uppfært 23. september 2021

Um síðustu helgi fór Copenhagen Half Marathon fram þar sem 90 Íslendingar kláruðu hálft maraþon. Hlaupið er hluti af röð hálfmaraþonhlaupa sem kallast SuperHalf Series og er í ætt við sex hlaupa Marathon Majors maraþonseríuna sem margir kannast við. Serían samanstendur af fimm hlaupum sem fram fara í Lissabon, Prag, Kaupmannahöfn, Cardiff og Valencia. Í Copenhagen Half Marathon kláruðu rúmlega 15 þúsund manns hlaupið.

Listi yfir tíma Íslendinganna er á hlaup.is, undir Hlaup í útlöndum/Úrslit.

Nokkrir af Íslendingunum náðu mjög góðum árangri í sínum aldursflokki eins og Stefán Guðmundsson sem vann aldursflokkinn 50-54 ára á 01:13:03 klst. Hulda Fanný Pálsdóttir komst á pall í aldursflokknum 15-19 ára og lenti í þriðja sæti á tímanum 01:28:18 og Hulda Guðný Kjartansdóttir lenti í 11 sæti í aldursflokknum 45-49 ára á tímanum 01:32:46. Nokkrir aðrir voru meðal hundrað efstu í sínum aldursflokki eins og Árni Geirsson á 01:16:08 í 74 sæti í 30-34 ára, Páll Jóhannesson á 01:22:15 í 41 sæti í 45-49 ára, Jóna Dóra Óskarsdóttir á 01:39:20 í 26 sæti í 45-49 ára, María Magnúsdóttir á 01:43:09 í 71 sæti í 35-39 ára, Valdís Sigurvinsdóttir í 01:45:26 í 65 sæti í 40-44 ára, Ragnheiður Gunnarsdóttir á 01:46:22 í 78 sæti í 40-44 ára, Þórgunnur Torfadóttir á 01:53:42 í 53 sæti í 55-59 ára, Inger Ágústsdóttir á 02:24:47 í 81 sæti í 60-64 ára og Stefanía Skarphéðinsdóttir á 02:31:42 í 31 sæti í 65-69 ára.