Yfirheyrsla: Inga Dís úr ÍR skokk

birt 10. september 2014


2014 hefur verið ár bætinga hjá Ingu Dís.

Inga Dís, 38 ára hlaupari úr ÍR skokk er i yfirheyrslu á www.hlaup.is þessa vikuna. Fyrir tæpum tveimur árum ákvað Inga Dís sem upprunalega er Njarðvíkingur að stíga upp úr sófanum og fara að hlaupa. Á milli þess að hlaupa starfar Inga Dís sem deildarstjóri hjá Þjóðskrá Íslands og býr í Kópavogi ásamt börnum sínum tveimur, Orra 14 ára og Sóldísi 6 ára.

Fullt nafn: Ingveldur Hafdís Karlsdóttir en ávallt kölluð Inga Dís.

Aldur: 38 ára.

Heimabær: Bý í Kópavogi, uppalin í Njarðvík.

Fjölskylda: Börnin mín, Orri 14 ára og Sóldís 6 ára.

Skokkhópur? ÍR skokk.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Ég steig upp úr sófanum í orðsins fyllstu merkingu haustið 2009 og fór að skokka eftir prógramminu „úr sófanum í 5 km" sem samstarfskona mín hvatti mig til að hlaða niður á I-podinn. Ég mætti svo á fyrstu ÍR skokk æfinguna ári seinna og var aðeins að föndra við hlaupin. Ég byrjaði í raun ekki að hlaupa af neinu viti fyrr en veturinn 2012, helltist aðeins úr lestinni undir lok sumars það ár en kom tvíefld til baka vorið 2013.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Ég á í raun enga uppáhalds vegalengd - finnst einfaldlega gaman að hlaupa, en ef ég á að velja eitthvað þá mundi ég sennilega haka við hálft maraþon.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Heiðmörk er klárlega uppáhalds æfingasvæðið mitt en þar hlaupum við ÍR skokkarar alla laugardaga frá því snjóa tekur að leysa og þar vetur gengur í garð að nýju. Mér finnst reyndar jafnframt rosalega gaman að taka spretti á hlaupabrautinni.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Álagsæfingar finnst mér best að taka seinni partinn en rólegu hlaupin er gott að taka í hádeginu.

Besti hlaupafélaginn? Félagarnir í ÍR skokk eru mínir bestu hlaupafélagar en auðvitað er það svo að sumir falla betur að manni en aðrir og fer það eftir æfingunni og stemmingunni hverju sinni. Minn dyggasti hlaupafélagi er þó klárlega Sigurlín Birgisdóttir sem heldur mér við efnið. Annars er afar ósanngjarnt að gera svona á upp á milli hlaupafélaganna þar sem ég er ávallt umkringd góðum félagsskap á æfingum.

Hvernig hlaupaskó áttu? Ég er forfallinn aðdáandi Pure Flow frá Brooks. Þeir spænast ansi hratt upp hjá mér.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Garmin í útihlaupin og góður félagsskapur sem gerir gott hlaup að betra hlaupi. Heyrnartólin eru ómissandi ef ég tek brettaæfingu.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Hlaup eru ekki mikið græju sport og í raun það eina sem þarf til þess arna er að vera búin góðum skóm. Brooks skórnir mínir hljóta því að teljast til uppáhaldsbúnaðar.


Inga Dís th. ásamt góðum hlaupafélaga.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Utanvegahlaupin sem ég hef tekið þátt í eru án efa í uppáhaldi hjá mér. Það er eitthvað við að hlaupa utanvega fjarri byggð sem verður þess valdandi að maður er afslappaðri og nýtur hlaupsins út í gegn. Nú er ferskast í minni Jökulsárhlaupið en svo er Laugarvegurinn auðvitað hlaup sem ég á eftir að taka aftur þátt í. Ég hef ekki enn tekið þátt í hlaupi erlendis en er skráð í Munchen í haust, ætli það verði ekki uppáhalds erlenda hlaupið í kjölfarið.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Einn góðan veður dag ætla ég á gamlar slóðir og taka þátt í utanvegahlaupum á Nýja Sjálandi, hvort heldur í keppni eða einfalddlega til þess að fara í gott hlaupafrí og hlaupa þar í þjóðgörðunum.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Ég spái því miður lítið í matarræði og vantar alveg metnaðinn þar. Þetta árið hefur Nings komið sterkt inn kvöldið fyrir hlaup og morguninn fyrir hlaup þá er það kaffibollinn ásamt ristuðu brauð með rifsberjasultu.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Ég tók upp á því í sumar að hlaupa með tónlist þegar ég er að hlaupa ein, einkum ef ég er að taka álagsæfingar og þá er tónlistarvalið í takt við það. Ég hlusta alltaf á tónlist þegar ég tek æfingar á bretti og þá læt ég X-ið um að velja lagalistann.

Uppáhaldsorkudrykkur? Sæki lítið í orkudrykki en ef þörf er á þá finnst mér best að fá mér gulan vatnsþynntan Gatorade.

Besti matur eftir keppnishlaup? Ég sæki ekkert sérstaklega í mat eftir keppnishlaup en það er þá einna helst að maður grípi eitthvað á leiðinni heim.

Hvernig slakar þú á? Góð spurning ... ætli mesta slökunin felist ekki í rólegu hlaupi umhverfis Elliðavatn eða rúntur um Laugardalinn og svo heitt bað í kjölfarið (einn kaldur á kantinum veitir dýpri slökun).

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Mestu afrekin eru áfangasigrarnir hverju sinni og því ekkert eitt sem stendur upp úr. Á gamlársdag 2009 var mitt mesta afrek að taka þátt í Gamlárshlaupi ÍR án þess að ganga hluta af leiðinni og ljúka hlaupi á rétt rúmlega klukkustund, en í ár er mesta afrekið í 10 km hlaupi að ljúka hlaupi á 43:27. Þannig að mínum huga er mesta afrekið á hlaupabrautinni hver áfangasigur, hvort heldur sem um er að ræða bætingu á tíma eða að ný vegalengd sé sigruð og því ekki rétt að tiltaka eitthvað ákveðið í þeim efnum.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Á vorin þegar „vertíðin" hefst og Heiðmörkin verður hlaupafær.

Bestu tímar í 5 km/10 Km/hálfmaraþoni/maraþoni? 21:07 í 5 km, 43:27 í 10 km og 1:36:08 í hálfu. Hef ekki hlaupið maraþon.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Nei eiginlega ekki - fylgi yfirleitt bara því sem þjálfarar ÍR skokks stilla upp fyrir æfingar. Hins vegar er maraþon á dagskrá í haust og ég fylgi æfingaáætlun frá Sigga P. fram að því.

Hvar hleypur þú helst? Heiðmörk, Laugardal og í Elliðaárdalnum.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Ég varð að leita álits vina til að svara þessari spurningu. „Fáranlega óþekkur hlaupari" sagði Burkni Helgason þjálfari ÍR skokks. Önnur svör voru  „óhemja" og „„keyrum þetta í gang týpa".Ég get alveg samsvarað mig við þessar lýsingar.


Inga Dís metur hlaupafélagana úr ÍR skokk mikils.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Núna er ég að hlaupa 5-6 sinnum í viku,  samtals 60-70 km.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Styrktaræfingar eru á dagskrá a.m.k. tvisvar í viku á veturna en af einhverjum ástæðum er erfiðara að vakna á morgnana á sumrin, þannig ég missti aðeins dampinn með hækkandi sól. Ég eignaðist hjól í sumar og ætlaði að vera rosalega dugleg að brúka það.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já slíkar æfingar eru fastir liðir hjá ÍR skokki og eru algjörlega ómissandi.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Halda áfram að bæta mig án þess að þjösnast of mikið á skrokknum svo maður endist nú í sportinu. Þetta ár hefur verið ár bætinganna hjá mér, en ég veit að ég á meira inni og stefni því ótrauð á frekari bætingar. Þarf bara stundum að minna mig á að bætingar eru ekki sjálfgefnar og koma ekki alltaf í stórum stökkum.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Mínar fyrirmyndir eru einkum reyndustu hlaupafélagarnir í ÍR skokk en þeir eru margir og ótækt að gera upp á milli þeirra.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Ég nota connect.garmin og svo nota ég Hlaupadagbókina hans Gunnars Páls.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já, hlaup.is er mekka íslenska hlauparans.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Ég á margar góðar og skemmtilegar minningar úr hlaupunum, en þær eru ekki til frásagnar.