uppfært 03. október 2021

Hátt í 90 þúsund hlauparar tóku þátt í London maraþoninu sem fram fór í dag sunnudaginn 3. október, þar af um 35 þúsund manns á götum London en hinir í "virtual" hlaupi, þar sem hlauparar fengu 24 klst til að klára maraþon vegalengdina. Þá voru liðnir nákvæmlega 889 dagar frá því að London maraþon var haldið síðast á hefðbundinn hátt.

Það náðist frábær árangur í hlaupinu, þar sem fimm konur fóru undir tvær klukkustundir 19 mínútur í fyrsta skipti og þrír karlar kláruðu undir 2:05. Í kvennahlaupinu sigraði kona frá Kenía í sjötta skiptið í röð, en Joyciline Jepkosgei hljóp á í 2:17:43. Fyrstur í hlaupinu og í karlaflokki var Eþíópíumaðurinn Sisay Lemma sem hljóp á 2:04:01.

Í hjólastólakeppninni sigruðu Svisslendingarnir Marcel Hug og Manuela Schär settu þau bæði nýtt brautarmet.

Nokkrir Íslendingar tóku þátt, mun færri en vanalega í ljósi aðstæðna, en þeir náðu ágætis árangri sérstaklega Sif Sumarliðadóttir sem hljóp á 3:22:20. Kíktu á önnur úrslit í London maraþoni hér á hlaup.is.