Yfirheyrsla: Vilhjálmur Jónsson úr Hlaupahópi Stjörnunnar og Víkings

birt 01. febrúar 2015


Vilhjálmur með þjálfaranum sínum, Ólympíufaranum Jóni Arnari Magnússyni.

Vilhjálmur Jónsson, fimmtugur hlaupari úr Hlaupahópi Víkings og Hlaupahópi Stjörnunnar er viðmælandi hlaup.is í Yfirheyrslunni að þessu sinni. Vilhjálmur sem er húsgagnasmíðameistari féll fyrir hlaupunum fyrir örfáum árum.

Svo heltekin er Vilhjálmur af hlaupunum að hann nýtir tímann á milli verkefna á verkstæðinu til að gera styrktaræfingar.

„Ég byrjaði að hlaupa með Hlaupahópi Víkings í janúar 2013, hafði ekkert verið að hlaupa síðan ég var unglingur í sveit að elta rollur. Svo ég er enn byrjandi í sportinu, ekki komin tvö ár en ég vildi óska þess að ég hefði byrjað miklu fyrr.

Ég fann fljótlega hvað þetta var gaman og hvað ég hafði mikinn áhuga á sportinu. Hlaupin gefa mér svo mikið, allt verður svo miklu léttara bæði andlega og líkamlega," segir Vilhjálmur aðspurður um hlaupin og kosti þeirra.

Fullt nafn: Vilhjálmur Jónsson.

Aldur: 50 ára.

Heimabær: Garðabær.

Fjölskylda: Giftur og á þrjú börn.

Skokkhópur:  Ég er í tveim hlaupahópum. Hlaupahópi Víkings og Hlaupahópi Stjörnunnar.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? 23. janúar 2013, já ég er með þessa dagsetningu á tæru þarna voru stigin gæfuspor og ekki aftur snúið.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur?  10- 21 km.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa?  Allstaðar skemmtilegt en ef ég á að velja einn stað þá væri það Lyngdalsheiðin, æðisleg hlaupaleið. Ég er með bústað á Laugarvatni og hleyp stundum frá Gjábakka og að Laugarvatni, það myndi ég segja að væri uppáhalds hlaupaleiðin.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Alveg sama, bara þegar tími er til.

Besti hlaupafélaginn? Enginn sérstakur, félagarnir í hlaupahópunum allir sem einn.


Vilhjálmur byrjaði að hlaupa fyrir réttum tveimur árum og árangurinn hefur ekki látið á sér standa.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Asics.

Hvernig hlaupaskó áttu? Adidas energy boost og Brooks glycerin 11.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Hlaupaskórnir og hlaupaúrið.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Ekki lengi að svara þessu, Gullspretturinn! Það hlaup er einn rússibani, torfæruhlaup í æðislegu umhverfi. Hef ekki enn farið erlendis að hlaupa.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Hlaupaúrið, Ipodinn og hlaupabeltið.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? New York og Berlín.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Kvöldið fyrir er það td. pasta, brauð, grænmeti og um morguninn ristabrauð með sultu og banana.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Ef ég er að hlaupa einn eða í keppnishlaupum þá hlusta ég alltaf á tónlist. Það er ekki hvað sem er sem kemst á playlistann, taktföst dansmúsik er tónlist sem virkar hvetjandi fyrir mig.


Vilhjálmur hefur sett  stefnuna á Edinborgarmaraþonið núna í vor.

Hvernig slakar þú á? Fer í heitt bað eða sýsla eitthvað í tölvunni.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Ætli það sé ekki síðasta Reykjavíkurmaraþon, þar hljóp ég hálft maraþon á tímanum 1:42:10.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Það er alltaf gaman að hlaupa en á sumrin er það sérstaklega skemmtilegt.

Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni? Á engan tíma í 5km. 10 km - 45:45 / 21 km - 1:42:10.

Uppáhaldsorkudrykkur? Powerade.

Besti matur eftir keppnishlaup? Fæ mér yfirleitt próteindrykk fljótlega eftir hlaup og eitthvað orkumikið og hollt í kjölfairð. Ekkert eitt frekar en annað í uppáhaldi.

Hvar hleypur þú helst? Það er mjög víða, í Garðabænum, Elliðárdalnum og Laugarvatni þegar ég er bústað.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Ég er kappsamur hlaupari og er í þessu af ástríðu.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Þrisvar til fjórum sinnum í viku, samtals ca 30-55 km.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Ég er yfir leitt einn á verkstæðinu mínu á daginn og reyni að koma inn 1-2 settum af styrktaræfingum á dag. Þá geri ég styrktaræfingar í s.s. armbeygjur, magaæfingar, hnébeygjur, framstig, kálfaæfingar, jafnvægisæfingar, planka og teygi.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Stefni á Edinborgarmaraþonið þann 31.maí næstkomandi sem verður mitt fyrsta heila maraþon. Langtíma markmiðið er aðallega að halda áfram að hlaupa og geta notið þessara lífsgæða og gleðinnar sem hlaup gefa mér. Er núna að jafna mig eftir meiðsl sem stöðvuðu mig á tímabili og hafa breytt mínu plani svolítið í vetur.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Hlauparar á mínum aldri og eldri sem eru að gera góða hluti í hlaupum eru mín fyrirmynd.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Já, ég nota hlaupaúrið mitt og skrái það inn með Garmin connect.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já, ég geri það. Frábær síða, alveg ómissandi, gott að geta gengið að gagnlegum upplýsingum fyrir hlaupara.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Mætti kannski fara breyta útlitinu á síðunni en það eru nú mögulega aukaatriði.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Þetta er ekki beint saga en sýnir hversu skemmtilegt getur verið að vera í góðum hlaupahóp. Hlaupahópur Stjörnunnar gerði sér góða ferð inn í Reykjavík einn laugardagsmorguninn. Við hlupum frá íþróttahúsinu í Ásgarði í Garðabænum og var áfangastaðurinn veitingarstaðurinn Jómfrúin. Eftir 21 km og skemmtilegt hlaup settumst við niður við langborð, fengum okkur danskt smörrebröd og renndum því niður með svellköldum Tuborg. Síðan skellti hópurinn sér í strætó til baka aftur í Garðabæinn.

Ég man nú eftir einni broslegri sögu sem gerðist stuttu eftir að ég byrjaði að hlaupa.
Ég mætti á æfingu hjá Hlaupahópi Víkings, eftir ca 2,5 km fæ ég skyndilega í magann og ekkert klósett í nágrenninu. Ég sló örugglega hraðamet þegar ég spretti niður í Vík á postulínið, ekki annað hægt en að brosa af þessu.