Áheitahlaup Sigmundar Stefánssonar á Selfossi

uppfært 24. janúar 2023

Fimmtudaginn 2. febrúar næstkomandi mun Sigmundur Stefánsson og hlaupahópurinn Frískir Flóamenn efna til áheitahlaups þar sem Sigmundur mun hlaupa 70 km í tilefni af 70 ára afmæli sínu sem ber upp á þann sama dag og hefur verið ákveðið að hafa þetta áheitahlaup til styrktar Hjartaheill og/eða Krabbameinsfélagi Árnessýslu.

Á síðustu misserum hefur Sigmundur gengið í gegnum krabbameinsmeðferð og opna hjartaaðgerð en þessar aðgerðir gengu mjög vel, þökk sé hinu frábæra heilbrigðiskerfi sem við eigum hér á Íslandi.

BRU2016 062
Sigmundur Stefánsson

Með þessu hlaupi vilja Sigmundur og Frískir Flóamenn vekja athygli á mikilvægi hreyfingar og sérstaklega þegar áföll og veikindi hafa herjað á og að hægt er að viðhalda þeim lífsstíl sem hver og einn hefur tileinkað sér þrátt fyrir mótlæti.

Félagar úr Frískum Flóamönnum munu hlaupa með Sigmundi hluta leiðarinnar og einhverjir alla vegalengdina, en hlaupinn verður 7 km hringur sem kallaður er Simmalingur (sjá kort hér fyrir neðan) . Okkur þætti sérstök ánægja að sjá sem flesta úr hlaupasamfélaginu taka þátt í þessum viðburði og einnig eru velkomnir allir þeir sem vilja ganga Simmalinginn á sínum forsendum.

Framkvæmd hlaupsins verður með þeim hætti að farinn verður 7 km langur hringur (sjá kort) 10 sinnum. Fyrsti hringurinn hefst við Tryggvagötu 20-22 (sem er fæðingar og æskuheimili Sigmundar) kl. 07:00 um morguninn og áætlað er að hver hringur taki 49 mín, miðað við meðalhraða 7 min/km (pace). Hver hringur hefst svo á heila tímanum við Sundhöll Selfoss og er sá síðasti því áætlaður kl. 16:00. Samtals er því stefnt á að hlaupa 70 km á 10 klukkutímum, frá kl. 07:00-17:00.

Viðburðurinn er eins og fyrr sagði áheitahlaup fyrir tvö góðgerðarfélög, Hjartaheill og Krabbameinsfélag Árnessýslu og eru allir áhugasamir hvattir til að heita á Sigmund með frjálsum fjárframlögum til þessara félaga en hægt verður að nálgast tengingu á viðburðarsíðu hlaupsins SIMMALINGUR á Facebook.

Þeir sem ekki hafa möguleika á þessum greiðslumáta og vilja styrkja félögin geta haft samband beint við viðkomandi félag, Hjartaheill í síma 552-5744 og Krabbameinsfélag Árnessýslu í síma 482-1022.

Með von um að veðurguðirnir og góðar vættir verði með okkur í liði þann 2. febrúar nk. í byrjun þorra.

Simmalingur Kort
Simmalingur - 7 km hlaupahringur