðum þessum keppnum. Það fer svo eftir útkomunni hvernig áherslurnar fyrir restina af árinu verða. Hvort það verði maraþon haustið 2019 verður að koma í ljós, svo er ég lúmskt spenntur fyrir Evrópumeistaramóti Öldunga á braut sem fram fer í Feneyjum í september.
Eitt atriði sem þarf að bæta í íslensku hlaupasamfélagi?
Mig langar til að sjá meira gert til að hvetja ungt fólk til að koma og taka þátt í hlaupum. Síðustu ár hefur mesta sprengingin verið í aldurshóp 30 eða 40+ sem mætir í hlaup. Það er örugglega fullt af krökkum þarna úti sem gætu fundið sig í hlaupum. Ef þetta á að gerast þurfa keppnishaldarar að bjóða upp á marga aldursflokka fyrir yngri hlaupara, t.d 10-12 ára, 13-15 ára o.sfrv.
Það er mín skoðun að keppnishaldarar þurfi líka að gera þessum krökkum hátt undir höfði og veita verðlaun sem hvetja þau til að mæta í næsta hlaup og jafnfram hafa jafnvel sérstök útdráttarverðlaun fyrir þennan hóp. Það væri ekki verra ef skráningargjald fyrir þennan hóp væri stillt vel í hóf og jafnvel boðið upp á fjölskylduskráningu til að hvetja krakka og foreldra til að mæta. Það er pottþétt hvetjandi fyrir krakkana að vinna foreldrana sína í keppni.
Auðvitað væri gaman að við myndum eignast fullt af frambærilegum hlaupurum sem seinna meir gætu gert það gott í erlendum keppnum en fyrst og fremst gætum við fengið fleiri til að stunda hlaup sem leið að bættum lifstíl.
Sjá einnig:
Arnar Pétursson gerir upp hlaupaárið 2018.
Anna Berglind Pálmadóttir gerir upp hlaupaárið 2018.
Búi Steinn Kárason gerir upp hlaupaárið 2018.
Rannveig Oddsdóttir gerir upp hlaupaárið 2018.
Heiðar Halldórsson gerir upp hlaupaárið 2018.