Yfirheyrsla: Atli Sturluson úr Bíddu aðeins

birt 04. september 2014


 Atli til í slaginn í fullum skrúða.
Viðmælandi í Yfirheyrslunni að þessu sinni er Atli Sturluson, Kópavogsbúi úr Bíddu aðeins. Atli hefur hlaupið af og til frá 1990. Hlaupaferilinn fór hins vegar ekki á flug fyrr en hann byrjaði að æfa með Bíddu aðeins árið 2012.

Fullt nafn:  Atli Sturluson.

Aldur: 48 ára.

Heimabær: Kópavogur.

Fjölskylda: Giftur og á tvö stálpuð börn.

Starf: Ég er með Macc í viðskiptafræði og starfa sem rekstrarstjóri á Velferðarsviði Kópavogs.

Skokkhópur: Bíddu aðeins.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Hef hlaupið óreglulega frá 1990, og þá með löngum millihléum, og þá aðallega til að skakklappast í gegnum 7 - 10 km. Árið 2010 skokkaði ég heilt maraþon á tæpum fimm tímum, meira af vilja en mætti. Í febrúar 2012 byrjaði ég að hlaupa með Bíddu aðeins og þá fyrst fóru hlutirnir að gerast fyrir alvöru og tímamarkmið að nást. Haustið 2013 fór ég svo aftur í heilt maraþon og bætti þá tímann um rúmlega 50 mínútur.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Mér finnst best að hlaupa snemma á laugardagsmorgnum, eða strax eftir vinnu á virkum dögum.

Uppáhalds vegalengd? Skemmtilegustu vegalengdirnar fram að þessu eru frá 10-21 km, en eru óðum að lengjast. Mér finnst skemmtilegast að hlaupa í Heiðmörk og öðrum utanvegahlaupaleiðum.

Besti hlaupafélaginn? Félagarnir í hlaupahópnum „ Bíddu aðeins".

Uppáhalds hlaupafatnaður? Við í Bíddu aðeins hlaupum í fötum frá Brooks og Ronhill og er ég sérstaklega ánægður með vetrarfatnaðinn frá Brooks.

Hvernig hlaupaskó áttu? Ég hef mest hlaupið í Asics Nimbus og Brooks Glycerin götuhlaupaskóm, en í utanvegahlaupin er ég í Asics Fuji Sensor 2.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Góðir hlaupafélagar Bíddu aðeins og steinefnadrykkir.

Uppáhaldshlaup innanlands? Ég hef átta sinnum tekið þátt í Flugleiðahlaupinu sem er skemmtilegt hlaup. Einnig er mikil stemmning að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni. Ég hljóp Laugaveginn núna í sumar og var það einnig krefjandi og lærdómsríkt. Mér fannst einstaklega vel staðið að því hlaupi. Ég stefni að því að hlaupa erlendis við fyrsta tækifæri.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Gps úrið sem mælir hraða, vegalengdir, púls og fleira.

Hlaup sem mig dreymir um að taka þátt í? Chicago maraþon er í sigtinu.

Best að borða kvöld/morgun fyrir keppnishlaup? Létt kolvetnaríkt fæði eins og pasta.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Ef ég er einn á ferð þá hleyp ég með fjölbreytta tónlist í eyrunum.  Annars spjalla ég við hlaupafélagana.

Uppáhaldsorkudrykkur? Ég hef notað orkugel frá Afreksvörum sem heitir energy gel. Einnig vatn með steinefna, salt og gostöflum.

Besti matur eftir keppnishlaup? Próteinríkur matur eins og skyr eða próteindrykkir. Einnig finnst mér gott að fá banana.

Hvernig slakar þú á? Ég slaka helst á með lestri góðra bóka.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Laugavegurinn nú í sumar. Svo er stefnan sett á Landvættinn.


Vígalegur á ferð í náttúrunni.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Mér finnst lang skemmtilegast að hlaupa yfir sumartímann því sumarið bíður upp á fjölbreyttari hlaup í náttúrunni.

Bestu tímar? 5 km: ca 27 min, 2013. 10 km: 50:37, 2013. Hálfmaraþon: 1:54:02, 2014. Maraþon: 4:06:12, 2013. Ultra maraþon - Laugavegur: 7:19:50,  2014.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Fyrir lengri hlaup hleyp ég eftir æfingaáætlun sem Bibba þjálfari Bíddu aðeins útbýr.

Hvar hleypur þú mest? Ég hleyp mest út frá Sundlaug Kópavogs þar sem hlaupahópurinn hittist fjórum sinnum í viku.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu:  Seigla og markmiðadrifinn.

Hvað hleypur þú oft, lengi og mikið? Ég hleyp að jafnaði um 40-50 km í hverri viku en lengra þegar verið er að þjálfa fyrir löng hlaup. Ég hleyp að jafnaði 3-4 x í viku.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Ég hef ekki stundað reglulega aðra líkamsrækt með hlaupum en stefni að því að bæta við sund og hjólaæfingum í vetur vegna markmiða um Landvætti. Ég fer einstaka sinnum í sjósund.

Eru sprettir og interval æfingar í æfingaáætlun þinni? Það eru bæði sprettir og Intervalæfingar í æfingaáætlun minni.

Markmið í hlaupunum til lengri og skemmri tíma? Langtímamarkmið mitt er að halda mér í góðu formi, en næsta skammtímamarkmið er Jökulsárhlaupið og í framhaldinu hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu.

Áttu einhverjar fyrirmyndir í hlaupunum? Ég á mér enga sérstaka fyrirmynd þegar kemur að hlaupum, en dáist að nokkrum sem hafa verið áberandi eins og Gunnlaugi og Elísabetu Margeirs.

Skráir þú niður æfingar þínar? Hlaupaúrið mitt heldur utan um hlaupin mín og eru þau geymd í tölvu.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Ég skoða hlaup.is reglulega. Ég fylgist með hlaupadagskrá og fleira góðu efni og finnst þetta góð síða.

Hefur þú hugmyndir til að bæta hlaup.is? Mætti bæta við linkum að gagnlegum greinum sem tengjast hlaupum.

Áttu eftirminnilega sögu sem tengist hlaupum? Ég hef ekki lent í neinum sérstökum hremmingum fyrir utan eitt skipti þegar ég var að hlaupa á Kársnesinu. Ég var með tónlistina í eyrunum er ég heyrði allt í einu urr fyrir aftan mig. Ég snéri mér við í einhverju fáti og gaf þá stórum Rottweiler hundi kröftugt olbogaskot á trýnið. Hann hætti snarlega við að leggja í mig og hrökklaðist í burtu með rófuna milli lappana. Púlsinn hjá mér skaust áreiðanlega upp í 200 slög en jafnaði sig fljótt.